Skip to main content
10. nóvember 2005

Upplýsingakerfi í heilbrigðisþjónustu

Benedikt Gunnar Ívarsson, ráðgjafi og kerfisfræðingur hjá EJS hf

Samskipti kerfa í heilbrigðisþjónustu  -  Vandamál ?
Á síðustu áratugum hefur tölvutækni og þáttur upplýsingakerfa í daglegum störfum fólks í heilbrigðisþjónustu vaxið gífurlega hratt.  Framleidd hafa verið hin ýmsu upplýsingakerfi sem þjóna hinum margvíslegu verkefnum sem bæði létta starfsfólki störf og auka öryggi og gæði þeirrar þjónustu sem sjúklingar njóta.  

Það sem ekki hefur þróast jafnhratt og sjálf upplýsingakerfin eru samskiptin á milli þessara kerfa og því er margskráning gagna í heilbrigðisþjónustu allt of algeng og hættan á mistökum við skráningu því mun meiri en annars væri.  Allt frá upphafi hafa menn þó búið til tengingar á milli kerfa, en oftast hefur verið um að ræða svokallaðar beinar tengingar þar sem ekki er alltaf notuð stöðluð samskiptaleið. 

Það að nota sérhæfða tengingu á milli tveggja kerfa er í sjálfu sér í góðu lagi svo lengi sem kerfin verða ekki mörg, því flækjustig tenginga margfaldast í hlutfalli við fjölda kerfa eins og meðfylgjandi mynd sýnir:




Í dæmi 1 að ofan er lítið mál að tengja öll kerfin við hvort annað og einungis þarf að útfæra 2 tengingar í hverju kerfi (samtals 6 tengingar).

Hins vegar hefur flækjustigið aukist mjög mikið í dæmi 2 þar sem kerfum hefur þó aðeins fjölgað um tvö en útfæra þarf fjórar tengingar í hverju kerfi (samtals 20 tengingar)

Ef bætt er við einu kerfi við dæmi 2, sem tengjast þarf öllum hinum, þarf að útbúa fimm tengingar í því kerfi og eina tengingu í hverju hinna eða tíu nýjar tengingar (samtals 30 tengingar) og þannig verður alltaf erfiðara að bæta við eða skipta út kerfum eftir því sem tengingaflóran vex.

Eftir því sem tölvuvæðing eykst og kerfum fjölgar er mjög algengt  að vinna og kostnaður við viðhald á samskiptum á milli kerfa aukist mjög mikið.

Sökum þess hversu gífurlega flókið er að viðhalda þúsundum tenginga er helsta vandamálið í tölvuumhverfi hjá stærri heilbrigðisstofnunum, að einungis þau kerfi sem nauðsynlegt er að tengja saman til að viðhalda lágmarks þjónustu eru látin tengjast og því má segja að í stað þess að vinna og kostnaður aukist í hlutfalli við fjölda kerfa, þá sleppa menn því að útfæra þær tengingar sem ekki eru nauðsynlega til þess að kerfin virki.  Þetta leiðir til þess að möguleikar á sparnaði og hagræðingu hjá heilbrigðisstofnunum með sjálfvirku flæði upplýsinga á milli ólíkra kerfa eru ekki nýttir.   Auk þess er í flestum tilfellum dýrara að viðhalda fáum beinum og sérsmíðuðum tengingum en mörgum stöðluðum tengingum með samþættingu.

Einfalt dæmi um kostnað væri þegar prenta þarf út upplýsingar um sjúkling úr einu kerfi til þess að hluti þeirra upplýsinga sé svo sleginn inn í annað kerfi.  Þar er um að ræða meiri kostnað við útprentun og vinnu en þarf að vera, auk þess sem mikilvægur tími í þjónustu tapast.



Samþætting kerfa í heilbrigðisþjónustu  -  Lausn ?

Til að leysa það vandamál sem fylgir beinum tengingum á milli fjölda kerfa hafa flestar sjúkrastofnanir í heiminum valið þá leið að taka í notkun samþættingarkerfi sem auðvelda mjög öll samskipti á milli ólíkra upplýsingakerfa.  Þessi kerfi nota flest staðlaðar samskiptaleiðir sem auðveldar einnig samskipti á milli heilbrigðisstofnana sem nota ólík samþættingarkerfi.  Eftirfarandi mynd sýnir glöggt muninn á beinum tengingum og notkun samþættingarkerfis.



Í dæmi 3 þar sem notað er samþættingarkerfi, er einfaldleiki kerfisins orðinn mun meiri en í dæmi 2 því einungis þarf að útfæra eina tengingu fyrir hvert kerfi (tengingu kerfisins við samþættingarkerfið).  Þetta þýðir það að flækjustig tenginga eykst ekki við fjölgun kerfa og einfaldara og fljótlegra verður að bæta við eða skipta út kerfum, sem leiðir af sér sparnað í viðhaldi á upplýsingakerfum.

SeeBeyond sem var stofnað árið 1989 og sérhæfði sig þá í samþættingu upplýsingakerfa á heilbrigðissviði, varð mjög fljótt leiðandi þjónustuaðili margra af stærstu sjúkrastofnunum heimsins.

SeeBeyond hefur síðan þá, þróað lausnir sínar sem í dag gera mun meira en bara að samþætta kerfi á heilbrigðissviði og eru leiðandi á flestum sviðum samþættingar í heiminum í dag. Samt sem áður leggur SeeBeyond mikla áherslu á það leiðandi hlutverk sem fyrirækið hefur áunnið sér í samþættingu kerfa á heilbrigðissviði.  

Sú tryggð sem SeeBeyond hefur sýnt við samþættingu á heilbrigðissviði hefur getið af sér fyrsta flokks lausnir á HL7 samskiptum sem einnig styðja nýrri tækni og staðla s.s. vefþjónustur, XML og endurskoðun vinnuferla. SeeBeyond hefur verið leiðandi í innleiðingu á HIPAA og nýtt í því sambandi tengingar við Claredi™, sem er þekktasta vörumerkið á sviði HIPAA.   SeeBeyond var valið til samþættingar hjá Breska Heilbrigðiskerfinu (NSH), en það er stærsta samþættingarverkefni í heiminum á heilbrigðissviði sem ráðist hefur verið í til þessa.

 

Skoðað: 5029 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála