Skip to main content
27. október 2005

Öldungadeild Ský stofnuð

Halldór J. Garðarsson, Nýherji

Sagan skráð á meðan heimildarmennirnir eru enn til staðar
Stofnuð hefur verið Öldungadeild Skýrslutæknifélags Íslands – Ský – sem hefur m.a. það markmið að taka saman sögu tölvuvæðingar á Íslandi á meðan þeir eru enn til frásagnar sem upplifðu hana, segir Örn Kaldalóns, félagi í öldungadeildinni.  ,,Tilgangur og verkefni faghópsins er varðveisla sögulegra gagna og heimilda, í hvaða formi sem er, um vélræna gagnavinnslu og notkun upplýsingatækni á Íslandi. Þetta felur meðal annars í sér að skrá sögu upplýsingatækninnar og að stuðla að því að varðveittur verði búnaður sem þýðingu hefur fyrir söguna."

 

Aðdraganda að stofnun Öldungadeildar Ský má rekja til þess að haldin var ráðstefna í Noregi í júní 2003.  ,,Ráðstefnan nefndist ,,History of Nordic Computing – HiNC – og hafði Dr. Oddur Benediktsson, prófessor hjá Háskóla Íslands, forgöngu um öflun gagna á Íslandi, tók saman og samræmdi upplýsingar frá u.þ.b. 8-10 manns og snéri á ensku því sem þurfti og ritstýrði verkinu. Í vor leitaði Skýrslutæknifélagið eftir því að fá að birta þessi gögn og þegar það var fært í tal við Odd stakk hann upp á ,,senatinu" en hann vissi af sams konar klúbbi í Danmörku,” segir Örn.

Í kjölfarið var boðað til stofnfundar var Jóhann Gunnarsson kosinn formaður deildarinnar, en Oddur og Örn voru kosnir með honum í stjórn

Lá við að þetta yrði karlaklúbbur
Alls mættu ellefu manns á stofnfundinn og segir Örn að það hafi legið við þetta yrði karlaklúbbur.  ,,Félagar eru m.a. frá Háskóla Íslands, fjármálaráðuneytinu, Reiknistofu bankanna, Skýrr, Tölvumiðstöð Sparisjóðanna, Orðanefnd Skýrslutæknifélagsins og Nýherja, svo fátt sé nefnt.  Boðaðir voru 23 einstaklingar á stofnfundinn en það mætti aðeins ein kona þannig að það lá við að þetta yrði karlaklúbbur,” segir hann.

Inntökuskilyrði miðast við 25 ár í geiranum
Að lokum, hvað eruð þið búnir að starfa lengi í upplýsingatæknigeiranum og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fá inngöngu?  ,,Jóhann byrjaði í nóvember 1959, Oddur um 1960 og Örn byrjaði í júní 1962.  Elstu félagarnir þeir Jón Zóphóníasson og Óttar Kjartansson byrjuðu upp úr 1950. Félagar geta allir orðið sem unnið hafa 25 ár eða lengur á sviði upplýsingatækni. Undantekningar frá þessu ákvæði má gera vegna sérstakra verðleika sem metnir verða af öldungaráði – stjórn - deildarinnar.”
Skoðað: 4730 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála