Skip to main content
10. nóvember 2005

RSS vafri? - hvað er það?

Einar H. Reynis, ritstjóri Tölvumála

Þessari spurningu var varpað fram á heimasíðu félagsins nýverið í hluta af skoðanakönnun og þegar upp var staðið voru rúmlega 60% sem könnuðust ekki við skammstöfunina. Það er því alveg ærin ástæða til að kynna fyrirbærið aðeins nánar, og þá sérstaklega fyrir þeim sem eru virkilega fréttaþyrstir og fá aldrei nóg en komast ekki yfir að heimsækja áhugaverða staði.

Líklega hafa margir tekið eftir litlum appelsínugulum merkjum sem er að finna neðst á mörgum síðum á Netinu, líkt og hér, merkt með stöfunum XML, en spá ekkert frekar í það. Þegar nánar er gáð er þetta fyrirbæri að finna um allar jarðir og á ólíklegustu síðum og raunar er fjöldi vefsetra sem bjóða upp á XML með ólíkindum mörg. Táknin eru lykillinn að þessari gagnlegu þjónustu og segir lesandanum að hún sé til reiðu og þá er bara að smella á. Hér er dæmi af vefsetri Daily Telegraph. 
                       

Skammstöfunin RSS
Þjónustan er betur þekkt undir skammstöfuninni RSS sem þýðir Real Simple Syndication og er hugsuð til að auðvelda mjög að fylgjast með efni á Netinu og nota þannig það sem kallað er “push” tækni, það er að efnið er sent til notandans frekar en að hann leiti það uppi. RSS má nota á ýmsan hátt en XML-táknin á síðunni vísa til þess að fá má áskrift að efni sem sérstakur vafri tekur við og vinnur úr.
Með RSS-vafra er leikur einn að gera þetta og fylgjast með mörgum miðlurum og bloggum í einu á sama stað í stað þess að verja miklum tíma í að hoppa á milli staða og skanna í sífellu allskonar afkima. Þar sem það eru bara fyrirsagnir og knappasti texti sem fer til notandans má fara vítt og breitt yfir nýtt efni á augabragði.
Það telst líka til tekna að RSS-vafrar sjá sjálfir um að sækja nýtt efni og eyða út því sem er úrelt og haldast þannig ferskir. Það sem blasir við notendum er að fyrirsagnir eru flokkaðar eftir áskriftum og ef smellt er á fyrirsögn sést annaðhvort aðeins meiri texti eða viðkomandi síða sem við á. Það er svo smekksatriði hversu ört vafrarnir endurnýja efnið en getur farið niður í 15 mínútur.


RSS-vafrarnir
Vafrarnir eru afskaplega margir og ólíkir en greinahöfundur brunaði í gengum nokkra til að prófa. Eftir að hafa farið einn hring var ég sáttastur við SharpReader en hann er uppbyggður eins og póstforrit þar sem áskriftir og fjöldi ólesinna fyrirsagna eru til vinstri, og ef smellt er á eina tiltekna áskrift koma viðkomandi fyrirsagnir í glugga þar fyrir ofan og svo allur textinn fyrir viðkomandi fyrirsögn þar undir. Dagsetningar og tími fylgir svo öllum fyrirsögnunum.
SharpReader er á síðunni http://www.sharpreader.net en hann er enn sem komið er ókeypis en til að nota hann, og það gildir um fleiri, þarf svokallað .Net Framework en nota má uppfærslu í Windows til að sækja það. Það þarf því að byrja á Windows uppfærslu og eftir það bæta inn SharpReader.
Í notkun hefur SharpReader líka þann eiginleika að birta lítinn glugga sem skýst augnablik á skjáinn ef nýtt efni kemur, ekki ólíkt því þegar einhver á vinalistanum í MSN er að tengjast.
Fyrir Mac OS X má benda á NetNewsWire. Þegar það forrit er í gangi kemur fram fjöldi ólesinna fyrirsagna með svona tákni:   

 
Útlitslega er vafrinn afar svipaður SharpReader.
Heimasíðan fyrir þetta forrit er hér: http://ranchero.com/netnewswire en nota má vafrann í um það bil mánuð án gjalds en eftir það þarf að borga.

Að finna síður og skráning
Ofantalin forrit innihalda fjöldan allan af stöðum en til að bæta inn áskriftum þarf að smella á XML-táknin og líma svo viðkomandi slóða í Subscribe-glugga eða einfaldlega rita slóðann í Susbscribe-glugga. Annars eru leiðirnar mismunandi eftir vöfrum en þetta er enn sem komið er svolítil handavinna, að bæta inn áskrift.
Til eru síður þar sem efni er safnað saman og þar er hægt að gerast áskrifandi.
Fyrir þá sem eru sérstaklega áhugasamir um að fylgjast með íslensku efni er alveg kjörið að skoða RSS mola. http://rss.molar.is/veitur.shtml og ein heimasíða Stjórnarráðsins hefur að geyma slóðir. http://efnisvaki.stjr.is/efnisvaki/rss
Erlendis eru úrvalið alveg botnlaust. Allir helstu fréttamiðlar í UT hafa RSS-slóðir og bara leita uppi appelsínugulu XML-táknin. Hér eru nokkrar:
The Register: http://www.theregister.co.uk/odds/about/feeds/
eWeek: http://www.eweek.com/article2/0,1759,821413,00.asp
Silicon: http://www.silicon.com/feeds/
Hér er svo síða þar sem búið er að safna saman miklu efni um allt milli himins og jarðar um RSS: http://www.syndic8.com/
Hér slóðirnar á mbl.is en á heimasíðu blaðsins eru ekki vísanir í XML en fréttirnar eru aðgengilegar með dyggri hjálp RSS mola:
Innlendar fréttir: http://rss.molar.is/islenskt/mbl-innlent.rss
Erlendar fréttir: http://rss.molar.is/islenskt/mbl-erlent.rss
Reuters skera sig síðan úr með því að hafa RSS inn á sjónvarpsfréttir. Hér er slóðinn: http://www.reuters.com/newsrss.jhtml;jsessionid=HDHBG3LSK13PSCRBAEZSFEY
 

 

Skoðað: 5878 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála