Skip to main content

2020 UT-verðlaun Ský

Verðlaunahafi Upplýsingatækniverðlauna Ský 2020

Marel

MAREL

UT-verðlaun Ský 2020 voru afhent á UTmessunni 7. febrúar 2020. Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin og tók Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir forstjóri Marel á Íslandi við verðlaunagripnum, sem er glerlistaverk eftir Ingu Elínu.

Marel hefur verið framarlega í tækni frá stofnun. Fá íslensk tæknifyrirtæki eiga sér jafn langa og árangursríka sögu og Marel og framlag fyrirtækisins til þjóðfélagsins alls er óumdeilt.

Marel er í dag í fararbroddi í þróun hátæknibúnaðar sem notaður er til vinnslu á kjöti, kjúklingi og fiski, allt frá slátrun til pökkunar. Uppbygging Marel hefur verið einstök og skilað félaginu í fremstu röð á sínu sviði í heiminum. Fyrirtækið hefur nú þróast í alþjóðlegt fyrirtæki með 6.500 starfsmenn og starfsstöðvar í 33 löndum.

Marel hefur allt frá upphafi nýtt upplýsingatækni í þróun sinni og framleiðslu, nýtt gögn til að hámarka afköst og nýtingu sinna viðskiptavina, og unnið náið með matvælaframleiðendum að auknum afköstum, sjálfvirknivæðingu og hámarksnýtingu verðmæts hráefnis.

Óhætt er að segja að nýsköpun og tækni hafi einkennt Marel frá fyrstu tíð. Fyrirtækið ver að jafnaði 6% af heildartekjum í nýsköpun árlega, eða sem samsvaraði 74 milljónum evra árið 2018. Þetta hefur skilað sér í öflugri vöruþróun og undanfarin ár hefur Marel verið  brautryðjandi í innleiðingu nýrrar tækni í matvælaiðnaði, t.d. sýndarveruleika, gervigreind og „internet of things” gagna- og rekjanleikalausnum.

Þrátt fyrir mikinn vöxt og aukin umsvif byggir Marel enn á sömu hugmyndafræði og þegar félagið var stofnað af hópi frumkvöðla við Háskóla Íslands fyrir 40 árum síðan. Frumkvöðlarnir vildu auka verðmæti og nýtingu í íslenskum sjávarútvegi og þróuðu til þess fyrstu rafeindavogina fyrir fiskvinnslu. Frumkvöðlarnir trúðu því að með upplýsingatækni og hugviti væri hægt að minnka sóun og auka nýtingu og nú 40 árum síðan starfar félagið ennþá með þessa sýn að leiðarljósi.

Marel starfar á öflugum og mikilvægum vaxtarmarkaði en samkvæmt tölum frá FAO er talið að eftirspurn eftir matvælum muni aukast um að minnsta kosti 50% á næstu 30 árum með auknum fólksfjölda og þéttbýlisvæðingu. Þörfin til að framleiða matvæli á sjálfbæran og öruggan hátt hefur aldrei verið meiri og telur Marel mikil tækifæri framundan til að auka nýtingu enn frekar, draga úr sóun, auka gæði og öryggi matvæla og stuðla að sjálfbærni í matvælavinnslu.  Þetta verkefni verður aðeins leyst með tækni og nýsköpun og það er stóra verkefni Marel á næstu misserum.

Það er með mikilli ánægju að veita Marel Upplýsingatækniverðlaunin 2020.

Jafnframt veitti forsetinn þrenn önnur verðlaun við þetta tækifæri; UT-Fyrirtæki ársins, UT-Sprotinn og UT-Stafræna þjónustan.

MENIGA var valið UT-Fyrirtæki ársins 2019

KO7A1141

Meniga kerfið hefur farið sigurför um heiminn síðastliðinn ár og unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga. Hugbúnaður Meniga hefur verið innleiddur hjá yfir 80 fjármálastofnunum um allan heim og er hann aðgengilegur yfir 65 milljón manns í 30 löndum. Meðal viðskiptavina Meniga eru margir stærstu bankar heims.
-> Sjá tilnefningar í þessum flokki

GENKI INSTRUMENTS - Halo hringurinn var valið UT-Sprotinn 2019

KO7A1120

Genki Instruments er hönnunardrifið hátæknifyrirtæki sem vinnur að því að gera tækni náttúrulegri. Við ættum ekki að þurfa að breyta hegðun okkar til aðlagast tækjunum í lífi okkar - þvert á móti verðum við að finna leið til þess að þau skilji litbrigði mannlegrar tjáningar. Halo, önnur vara Genki Instruments, er hringur sem gerir þér kleift að stýra glærum og kynningum á nýjan máta og er ætlað að auka sjálfstraust notenda við kynningar. Hönnun hringsins gerir notendum kleift að stýra glærum á náttúrlegan hátt, hvort sem er með hreyfingum eða með tökkum sem auðvelt er að ná til með þumalfingri.
-> Sjá tilnefningar í þessum flokki

KARA CONNECT var valið UT-Stafræna þjónustan 2019

KO7A1093

Byltir aðgengi að hjálp í heilbrigðisgeiranum.
Kara er veflausn sem tengir skjólstæðinga og sérfræðinga í mennta-, velferðar- og heilbrigðisgeiranum. Hugbúnaðurinn, gerir skjólstæðingum kleift að þiggja og ólíkum sérfræðingum að veita, bestu fáanlegu þjónustu og meðferð sem völ er á, hvar og hvenær sem er í gegnum öruggt fjarfundakerfi. Markmiðið er að bylta aðgengi skjólstæðinga að sérfræðiþjónustu og um leið nútímavæða starfsumhverfi sérfræðinga.
-> Sjá tilnefningar í þessum flokki