Skip to main content
27. október 2005

Er tækifærið glatað? Mikla-Breiðband Íslands

Jóhann Gunnarsson sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu

Á fjarskiptaþingi 1. febrúar 2001 lýsti ég þeirri skoðun minni að Íslendingar ættu þá þegar að setja stefnu á fjarskiptanet sem flutt gæti 100 mb/s til hvers einasta notanda og jafnhratt frá honum. Til þess að hrinda slíkri langtímaáætlun í framkvæmd þyrfti samstillt átak ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja. Ég er enn sama sinnis nema nú ætti að tífalda bandbreiddarkröfuna, stilla betur saman strengi og flýta framkvæmdum.

Breiðband fyrir alla
Hér á landi standa menn frammi fyrir því verkefni að koma á stafrænu sjónvarpi. Jafnframt þarf að byggja upp betra Internetsamband til að nýta það forskot sem við virðumst hafa á aðrar þjóðir samkvæmt mörgum könnunum. Líklegt er að meiri hluti talsímaumferðar verði fluttur af hinu hefðbundna kerfi yfir á Internetið á næstu árum. Allra þessara gæða ætti helst að mega neyta hvar sem er á byggðu íslensku bóli. Öll þessi gæði eru flytjanleg yfir eitt fjarskiptasamband ef það er nógu gott.  

Bent hefur verið á (t.d. Alþjóðafjarskiptasambandið, ITU)[1] að skýr fylgni sé með efnahagslegri velgengni þjóða og útbreiðslu breiðbands[2]. Skoðanir hafa veri skiptar um það hversu breitt breiðbandið þurfi að vera. Í skýrslum ITU og víðar hefur hugtakið fram undir þetta verið notað yfir fjarskiptasambönd með flutningsgetu 200 kb/s (þúsund bitar á sekúndu) eða meira til notenda.  

Reynslan ætti að sýna okkur að nauðsynlegt er að hugsa stórt þegar skipulagt er fram í tímann.

Ekki er lengra en 20 ár síðan 9,6 kb/s (kílóbitar á sekúndu) þótti góð bandbreidd fyrir fjarskipti úr borðtölvu. Nú er bandbreidd staðarneta að jafnaði 100 mb/s (milljón bitar á sekúndu) eða meira. Vöxturinn nemur 10 í fimmta veldi. Sé reiknað með sama vexti á fyrrnefnda breiðbandsskilgreiningu verður þörfin komin upp í 20 gígabita á sekúndu (1000 milljón bita) eftir 20 ár. Ekki virðist því veita af að íslenska þjóðin setji sér það takmark að landsmenn skuli eiga kost á bandbreidd sem nemur að minnsta kosti gígabita á sekúndu um eða upp úr 2010.  

Atburðir í innlendum fréttum síðustu vikna leiða það greinilega í ljós að erfitt er að fá lykilaðila á fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði til að vinna saman að skynsamlegri framtíðaruppbyggingu fjarskiptakerfisins. Samstarf allra stærstu hagsmunaeigenda er þó nauðsynleg undirstaða þess að koma í framkvæmd stórhuga markmiðum af þessu tagi.

Dæmi frá útlöndum
Við Íslendingar erum ekki þeir einu sem nú stöndum frammi fyrir mikilvægum ákvörðunum um framtíð fjarskiptamála. Framtíð þar sem á miklu veltur að rétt sé á málum tekið, en þar sem jafnframt er vandasamt að rata farsælustu leiðina. Mig langar að benda á tvö dæmi frá útlöndum til umhugsunar.


Breiðbandsáætlun í Kaliforníu
Í Kaliforníuríki er nú blásið til þjóðarátaks til að ná einmitt því markmiði að koma 1 gb/s breiðbandstengingum inn á hvert heimili árið 2010. Í skýrslu[3] sem Gartner Group gerði fyrir Kaliforníuríki er meðal annars bent á þá þverstæðu að öflugustu stuðningsaðilar næstu kynslóðar breiðbands gætu einmitt orðið illyfirstíganlegir Þrándar í Götu gegn útbreiðslu þess. Í viðtölum við hagsmunaeigendur kom það hvað eftir annað fram að menn vildu jú breiðband, en það yrði að gerast á eigin forsendum hvers og eins. Gartner bendir á að til þess að ná almennu samkomulagi um aðgerðaáætlun og koma henni í framkvæmd þurfi sterka forystu og skýra sýn á það að um framtíð ríkisins sé að tefla. Í inngangsorðum er bent á að málið snúist ekki um tækni og ekki heldur fyrst og fremst um hraða. Gígabitabreiðband snúist um þá möguleika sem sú flutningsgeta leiði af sér, segir þar.


Skoðanir manns með reynslu
Þá langar mig að vitna í Reed Hundt.[4] Hann flutti 10. desember sl. erindi hjá New America Foundation, sem vakið hefur verulega athygli ef marka má hversu víða vitnað er í það á Netinu. Erindið nefnist „The inevitability of Big Broadband“ eða „Hversvegna Mikla-Breiðband er óumflýjanlegt“. Ég reyni hér að neðan að tína til nokkur aðalatriði úr erindinu í lauslegri þýðingu því mér finnst boðskapur hans eiga erindi inn í umræðu dagsins hér á landi. Ég vona að þessi reykur af réttinum hvetji sem flesta til að lesa erindið í heild. Reed Hundt segir:  

„Allt frá því að fjarskipta-, sjónvarps- og upplýsingatækni tóku að renna saman í einn straum upp úr 1990 hefur iðnaðurinn verið í nokkru uppnámi. Margir hafa viljað taka forystuna og gjarnan byggt tilkallið á fótfestu í einhverju vígi eldri tækni. Nú þykir mega greina útlínur nýs skipulags úti í þokunni. Það einkennist af bandbreidd sem nemur10 til 100 megabitum á sekúndu til heimilisnota og 1 til 10 gígabitum á sekúndu til fyrirtækja og stofnana. Samskiptahátturinn verður IP (Internet Protocol), pakkaskipt auðvitað. Stjórnunin mun verða á jöðrum netsins frekar en í miðstöðvum gamla tímans. Aðgangur hvar sem er, hvenær sem er, allt bundið saman í hugbúnaði. Hverskonar búnaður og tæki verða tengd hvar og hvenær sem er, við Netið, við Vefinn, við öll hugsanleg tæki og áhöld, að ógleymdum notendum í mannsmynd.  

Þetta er það sem ég (Hundt) kalla Mikla-Breiðband, sem er allt annað en Litla-Breiðband. Litla-Breiðband er þessi mjóa gagnabuna sem seld er í formi DSL eða kapalmótalda og nær ekki mikið meiri hraða en allt að 1 mb/s þegar best lætur inn fyrir veggi notenda. Mikla-Breiðband getur flutt kvikmyndir í fullri upplausn og veitt vefaðgang sem er eins og að fletta blöðum í bók. Litla-Breiðband dugir fyrir Internetsíma, en er að öðru leyti vandræðalega hægvirkt.  

FCC fjallar eins og er um Litla-Breiðband, sem er ekki rétt viðfangsefni. Starfsemin ætti að snúast um Mikla-Breiðband. Mikla-Breiðband mun taka yfir á sínum tíma, og því ættu eftirlits- og stefnumótandi aðilar að gefa því gaum. Það er meðal annars sameiginlegt en lítt umrætt þema í tveimur málum sem eru til umræðu hjá því opinbera (í Bandaríkjunum): innleiðingu háupplausnarsjónvarps (HDTV) og því hvernig Internetsími (VOIP) ógnar nú alþjónustu símafélaga.  

Allir geta verið sammála um að Mikla-Breiðband væri besti miðillinn til að koma hágæða sjónvarpi og talsíma út á meðal almennings. Þar sem FCC ber að stuðla að  því að hvorttveggja verði aðgengilegt fyrir alla landsmenn á viðráðanlegu verði (markmiðið er að um 95% neytenda nýti sér það), er augljóst að ódýrasta leiðin til að ná þessu markmiði er sú að senda bæði sjónvarps- og talbita yfir sama háhraðanetið. Þar fyrir utan myndi Mikla-Breiðband hafa nægilega flutningsgetu til að sinna Internetaðgangi með mjög miklum afköstum.  

Þess vegna ætti meginhlutverk FCC að vera það að nema úr gildi gamlar reglur og semja nýjar í staðinn þannig hugsaðar að þær geti orðið hvatning fyrir þá sem reka fjarskipta- og sjónvarpsnet til að sameinast um byggingu Mikla-Breiðbands.“

 
Svo mælti Reed Hundt. Hér á landi líkt og annars staðar taka stærstu fyrirtækin á markaðinum fótfestu í eldri tækni og halda fast fram eigin hagsmunum til skamms tíma. Ekki síður en í Vesturheimi er hér á landi þörf fyrir sterka forystu og skýra framtíðarsýn. Vonandi er tækifærið ekki endanlega glatað til að taka upp af einurð, víðsýni og framsýni viðræður og áætlanagerð um Mikla-Breiðband Íslands.



[1] Birth of Broadband, ITU 2003

[2] Breiðband þýðir í þessu samhengi fjarskipti á miklum hraða. Landssíminn hefur notað þetta hugtak i annarri merkingu.

[3] One Gigabit or Bust ™ Initiative -- A Broadband Vision for California, http://www.cenic.org/GB/index.html

[4] Reed Hundt tók við formennsku í FCC (fjarskiptaeftirlitsnefnd Bandaríkjanna) 1993 og hefur komið á ýmsum umbótum og nýrri hugsun, meðal annars fært nefndinni miklar tekjur með uppboðum á tíðnisviðum. Erindið er t.d. að finna hér: http://www.interesting-people.org/archives/interesting-people/200312/msg00056.html

 

Skoðað: 5306 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála