Skip to main content
10. nóvember 2005

IBM BladeCenter

Helgi Magnússon, tæknilegur ráðgjafi í IBM netþjónum og gagnageymslum  hjá Nýherja. 

IBM BladeCenter er ný gerð tölvukerfis – infrastructure – sem farið hefur sigurför um heiminn síðast liðin misserin en IBM er með um 35% markaðshluteild í Blade á heimsvísu.  Öryggi og uppitími er í fyrirrúmi en ef einn íhlutur bilar þá tekur annar við og kemur í veg fyrir rekstrarstöðvun. Þá fylgist ,,Predictive Failure Analysis” kerfi með aflgjöfum, viftum, örgjörvum, minni, örgjörvaspennustýrieiningum og diskum þannig að stilla má kerfið að það sendir tölvupóst eða SMS með margs konar forvarnarvillum með eins til tveggja daga fyrirvara.  Þess ber að geta að ábyrgð á IBM BladeCenter og IBM Blade netþjónum nær yfir fyrrnefndar forvarnarvillur og er hlutum skipt út í ábyrgð áður en bilun á sér stað.

IBM BladeCenter er í raun og veru box sem skrúfast inn í hefðbundinn 19” netþjónarekka en svo eru raufar að framan og  aftan sem hýsa alla þá mismunandi netþjóna og svissa og annað sem í boði er.  Framan á BladeCenter eru 14 raufar sem gerðar eru fyrir mismunandi gerðir netþjóna og diska.  Aftan á BladeCenter eru svo 12 raufar sem gerðar eru fyrir ýmsar einingar, s.s. aflgjafa, kæliblásara, LAN svissa, SAN svissa, og stjórnunareiningar - Management Module. Framan á BladeCenter eru einnig geisladrif, disklingadrif og USP tengi sem samnýtast með öllum netþjónunum.

Einstök hönnun - Aukinn sparnaður
Netþjónarnir að framan og einingarnar að aftan tengjast saman á tveimur aðskildum og óháðum alhliða kerfisbrautum.  Þessar kerfisbrautir flytja afl, LAN, KVM og SAN á milli netþjónanna og allra eininganna að aftan.  Um er að ræða einstaka hönnun sem sparar allt að því 100 snúrur og í leiðinni umtalsverða peninga.  Enn fremur sparar þessi hönnun mikinn tíma því að þegar hefðbundnum netþjóni er bætt við í rekka tekur það tvo til fjóra tíma að koma vélinni almennilega fyrir.  Á hinn bóginn tekur það aðeins nokkrar sekúndur að koma IBM Blade netþjóni fyrir þar sem honum er rennt inn í BladeCenterið og er hann þá um leið kominn með allt að því tvöfalda ,,redundant” tengingu við afl, kælingu, LAN, SAN og KVM. 

Öll stjórnun frá einum stað
Einn af fjölmörgum kostum IBM BladeCenter er hveru einfalt og þægilegt það er að vinna við netþjónana og einingarnar en hægt er að tengjast netþjónunum á þrjá vegu.  Skjá, lyklaborð og mús má til dæmis tengja beint inn á stýrieininguna og frá lyklaborðinu má gefa skipun sem færir mann á milli netþjóna.  Enn fremur er hnappur framan á netþjónunum sem ýta má á til að fá viðkomandi netþjóna upp á skjáinn. Þriðja leiðin er þó sú sem er mest spennandi en þá er stýrieiningin einfaldlega með IP tölu sem þýðir að það má opna venjulegan vafrara hvar sem maður er staddur í heiminum og í gegnum hann haft aðgang að öllu sem er í BladeCenterinu.  Þannig má meðal annars taka algjörlega yfir netþjóna, endurræsa þá, sjá allan POST-inn ræsa og jafnvel ýta á F1 eða F2 til að komast í BIOS eða ,,diagnostics”.  Þá má í gegnum sama vefviðmót og stýrir netþjónunum komast inn á LAN og SAN svissa. Enn fremur safnar stýrieiningin öllum ,,loggum” frá öllum netþjónum og setur þá upp í töflu sem raða má upp eftir t.d. dagsetningu eða netþjónum. Enn fremur má flokka ,,loggana” eftir alvarleika, dagsetningum og netþjónum. Þessi atriði gera kerfisstjórum mun auðveldara fyrir að sjá um kerfið á sama tíma og það gefur þeim meira vald yfir því.
 
Hægt að skipta út einingum með kerfið í fullri vinnslu
Eins og áður greinir er BladeCenter box sem inniheldur engar rásir sem þýðir að það hvorki bilar né úreldist þar sem stöðugt er verið að þróa nýja netþjóna og aðrar einingar sem setja má í BladeCenterið.  Þannig má skipta út eldri netþjónum og einingum þegar það hentar þó svo að kerfið sé í fullri vinnslu.  Í dag má til að mynda fá tveggja örgjörva Intel XeonDP netþjóna, fjögurra örgjörva Intel XeonMP netþjóna og tveggja örgjörva PowerPC RISC netþjóna.  Síðar verður hægt að fá AMD Opteron netþjóna, Itanium netþjóna og Power5 netþjóna en þeir síðast nefndu munu geta keyrt IBM AIX og IBM OS/400 stýrikerfi.  Einingar eru jafnframt í stöðugri þróun en upphaflega voru 1200W aflgjafar í IBM BladeCenter en í dag er hægt að fá 1400W og 1800W aflgjafa. LAN einingarnar voru upphaflega aðeins 18x1GBit porta layer2 svissar en nú er kominn 18x1GBit porta Layer 2-7 sviss frá Nortel og þá má á næstunni búast við nýjum svissum frá Cisco Systems og Brocade sem eru sérstaklega fyrir IBM BladeCenter.

Fyrir fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum
Á meðal fjölmargra viðskiptavina Nýherja á sviði IBM BladeCenter má nefna Hjartavernd, Línu.Net, Alþingi og Íslenska erfðagreiningu. 



 

Skoðað: 4673 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála