Skip to main content
10. nóvember 2005

Upplýsingasiðfræði

Ketill Berg Magnússon, MA í heimspeki, sérhæfður í vinnu- og viðskiptasiðferði og ráðgjafi á starfsmannasviði Símans.

Er meira leyfilegt í sýndarveruleika heldur en raunveruleika? Höfum við einhverjar borgaralegar skyldur þegar við ferðumst um á netinu á sama hátt og þegar við göngum niður Laugaveginn? Er eitthvað að því að hliðra sannleikanum á spjallrásum og merkir það að taka tónlist í leyfisleysi eitthvað annað en að stela þegar það gerist á netinu? Spurningar af þessum toga flokkast undir upplýsingasiðfræði og í þessum pistli er ætlunin að varpa örlitlu ljósi á þessa fræðigrein sem án vafa á eftir að verða meira áberandi á næstu misserum.

Hvað er upplýsingasiðfræði?
Upplýsingasiðfræði (e. Information ethics eða Computer ethics) er fræðigrein sem sprottið hefur upp með upplýsingatækninni. Viðfangsefni hennar eru siðferðileg álitamál sem upp koma innan upplýsingatækninnar. Markmiðið er í fyrsta lagi að koma auga á og greina þessi siðferðilegu álitamál, í öðru lagi að skilja eða komast til botns í þessum álitamálum og í þriðja lagi að velta upp mögulegum lausnum við þeim. Upplýsingasiðfræðin er því ein tegund hagnýtar siðfræði sem á sama hátt og heilbrigðissiðfræði, umhverfissiðfræði og viðskiptasiðfræði nýtir almennar siðfræðikenningar og hugtök til að leysa sértæk siðfræðileg álitamál sem vakna á ólíkum sviðum mannlífsins. Sammerkt með öllum þessum greinum siðfræðinnar er glíman við spurninguna um hvernig siðferðilega rétt sé að hegða sér.

Sumir fræðimenn halda því fram að vegna hinna gríðarlega hröðu tækniframfara sem orðið hafa á síðustu áratugum þá hafi mannkynið farið á mörgum sviðum fram úr sjálfu sér. Ástæðan fyrir þessari fullyrðinu er að við ráðum nú yfir tækni sem gerir okkur kleift að framkvæma hluti sem sjáum ekki afleiðingar af. Og í stað þess að staldra við og meta þessar afleiðingar nægilega vel, þá lokum við augunum og beitum tækninni óhikað (eða í þeirri blindu trú að allt fari vel). Má í þessu samhengi nefna umhverfismál (virkjanaframkvæmdir), líftækni (klónun) og læknisfræði (fegrunaraðgerðir). Getur verið að þetta eigi líka við um upplýsingatæknina?

Þegar við skoðum hver helstu siðfræðilegu álitamál upplýsingatækninnar eru má til dæmis nefna persónuvernd einstaklinga, höfundarétt, verndun eigna og öryggi barna. Allt eru þetta málefni sem hafa marga fleti og fela í sér fjölmargar siðferðislegar spurningar. Á allra síðustu árum hafa vissulega orðið miklar framfarir á í sumum af þessum málaflokkum hér á landi og má þar nefna ýmsar lagabreytingar og forvarnastarf eins og SAFT – verkefni Heimilis og skóla um öryggi barna á netinu. En fjölmörgum flóknum álitamálum á þessum sviði á enn eftir að svara og við verðum að gefa þeim nægilegan gaum til að lenda ekki í stökustu vandræðum og hljóta skaða af. Einn af vandanum er að upplýsingatæknin er fullkomlega alþjóðlegt fyrirbæri sem gerir það að verkum að lög og reglur virka ekki eins vel og á mörgum öðrum sviðum.

Upplýsingatæknin og samskipti
Annað sjónarmið í upplýsingasiðfræði snýr ekki að eins flóknum siðferðislegum úrlausnarefnum upplýsingatækninnar, heldur fremur að því hvernig við komum fram við hvort annað í daglegum samskiptum okkar með upplýsingatækninni. Samskiptamátinn verður sífellt fjölbreyttari og við notum tölvupóst, spjallrásir, sms, mms og blogg (netdagbók) til að eiga samskipti okkar á milli. Þessir samskiptamátar eiga það sammerkt að við eigum í óbeinum samskiptum í þeim skilningi að við stöndum ekki augnliti til auglitis við þá sem við eigum í samskiptum við. Þessir samskiptamátar sveipa okkur eins konar hulu sem veitir okkur vörn.

Svo virðist stundum vera sem sumir einstaklingar nýti sér þessa hulu til að fela sig á bak við og skjóti á náungann alls kyns óhróðri. Þannig höfum við dæmi að undanförnu þar sem börn hafa verið áreitt með sms eða bloggsíðum af skólasystkinum sínum. Þetta vekur upp spurningar um hvort önnur siðferðisleg viðmið gildi um sýndarveruleikann en raunveruleikann. Hvort það sem þykir sjálfsögð kurteisi þegar fólk hittist í raunveruleikanum sé ekki í gildi í sýndarveruleikanum? Það held ég ekki. Ég held miklu fremur að slík miður skemmtileg atvik séu merki um að líklega höfum við farið fram úr sjálfum okkur í upplýsingatækninni. Við þurfum að staldra við og ræða saman og ræða við börnin okkar um hvað séu góð samskipti þegar nýjungar upplýsingatækninnar eru notaðar. Þá gæti komið að gagni að lesa 10 boðorð upplýsingatækninnar sem Upplýsingasiðfræðistofnunin í Bandaríkjunum.

10 boðorð upplýsingatækninnar
Þú skalt ekki nota tölvu til að skaða aðra
Þú skalt ekki blanda þér í tölvuverkefni annarra
Þú skalt ekki stelast til að skoða tölvuskrár annarra
Þú skalt ekki nota tölvu til að stela
Þú skalt ekki nota tölvu til að bera falsvitni
Þú skalt ekki nota höfundaréttarvarinn hugbúnað sem þú hefur ekki borgað fyrir
Þú skalt ekki nota annarra manna tölvugögn án leyfis eða hæfilegrar greiðslu
Þú skalt ekki breyta hugverkum annarra
Þú skalt hugsa um félagslegar afleiðingar hugbúnaðarins eða kerfisins sem þú ert að skrifa
Þú skalt ætíð nota tölvur með þeim hætti sem tryggir samúð og virðingu fyrir náunganum.

Heimildir
Ten Commandments Of Computer Ethics. Á vefsvæði The Computer Ethics Institute.  http://www.brook.edu/its/cei/cei_hp.htm
Bynum, Terrell Ward. “Computer Ethics: its birth and its future”. Ethics and information technology 3: 2001. Kluwer Academic Puplishers


 

Skoðað: 5120 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála