Skip to main content
8. júní 2005

Vefgáttir eru næsta kynslóð skjáborðsins

Viktor Vigfússon, deildarstjóra IBM hugbúnaðarlausna hjá Nýherja.
(Greinin hefur áður birst í tímaritinu Tölvuheimi)

Hvert er þitt raunverulega vinnusvæði og hvernig styður það við þín daglegu störf? Hjá stórum og vaxandi fjölda starfsmanna er skjáborð tölvunnar og þau verkfæri sem þar birtast mun mikilvægari en hið efnislega vinnusvæði. En hversu skilvirkt er þetta vinnusvæði nútímans með hliðsjón af þeim möguleikum sem tæknin býður? Reynslan sýnir að þegar starfsmenn þurfa að nota aðskilin og ólík kerfi reynist oft erfitt að henda reiður á hvaða upplýsingar eru hvar, hvernig best sé að nálgast þær, hvernig þægilegast sé að vinna með upplýsingarnar eða miðla þeim. Oft fer verulegur tími í að ferðast á milli kerfa og finna réttu gögnin en með vefgáttum (e. portals) er lagður grunnur að aukinni skilvirkni með því að gera hverjum notanda kleift að fá aðgang að öllum kerfum, upplýsingum, fólki og ferlum sem hann þarfnast í gegnum eitt samræmt vefviðmót.

Vefgáttir taka mið af þörfum ólíkra notenda
Hugmyndin með vefgátt er að auðvelda notendum að vinna með sérhæfð kerfi, nálgast upplýsingar og stunda samskipti. Vefgáttir koma ekki í stað sérhæfðra kerfa heldur nýta sér þá hluta þeirra sem notandinn þarfnast. Þannig er markmiðið að bjóða aðlögun fyrir hvern notanda eða hóp notenda þar sem framsetningin tekur mið af hlutverki eða vinnuferlum viðkomandi. Algengt er að þótt starfsmenn þurfi á mörgum kerfum að halda þá noti þeir einvörðungu lítinn hluta hvers kerfis. Með vefgátt fæst ein innskráning og samhæfð framsetning í stað innskráningar í mörg kerfi sem hafa ólík viðmót og geta verið töluvert flókin í notkun. Ýmsir möguleikar eru síðan fyrir hendi við að láta aðskilin kerfi vinna saman í vefgáttinni þannig að flæði og úrvinnsla upplýsinga verði sem þægilegust.
 

Aukin skilvirkni og greiðari aðgangur að upplýsingum
Fyrirtæki og stofnanir eru í dag að nota vefgáttir með ýmsum hætti. Vefgáttir nýtast fyrir innri vefi þar sem starfsmönnum er veittur aðgangur að upplýsingum og kerfum. Starfsmenn geta nálgast allt sem starf þeirra kallar á með aðlögun vefgáttarinnar að þörfum hvers og eins. Sem dæmi má nefna aðgang að tölvupósti, viðskiptakerfum, hópvinnukerfum, hugbúnaði fyrir þekkingarstjórnun og ýmsum upplýsingalindum sem geta legið innan eða utan fyrirtækisins.

Vefgáttir geta einnig nýst til að veita viðskiptavinum eða samstarfsaðilum upplýsingar og þjónustu í gegnum eitt samræmt viðmót. Þannig gæti viðskiptavinur skráð sig inn á vefgátt og útbúið sitt eigið sjónarhorn á vörur, þjónustu og tengiliði fyrirtækisins, stillt áskriftir að upplýsingum og tilboðum sem henta þörfum hans. Þar sem unnt er að veita hverjum sem er aðgang að vefgátt í gegnum vefskoðara má koma upp sameiginlegu vinnusvæði óháð staðsetningu notenda. Um getur verið að ræða birgja, verktaka, samstarfsaðila, ráðgjafa eða hópa innan fyrirtækis sem hafa þörf fyrir að nálgast og vinna með sameiginlegar upplýsingar á öruggan og þægilegan máta.

 


Hvernig virka vefgáttir?
Segja má að hjartað í vefgátt séu svokallaðar portlettur. Portlettur eru endurnýtanlegar einingar eða forrit sem veita aðgang að kerfum, efni á Netinu, vefþjónustum, efnisveitum og öðrum tilföngum. Fyrirtæki sem innleiða vefgáttir geta búið til eigin portlettur eða valið úr lista af portlettum frá framleiðendum eins og IBM eða fjölmörgum smærri aðilum sem útbúið hafa hundruð sérhæfðra portletta.

Portlettur eru til dæmis settar upp fyrir tölvupóst, ákveðna kerfishluta í viðskiptakerfi, fréttaveitur, vefþjónustur eða jafnvel flókna gagnagreiningu. Portlettur geta bæði veitt aðgang að ákveðinni virkni í þeim hugbúnaði sem þær tengjast eða eingöngu veitt aðgang að skilgreindum niðurstöðum úr hugbúnaðinum. Mögulegt er að aðlaga framsetningarsniðið, annað hvort við uppsetningu á viðkomandi portlettu eða jafnvel þannig að einstakir notendur geti stillt sniðið með einföldum tólum. Ein portletta getur dregið saman virkni úr mörgum kerfiseiningum eins bakendakerfis eða sótt í mörg bakendakerfi. Einnig er hægt er að láta tvær eða fleiri aðskildar portlettur vinna saman. Ef til dæmis upplýsingar um viðskiptavin er að finna í fleiri en einu kerfi gæti innsláttur á kennitölu í einni portlettu kallað fram upplýsingar um viðskiptavininn í öðrum portlettum. 


Stöðug þróun vefgátta
Stöðug þróun á sér stað í þeirri tækni sem liggur að baki vefgáttum en mikil áhersla er lögð á að ná fram aukinni stöðlun. Fram eru komnir tveir tengdir staðlar fyrir portlettur, JSR168 (Java Portlet API staðall) og WSRP (Web Services for Remote Portlets) sem studdir eru af helstu framleiðendum vefgátta eins og IBM, SAP, BEA Systems, Oracle og Microsoft (styðja eingöngu WSRP). Auk stöðlunar á milli vefgátta og portletta vinna ýmsir framleiðendur að því að bjóða samsettar lausnir (e. composite applications) sem eru byggðar á verkvangi vefgátta. Oft er þar um að ræða að fyrirliggjandi lausnir eru teknar í heilu lagi eða hlutum og boðnar sem keyrsluhlutur í vefgátt. Markmiðið er meðal annars aukinn sveigjanleiki fyrir ólík hlutverk notenda. Þróun vefgátta mótast þannig af þeirri þörf að hið rafræna vinnusvæði – skjáborðið – taki mið af vinnuferlum sem oft spanna mörg sérhæfð kerfi og upplýsingalindir, og kalla á skilvirkan vettvang fyrir samskipti og samvinnu.

 

Nánari upplýsingar um lausnir IBM Software á sviði vefgátta eru á: ibm.com/websphere/portal

Skoðað: 5468 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála