Skip to main content
21. July 2011

Nýting upplýsingatækni í kennslu. Símenntun og starfsþróun kennara í og með upplýsingatækni

Á síðustu árum hafa þjóðlönd, álfur og alþjóðasamtök sett fram stefnu, viðmið og áherslur sem lúta að nauðsynlegri lykilfærni þegna í upplýsinga- og þekkingarsamfélögum nýrrar aldar. Alþjóðasamtökin UNESCO leggja mikla áherslu á að stuðlað verði að hæfni á þessu sviði og hafa nýlega gefið út handbók um upplýsingalæsi (Horton, 2008). Í Norður-Ameríku hafa samtökin Partnership for 21st Century Skills, á vegum bandaríska menntamálaráðuneytisins og leiðandi fyrirtækja, sett fram viðmið þar sem því er lýst á aðgengilegan hátt hvers þurfi að gæta við menntun nemenda á skólaskyldualdri. Öflugt upplýsinga- og miðlalæsi með hvers konar færni í stafrænu umhverfi er þar í lykilhlutverki (Partnership for 21st century skills, 2004-). Evrópusambandið hefur mótað ramma um lykilhæfni (European Framework for Key Competences). Er þar digital competence fjórði af átta lykilþáttum (European Commision - Education & Training, 2007). Evrópulöndin hafa mótað eigin ramma út frá þessum viðmiðum. 

Á Íslandi er ekki bein áhersla á stafræna hæfni sem sjálfstæðan lykilþátt í nýjum námskrám grunn- og framhaldsskóla. En þessi áhersla kemur að nokkru fram í grunnþáttunum læsi (í víðum skilningi) og í sköpun. Aðrir grunnþættir í nýjum íslenskum námskrám eru menntun til sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi og jafnrétti. Þessir þættir endurspegla einnig áherslur UNESCO í menntun (UNESCO, 2008c) en UNESCO hefur unnið ötullega í þessum málum og hefur nýlega gefið út handbækur um stefnumótun og hæfniviðmið á sviði upplýsingatækni fyrir kennara (UNESCO, 2008a, 2008b, 2008c).  Þar kemur m.a. fram sú sýn að sjálfbær efnahagsleg þróun þjóða byggi á færni fólks í notkun tækni, hæfni þess til að leysa vandamál og að skapa nýja þekkingu.

Hjá menntarannsóknarstofnun OECD (CERI) er staðið að röð rannsókna um nemendur á nýju árþúsundi (New Millennium Learners Project). Ein umfangsmikil rannsókn í því verkefni er alþjóðleg samanburðarrannsókn sem staðið hefur yfir á upplýsingatækni og miðlun í menntun kennara en athyglin beinist mjög að því hvernig hægt sé að efla þessa þætti.  Enochsen og Rizzi (2009) tóku saman vegna þess verkefnis yfirlit um rannsóknir frá 2002-2009 á upplýsingatækni í grunnmenntun kennara. Þær komust að þeirri niðurstöðu að upplýsingatækni væri ekki notuð að staðaldri eða kerfisbundið í OECD þátttökulöndunum ellefu. Finna mætti góð dæmi um kennara við kennaramenntunarstofnanir sem nýttu upplýsingatækni í kennslu en slík kennsla næði yfirleitt eingöngu til lítils hluta kennaranema sem nýttu því lítið upplýsingatækni í eigin kennslu.

Nýleg OECD rannsókn sem beindist að Norðurlöndunum bendir einnig til að stafrænt námsefni sé vannýtt í kennslu og mikilvægt sé að móta stefnu og aðferðir til að efla stafræna hæfni og/eða upplýsingalæsi (OECD - Centre for Educational Research and Innovation (CERI), 2009, bls. 17). Alþjóðleg rannsókn fyrir nokkrum árum gaf til kynna að aðgengi að tölvum væri mjög gott í íslenskum grunnskólum miðað við aðra evrópska skóla (Empirica, 2006). Þó virtist nýting upplýsingatækni í kennslu og námi eingöngu vera í meðallagi og íslenskir kennarar áhugaminni en kennarar í öðrum Evrópulöndum um nýtingu upplýsingatækni í kennslu (Empirica, 2006).  Fyrstu niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar á þróun starfshátta í íslenskum grunnskólum benda til að tölvunotkun og nýting upplýsingatækni hafi ekki aukist frá árinu 2005 (Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs, 2010)[2]. Það virðist því síður en svo ástæða til að draga úr vægi þessa þáttar í íslenskum skólum og í kennaramenntun.

Fjar- og netkennsla á framhaldsskólastigi hefur á hinn bóginn vaxið hröðum skrefum undanfarin ár (tuttugufaldaðist frá 1997 til 2008 – 232 nemar til 4782) þó bakslag hafi komið í þá þróun í kjölfar kreppunnar (Hagstofa Íslands, 2011)[3].  Ef litið er til þróunar t.d. í Bandaríkjunum á framhalds- og háskólastigi er líklegt að sífellt meiri kennsla og nám fari fram á netinu, bæði formlegt og óformlegt (Allen og  Seaman, 2010; Picciano og  Seaman, 2009). Margir líta svo á að um byltingu sé að ræða með nýjum miðlum eins og titill á nýrri bók Curtis J. Bonk (2009) ber með sér: The world is open: How web technology is revolutionizing education. Mikilvægt er að kennaranám taki mið af þessari þróun. Miðað við stöðu í framhaldskólum er t.d. íhugunarefni að undirbúningur fyrir fjarkennslu virðist takmarkaður í kennaranámi flestra fjarkennara (Sólveig Jakobsdóttir og  Þuríður Jóhannsdóttir, 2010). Umræður eru við Menntavísindasvið Háskóla Íslands um að mikilvægt sé að bjóða upp á diplómanám fyrir verðandi fjarkennara. Í því sambandi væri t.d. hægt að byggja á stöðlum alþjóðlegu samtakanna iNacol (The International Association for K-12 Online Learning) um gæði í fjar- og netkennslu (iNACOL, 2009).

Símenntun kennara

Mjög mikilvægt er að huga að símenntun kennara þar sem þróun er ör í upplýsingatækni og ný tækifæri og möguleikar opnast stöðugt í kennslu, námi og starfsþróun. Finna má nýlega umfjöllun um síðastnefnda þáttinn í nýútkomnu riti  þar sem m.a. er fjallað sérstaklega um áhrif fjarnáms og nýrra tæknimöguleika á starfsþróun kennara (Jakobsdóttir, McKeown og Hoven, 2010). Viðhorf hafa mjög breyst og fagvitund kennara með aukinni menntun. Þróunin hefur verið í átt frá því að líta á kennarastéttina sem vinnuafl/launþega (employees) sem þiggi endurmenntun á vegum vinnuveitenda í þá átt að kennarar séu fagfólk (professionals) með forsendur til þess að bæði gefa og þiggja í sinni starfsþróun hvort sem er á stað, á neti, á sínum vinnustað, nærsamfélagi,  á landsvísu eða út fyrir landsteinana.

Vægi óformlegra leiða til starfsþróunar hefur einnig aukist. Eitt nýjasta dæmið hér á landi um hvernig hægt er að nýta upplýsingatækni í starfsþróun kennara er Tungumálatorgið (http://www.tungumalatorg.is) en markmið þess er að styðja við nám og kennslu tungumála og fjölmenningarlegt skólastarf. Verkefnið hefur m.a. verið stutt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Menntavísindasviði Háskóla Íslands (MVS) og fleiri aðilum. Vettvangurinn samanstendur af upplýsinga-, ráðgjafar-, námsefnis- og samskiptavefjum og getur haft mikla þýðingu fyrir tungumálakennara, skólastjórnendur, foreldra og nemendur. Skráðir meðlimir eru þegar þetta er skrifað um 149 talsins. Verkefnið hefur vakið áhuga víða og stuðningur fékkst nýlega úr Sprotasjóði til að þróa sambærilegan vettvang fyrir náttúrufræðikennara[4]. Þá er áhugi fyrir að þróa vettvang af sama toga fyrir sérkennara.

Mikil þróun á sér nú stað í uppbyggingu óformlegra tengslaneta og formlegri samfélaga á neti. Mjög flókið er hins vegar að skapa hentugt stafrænt umhverfi sniðið að þörfum viðkomandi samfélaga þar sem nýir miðlar, verkfæri og tæknimöguleikar eru í stöðugri þróun. Vanda þarf til vals þeirra og þeirra aðferða sem nýttar eru til að fá góða þátttöku og virkni. Um er að ræða nýtt rannsóknarsvið þar sem mikil þörf er á að skapa meiri þekkingu en áhugasömum er bent á bókina Digital habitats: stewarding technology for communities (Wenger, White og Smith, 2009) og nýtt þemahefti Connectivism: Design and delivery of social networked learning í tímaritinu IRRODL (www.irrodl.org).  Áætlun liggur fyrir um rannsóknar- og þróunarverkefni sem hefur fengið heitið NETTORG. Hún hefur verið unnin á vegum Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun (RANNUM[5]) sem undirrituð stýrir við MVS í samvinnu við fleiri rannsóknarstofur við sviðið[6] og Tungumálatorgið.  Ef styrkveitingar fást þá stefnum við annars vegar að því að skoða uppbyggingu tengsla- og félagsneta í menntun og hins vegar munum við skoða sérstaklega Tungumálatorgið. Um er að ræða bæði þróunarverkefni til að stuðla að uppbyggingu torgsins fyrir mismunandi notendahópa og rannsóknir þar sem nýtingin og áhrif hennar eru skoðuð. Verkefnið getur skapað fræðilegan og hagnýtan þekkingargrunn á nýju sviði sem getur gagnast vel til að nýta og þróa nýjar leiðir með nýjum miðlum og tæknimöguleikum í menntun og rannsóknum. Hugsanlega gæti orðið um samstarf að ræða við uppbyggingu nýrrar Menntagáttar. Fyrri útgáfa Menntagáttar var aðallega upplýsingaveita fyrir kennara, námsfólk og foreldra þar sem hægt var að finna námsefni tengt markmiðum í námskrá flokkað eftir bekk/aldri og námsgreinum. Þá var þar að finna upplýsingar um skóla og menntun (CERI/OECD, 2008). Erfitt var halda utan um endunýjun á efni og hönnunin tók ekki mið af möguleikum tengslaneta. Frumútgáfa af nýrri menntagátt opnaði hins vegar 26. maí sl. (http://alpha.menntagatt.is). Líkist hún Facebook að ýmsu leyti en fyrirhugað er einnig að þróa þar wiki-svæði með menntatengdu efni. Vonast til að samfélag myndist sem geti tekið virkan þátt í að móta umhverfið hafa samskipti, deila efni og byggja upp þekkingu. Vonir standa einnig til að nýja menntagáttin geti nýst til starfsþróunar kennara og skólafólks.

Þó vægi tengslaneta og óformlegra leiða til símenntunar sé að aukast er ekki þar með sagt að formlegri leiðir eigi ekki einnig að standa til boða. Á árunum 2006-2009  var námskeiðið Tölvutök í boði fyrir kennara í Reykjavík og víðar[7]. Námsefnið og námsfyrirkomulagið kom frá Danmörku (Skole-IT), þróað sem nokkurs konar UST-ökupróf m.t.t. kennslu og var þýtt og staðfært fyrir fleiri lönd þar á meðal Ísland. Farið var mjög bratt af stað með yfir 400 kennara skráða úr allmörgum Reykjavíkurskólum og um 80 frá Skagafirði fyrsta árið sem þetta var prófað hér á landi skólaárið 2006-2007. Um 170-180 kennarar luku námskeiðinu og þó ýmsir væru ánægðir var töluvert um óánægjuraddir[8]. Mörgum fannst þetta of umfangsmikið og voru óhressir í garð skólastjóra sem höfðu skráð alla kennara hjá sér í námskeiðið án mikils samráðs við þá. Hátt á annað hundrað kennara voru þó skráðir í námskeiðið árið á eftir en árið þar á eftir voru aðeins um 16 sem luku námskeiðinu (vorið 2009). Því miður var ekki gerð formleg úttekt á verkefninu til að skoða betur hvað fór úrskeiðis en e.t.v. hefði verið betra að byrja með fámennari hópa til að sníða vankanta af og þróa kennslu og námsefni svo áfram.

Áhugavert símenntunarnámskeið ætlað kennurum hefur verið þróað í Evrópuverkefninu ICTeacher (sjá http://www.icteacher.eu) Í verkefninu var einnig rannsakað hvernig símenntun kennara væri háttað í upplýsingatækni í Austurríki, Danmörku, Englandi, Spáni og Ungverjalandi. Inntak námskeiðsins sem ætlað er til kennslu með blönduðum hætti (net og stað) snýr t.d. að samskiptum og tengslanetum í kennslu, leikjum, gagnrýni og íhugun, farnámi (mobile learning) og nýtingu stafræns námsefnis.

Framtíðar þróun

Kennarar jafnt sem nemendur þurfa að þróa með sér nýja læsi í takt við þróun nýrra gagnvirkra samskiptamiðla. Eins og Guðný Guðbjörnsdóttir (Guðný Guðbjörnsdóttir, 2010) bendir á felur þetta í sér mikla áskorun fyrir menntakerfið.  En við sem störfum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og höfum verið í forsvari fyrir menntun kennara í upplýsingatækni lítum einnig svo á að mjög spennandi verði að vinna í skólaþróun, með nýjum miðlum í samstarfi við vettvang, stjórnvöld og skólasamfélagið allt. Mikilvægt er m.a. að stuðla að auknu framboði símenntunar og fræðslu fyrir kennara um nýtingu upplýsingatækni í kennslu, um fjar- og netnám, frjálsan hugbúnað og opið menntaefni. Við höfum staðið að fjölmörgum námskeiðum á undanförnum árum í grunn- og framhaldsnámi kennaranema sem hafa verið að þróast í takt við nýja miðla en því miður hafa þau aðeins náð til lítils hluta þeirra þúsunda kennara sem starfa nú á vettvangi. Þróa mætti mörg þessara námskeiða þannig að þau hentuðu og nýttust starfandi kennurum á vettvangi með opnari aðgengi en verið hefur og meiri sveigjanleika varðandi þátttöku, verkefnaskil og/eða mat.

Höfundur Sólveig Jakobsdóttir [1], Dósent í fjarkennslufræðum, Forstöðumaður Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun (RANNUM) Menntavísindasviði Háskóla Íslands

Heimildir

Allen, I. E. og Seaman, J. (2010). Learning on demand: Online education in the United States, 2009. Needham, MA: Babson Survey Research Group & The Sloan Consortium. Sótt 15. júlí 2011 af http://sloanconsortium.org/publications/survey/pdf/learningondemand.pdf
Bonk, C. J. (2009). The world is open: How web technology is revolutionizing education. San Francisco: Jossey-Bass.
CERI/OECD. (2008). OECD study on digital learning resources as systemic innovation: country case study report on Iceland. Paris: OECD. Sótt 15. júlí 2011 af http://www.oecd.org/dataoecd/10/7/41848715.pdf
Empirica. (2006). Use of computers and the Internet in schools in Europe 2006.  Country brief: Iceland. Bonn: European Commision. Sótt 15. júlí 2011 af http://ec.europa.eu/information_society/eeurope/i2010/docs/studies/learnind_countrybriefs_pdf.zip
Enochsson, A.-B. og Rizza, C. (2009). ICT in initial teacher training: research review (OECD Education Working Papers Nr. 38): OECD Publishing. Sótt 15. júlí 2011 af http://dx.doi.org/10.1787/220502872611
European Commision - Education & Training. (2007). Key competences for lifelong learning: European reference framework. Sótt 15. júlí 2011 af http://ec.europa.eu/dgs/education_culture/publ/pdf/ll-learning/keycomp_en.pdf
Guðný Guðbjörnsdóttir. (2010). The uses and challenges of the “New literacies” - Web 2.0 in education and innovation. Netla - veftímarit um uppeldi og menntun, 9(2). Sótt 15. júlí 2011 af http://netla.khi.is/menntakvika2010/009.pdf
Hagstofa Íslands. (2011). Hagtölur - Skólamál - Framhaldsskólar - Skráðir nemendur eftir kennsluformi og tegund skóla að hausti 1997-2010. Sótt 15. júlí 2011 af http://www.hagstofan.is/
Horton, F. W. (2008). Understanding information literacy: a primer. Paris: UNESCO. Sótt 15. júlí 2011 af http://unesdoc.unesco.org/images/0015/001570/157020e.pdf
iNACOL. (2009). The International Association for K-12 Online Learning. Sótt 15. júlí 2011 af http://www.inacol.org
Jakobsdóttir, S., McKeown, L. og Hoven, D. (2010). Using the new information and communication technologies for the continuing professional development of teachers through open and distance learning. Í P. A. Danaher og  A. Umar (Ritstj.), Teacher education through open and distance learning (bls. 105-120). Vancouver, Canada: Commonwealth of Learning. Sótt 15. júlí 2011 af http://www.col.org/resources/publications/Pages/detail.aspx?PID=332
OECD - Centre for Educational Research and Innovation (CERI). (2009). Beyond textbooks: digital learning resources as systemic innovation in the Nordic countries. Paris: OECD. Sótt 15. júlí 2011 af http://www.oecd.org/document/49/0,3343,en_2649_35845581_43915633_1_1_1_1,00.html
Partnership for 21st century skills. (2004-). Partnership for 21st century skills. Sótt 15. júlí 2011 af http://www.p21.org/
Picciano, A. G. og Seaman, J. (2009). K-12 online learning: a 2008 follow-up of the survey of U.S.school distric administrators. Needham, MA: Babson Survey Research Group, Hunter College - CUNY, The Sloan Consortium. Sótt 15. júlí 2011 af https://secure.onlinelearningconsortium.org/publications/survey/k-12online2008
Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs. (2010). Starfshættir í grunnskólum: Niðurstöður úr fjórða hluta spurningakönnunar. Reykjavík: Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs - Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Sótt 15. júlí 2011 af http://skrif.hi.is/starfshaettir/
Sólveig Jakobsdóttir og Þuríður Jóhannsdóttir. (2010). Úttekt á fjarkennslu í framhaldsskólum. Reykjavík: RANNUM og SRR Háskóla Íslands. Sótt 15. júlí 2011 af http://www.menntamalaraduneyti.is
UNESCO. (2008a). ICT competency standards for teachers: competency standards modules. Paris: United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization. Sótt 15. júlí 2011 af https://unesdoc.unesco.org/ark:/48223/pf0000156207
UNESCO. (2008b). ICT competency standards for teachers: implementation guidelines, version 1.0. Paris: United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization. Sótt 15. júlí 2011 af http://unesdoc.unesco.org/images/0015/001562/156209E.pdf
UNESCO. (2008c). ICT competency standards for teachers: policy framework. Paris: United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization. Sótt 15. júlí 2011 af http://unesdoc.unesco.org/images/0015/001562/156210E.pdf
Wenger, E., White, N. og Smith, J. D. (2009). Digital habitats: stewarding technology for communities. Portland, OR: CPsquare.

[1] Unnið í samráði við eftirtalda aðila í faghóp í upplýsingatækni og miðlun á Menntavísindasviði Háskóla Íslands:  Jón Jónasson, lektor í fjarkennslu og upplýsingatækni; Salvör Gissurardóttir, lektor í upplýsingatækni; Stefán Jökulsson, lektor í kennslufræði með áherslu á miðlun og miðlalæsi; Torfi Hjartarson, lektor í kennslufræði og upplýsingatækni; Þuríður Jóhannsdóttir, lektor í menntunarfræði.
[2] Víða vantar einnig að endurnýja tölvukost sem getur hamlað nýtingu upplýsingatækni.
[3] Skv. Hagstofunni (2011) var fjöldi fjarnema  3829 árið 2010 (um 14% af heildarfjölda framhaldsskólanemenda, en náði að vera um 16% 2008 og 2009.
[4] Fræðsluskrifstofa Reykjanesbæjar, Svava Pétursdóttir: Samstarf kennara til eflingar náttúrufræðikennslu.
[5] Heldur einnig úti vef á http://skrif.hi.is/rannum og tengslanetasvæði á http://utmidlun.ning.com
[6] Rannsóknarstofa Rannsóknarstofa um nám og kennslu erlendra tungumála og annars máls; Rannsóknastofa í fjölmenningarfræðum; Rannsóknastofa um þroska, mál og læsi barna og unglinga.
[7] Tölvutök var samstarfsverkefni Menntasviðs Reykjavíkur og SRR (Símenntun Rannsóknir Ráðgjöf)  KHÍ. Sjá http://simenntun.khi.is/?q=tolvutok2
[8] Starfsmaður SRR, munnleg heimild 13. Júlí 2011.

Skoðað: 8657 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála