Myndavélin við nám og kennslu í náttúrufræði
Flestum finnst gaman að taka myndir og má segja að margir unglingar séu á heimavelli á því sviði. Margir kennarar hafa líka séð möguleika í að nýta sér þessa tækni og í þeirra hópi hafa sumir orðið handgengnir myndavélinni sem kennslugagni. Möguleikarnir eru endalausir og ljósmyndatökur virðast höfða til nemenda, ekki síst í hópi unglinga. Stafræna myndavélin fellur undir tölvu- og upplýsingatækni, á hana má líta sem eitt af jaðartækjum einkatölvunnar og með stafrænni tækni hafa komið til sögunnar auknir möguleikar til myndvinnslu.
Rannsóknir á notkun myndavéla í kennslu sýna að þær geta stuðlað að betri náttúrufræðikennslu (Miller, 2001). Með því að láta nemendur sjálfa fá linsuna hvetjum við þá til að hugsa á gagnrýninn hátt og vekjum athygli þeirra á viðfangsefnum sem eru þeim nærtæk. Rannsóknir benda jafnframt til að notkunin geti aukið hugtakaskilning þeirra (Webb, 2008).
Möguleikar myndavélarinnar
Myndavélin sem námsgagn býður upp á marga möguleika í kennslu og í sumum tilvikum væri erfitt eða ómögulegt að ná sama árangri án þeirra. Ákveðnir þættir eiga yfirleitt við þegar þessum möguleikum er beitt og ágætt er að hafa þá í huga (Bull og Bell, 2005).
Að safna myndum. Myndavélin gefur tækifæri til að safna upplýsingum á mynd eða kvikmynd. Hægt er að „safna“ lífverum og varðveita sýnishornin og taka upp þráðinn í næstu kennslustund.
Að greina myndirnar. Skoðun og greining mynda hjálpar nemendum að þjálfa notkun hugtaka en sjónræn framsetning getur verið mikilvæg í því augnamiði. Hún styður nemandann við að flokka og greina og koma auga á tengsl milli fyrirbæra sem annars væri honum hulin.
Að skapa og búa til verkefni. Tæknin býður upp á mikla breidd í framsetningu sem er ekki endilega bundin við útprentun heldur fá nemendur tækifæri til að þroska sköpunargáfu sína við að túlka og setja fram verkefni á fjölbreyttan og skapandi hátt. Mótun verkefna með stafræna framsetningu gefur nemendum endalausa möguleika á að búa til kynningarefni sem hægt væri að koma á framfæri á Netinu. Þannig geta verkefnin fengið hagnýtt gildi og öðlast meiri merkingu og tilgang í augum nemenda.
Að ræða hugmyndir til skilnings. Myndir geta verið góð kveikja að umræðum. Með margmiðlunartækni skapast fleiri tækifæri til miðlunar og samskipta, það sem var áður einungis ætlað kennaranum til yfirlesturs er opið öllum samnemendum til að skoða og ræða.
Myndavélar nýtast vel í útinámi
Viðhorf og reynsla náttúrufræðikennara í grunnskóla
Vorið 2011 var gerð rannsókn sem miðaði að því að skoða hvernig náttúrufræðikennarar í elstu bekkjum grunnskólans nýta sér myndavélarnar og hvaða viðhorf þeir hafa til þess að láta nemendur nota myndavélar í kennslustundum og námsverkefnum (Þórunn Þórólfsdóttir, 2011). Rannsóknin var lokaverkefni greinarhöfundar í meistaranámi, leiðbeinandi var Torfi Hjartarson lektor í kennslufræði og upplýsingatækni við Menntavísindasvið HÍ. Rannsóknin var eigindleg og fólst í viðtölum við sex náttúrufræðikennara á unglingastigi auk vettvangsathugunar þar sem fylgst var með nemendum nota myndavélar við verklega æfingu. Fjórir kennarar voru valdir vegna reynslu þeirra við að nota myndavélar í verkefnum með nemendum en auk þess var rætt við tvo kennara sem hafa gott aðgengi að tölvum og myndavélum án tillits til notkunar. Markmið með rannsókninni var að vekja áhuga náttúrufræðikennara á að nýta sér myndavélina og beina athygli að verkefnum þar sem nemendur taka myndir.
Hvernig eru myndavélarnar nýttar?
Í viðtölum við kennara í þessari rannsókn kom fram að kennararnir nýttu sér vel þá möguleika sem myndavélin bauð upp á í útinámi og sáu kosti þess að geta „tekið náttúruna“ með sér inn eða „safnað“ viðfangi og skoðað nánar. Þeir töldu að myndavélin ýtti undir að skoða ítarlega og koma auga á eða finna ákveðnar lífverur. Þá voru myndirnar iðulega nýttar sem umræðuvettvangur.
Mikið af náttúrufræðinámi felst í því að skilja hugtök og flókin ferli. Kennararnir töldu allir að þar nýttust möguleikar myndavélanna vel. Auk þess styður myndavélin nemendur við að tengja náttúrufræðihugtök við raunveruleg viðfangsefni sem aftur ýtir undir skilning og styður við kennslu og nám.
Möguleikar sem myndavélin veitir kennurum og nemendum við að safna, greina og ræða saman virtust vel nýttir en minna fór fyrir stærri verkefnum þar sem reynir á sköpun byggða á margmiðlun, ef undan eru skilin verkefni sem nemendur leystu í heimavinnu. En dæmi voru um að nemendur voru látnir skila stuttmynd þar sem þeir útskýrðu lögmál í eðlisfræði.
Tæknilegar hindranir
Í rannsókninni kom í ljós að aðstæður kennaranna hvað snertir aðgengi að tækninni eru mjög mismunandi og hefur það áhrif á val þeirra á verkefnum og hvernig þeir nýta sér tæknina.
Það var greinilegt á svörum kennarana að úrvinnsluþátturinn verður útundan. Margar ástæður voru nefndar en helst var nefndur tímaskortur, lítið aðgengi að tölvum og lítill tæknistuðningur. Öll vinna nemenda við myndirnar krefst þess þeir hafi aðgang að tölvum. Aðstæður viðmælenda varðandi aðgengi að tölvum var mjög mismunandi. Aðgengi var allt frá því að hafa engan eða mjög takmarkaðan aðgang að tölvuveri vegna tölvukennslu, yfir í nánast takmarkalausan aðgang að tölvum. Margir fara þá leið að draga úr þeim þætti sem lýtur að úrvinnslu eða þeir láta nemendur vinna verkefnin heima við og gaf það góða raun. Kennararnir töldu það þó hafa þann ókost að þeir gátu lítið leiðbeint nemendum eða veitt stuðning sem þeir telja mikilvægan til að efla og auka við efnislega og tæknilega kunnáttu þeirra.
Tæknilegur stuðningur í tölvuverum virtist sjaldan til staðar. Tæknilegur stuðningur í tölvuveri gæti verið hvatning fyrir fleiri kennara að leggja út í stærri verkefni, en fæstir viðmælendur áttu kost á þeim stuðningi. Það kom einnig fram hjá þeim og í fyrri rannsóknum að kennarar treysta oft á tæknilega kunnáttu nemenda sem þeir telja oft vera meiri en þeirra eigin. Í viðtölum og vettvangsathugun kom líka fram að sumir kennarar vissu ekki af eða höfðu ekki áttað sig fyllilega á þeim möguleikum sem tæknin býður upp á til margmiðlunar og skapandi verkefna. Þar gæti stuðningur frá tölvukennurum komið sterkar inn.
Hvað telja kennarar helstu kosti við að nota myndavélar?
Viðhorf viðmælenda um kosti þess að nota myndavélar eru samhljóða niðurstöðum erlendra rannsókna á því sviði. Þeir telja að helsti kosturinn liggi í að virkja nemendur og vekja áhuga þeirra á náttúrufræði. Í ljós kom, bæði í viðtölum og á vettvangi, að kostir myndavéla í kennslu eru ótvíræðir. Eftirfarandi atriði koma oftast fram og benda til að notkun myndavéla í námi og kennslu stuðli að:
aukinni ánægju nemenda og virkari þátttöku
tengingu námsins við áhugasvið nemenda og fyrri þekkingu nemenda
tengingu hugtaka við daglegt líf nemenda
samvinnu nemenda
myndun samskiptavettvangs til að ræða saman og ígrunda viðfangsefni
auknum áhuga og meiri athygli af hálfu nemenda
gagnrýnni hugsun
Kennarar telja að myndavélin hafi töluverða kosti sem námsgagn í náttúrufræði og sjá flestir möguleika á að nýta sér þá meira.
Niðurstöður gefa vísbendingar um að huga verði að aðgengi kennara að myndavélum, tölvubúnaði og tæknilegri aðstoð. Helstu niðurstöður benda til að það sé fyrst og fremst áhugi kennara á að auka fjölbreytni í kennslu og vekja áhuga hjá nemendum sem ýtir undir þá að fara þessa leið. Það sem helst styður kennara og hvetur þá til að samþætta eða leiða saman náttúrufræði og upplýsinga- og tæknimennt er áhugi þeirra á að nýta tæknina til að efla kennslu og þekking og öryggi í að beita þeirri nálgun.
Höfundur: Þórunn Þórólfsdóttir, náttúrufræðikennari í Austurbæjarskóla
Heimildir
Bull, G. L. og Bell, L. (2005). Incorporating digital images in instruction. Í Glenn L. Bull og L. Bell (Ritstj.), Teaching with digital images. Washington: International society for technology in education.
Webb, M. (2008). Impact of it on science education. Í J. Voogt og G. Kneze (Ritstj.), International handbook of information technology in primary and secondary education (bls. 133–147). New York; London: Springer.
Miller, K. (2001). ICT and Science Education: New Spaces for Gender. Í V. E. Avril Loveless (Ritstj.), ICT, Pedagogy and the Curriculum: Subject to Change. London: Routledge Falmer.
Þórunn Þórólfsdóttir, 2011. Myndavélin við nám og kennslu í náttúrufræði: Viðhorf og reynsla náttúrufræðikennara í grunnskóla. Háskóli Íslands.
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.