Skip to main content
24. apríl 2025

Óður til öryggisleysisins

Eyður

Ólafur Eysteinn SigurjónssonÉg hef alltaf unnið fyrir einhvern. Ég hef getað farið heim á skikkanlegum tíma og búist við laununum inn á bankabók um mánaðarmót. En einu sinni, þegar ég var nýbyrjaður í bransanum, átti atvinnuveitandinn minn ekki fyrir laununum mínum og ég samþykkti að fá hlut í fyrirtækinu hans í staðinn fyrir eins mánaðar vinnu. Tólf árum síðar dugði þetta hlutabréf mitt fyrir hálfri hæð í vesturbænum.

Þarna reyndi ég á eigin skinni að stundum borgar sig að taka áhættu. Þrátt fyrir áhættufælnina uppskar ég ríkulega.

Ég hefði viljað fá tiltal frá eldri útgáfunni af sjálfum mér þegar ég var ungur. Hér á eftir kemur það sem ég hefði sagt, svona um það bil. Lesandinn má gera grín að mér fyrir að hafa ekki sótt á brattann sjálfur en það verður bara að hafa það.

Öryggið við að vinna hjá stórum og stöndugum fyrirtækjum er ekki eins mikið og af er látið. Íslensk fyrirtæki eru orðin ameríkuvæddari en þau voru og því fylgir öryggisleysi. Fyrirtæki eru keypt af öðrum fyrirtækjum og fólk er látið fara.

Ef þú ert í tæknimálunum þá færðu iðulega ekki að vera með á fundum þar sem ákvarðanir eru teknar og þú sérð yfirleitt ekki hvað er í vændum. Einn daginn er allt í lagi, næsta dag eru boðaðir óvæntir fundir með yfirmönnum.

Af hverju ekki að nota tækifærið meðan þú ert ung(ur) og gera eitthvað sem þú brennur fyrir? Kláraðu endilega fyrst skólann og lærðu handverkið hjá hugbúnaðarfyrirtæki í svolítinn tíma en settu þér tímaramma. Stofnaðu svo eigið fyrirtæki.

Þeir sem eru í skóla þurfa að vinna á kvöldin og um helgar og borða núðlur. Ef þú gast klárað námið þá ertu kominn með skráp. Þú kannt að neita þér um hluti og uppskera síðar, er það ekki?

Það eru fleiri ókostir við að vera launþegi í þessum bransa. Ef fyrirtækið þar sem þú vinnur er orðið stöðugt(staðnað?) máttu búast við að breyta að hámarki tíu línum af kóða á dag. Verkferlar eru orðnir svo niðurnjörvaðir að þú getur ekki breytt neinu nema vera með jira miða fyrir breytingunni, og láta svo nokkra kollega lesa og samþykkja beiðni um git merge.

Hjá gömlu fyrirtæki þarftu að leggjast í fornleifagröft. Kynslóðir forritara á undan þér hafa skilið eftir sig arfleifð sem er oftar en ekki illa skjöluð og með reddingum sem endurspegla fortíð, mörg lög af veggfóðri sem enginn þorir að hrófla við lengur. Ákvarðanir sem voru teknar fyrir mörgum árum hafa ennþá áhrif á hvernig kerfið var hannað. Þú þorir ekki að hreinsa út gamlan kóða því hann gæti brotið eitthvað sem þú veist ekki af.

Það sem þú lærðir í tölvufræði um „best practices“ á ekki við, því aðstæður á þínum vinnustað eru orðnar „sérstakar“. „Buildin“ taka marga klukkutíma því kerfið sem fyrirtækið selur þarf að geta keyrt á gömlum stýrikerfum og vera með stuðning við úrelta samskiptastaðla og skrýtna gagnagrunna. Snjóboltinn hefur hlaðið utan á sig með tímanum.

Í gamla daga þurfti mikið fé til að stofna verksmiðju og kaupa vélar. Svo var fólk ráðið til reka vélarnar. Það þurfti að kaupa skrifstofur og skrifborð og allir sátu á sama stað og þurftu að eiga bíl. Þetta er allt breytt. Fyrirtæki eru í óða önn að leggja eigin vélasali niður og færa allt í skýið. Ef þú vilt stofna eigið fyrirtæki getur þú leigt tölvur í skýinu.

Það þarf ekki lengur að leigja skrifstofuhúsnæði. Lögfræðiaðstoð og endurskoðun fæst keypt út í bæ svo ekki þarft þú að kunna það. Stærð íslenska markaðarins er ekki lengur takmörkun því það kostar ekkert að hringja milli landa og halda myndfundi.

Finnst þér gaman að tala við fólk eða viltu leysa vandamál án þess að aðrir trufli þig? Ef þú ert ekki „people person“ skaltu bara fá einhvern með þér í lið sem er það.

Ef þú byrjar ung(ur) getur þú komist af með minni kostnað fyrstu árin. Þú þarft ekki að byrja í íbúðabaslinu alveg strax. Þú getur notað tengslanetið sem þú myndaðir í háskóla til að finna vinnufélaga. Þú ræður hvaða tól eru notuð við verkefnið. Þú ert laus við fortíðarhöft. Þú getur ákveðið hvað fyrirtækið gerir og hvaða tól það notar. Þú getur unnið hratt og tekið sénsa sem eldri fyrirtæki geta ekki leyft sér lengur að taka.

Auðvitað er ekkert öryggisnet en hversu mikill öryggisfíkill ert þú? Það er eitthvað sem þú ein(n) ákveður. Þú veist ekki hvaða peningar koma inn og hvort fyrirtækið þitt helst á floti. Þú gætir þurft að vinna öll kvöld og um helgar. En ef þú reynir þetta ekki einu sinni um ævina, munt þú ekki sjá eftir að hafa ekki reynt?

Þeir sem reyna uppskera velvild og virðingu, þótt þeim mistakist. Það er víst þannig að meirihluti sprotafyrirtækja komast ekki á legg, en það er samt í lagi að reyna. Þér verður fyrirgefið.

Þú þarft að gera eitthvað sem þú getur gert vel og sem aðrir vilja borga þér fyrir að gera. Svo þarftu að hafa svolítið gaman af því en ekkert mikið samt, þetta er nú einu sinni vinna.

Kannski er tími hugmyndarinnar þinnar ekki kominn og kannski er hann liðinn? Einhver sagði að ef fullt af fólki væri í einhverjum bransa ættir þú sennilega ekki að fara í hann, og að sama gilti ef enginn væri í honum, því þá væri eftirspurnin sennilega ekki til. Best væri að fara í fag sem einhverjir eru þegar í, en þar sem þú sérð að má leysa málin betur. Þetta er sama hugmynd og margir nota þegar þeir velja sér doktorsverkefni. Finndu góða doktorsritgerð og lestu niðurlagið þar sem höfundur ræðir um „Future Work“. Kannski verður það verkefnið þitt?

Ég vil enda á sögu sem mér fannst mikið til koma:

Fyrirtækið „3M“ framleiðir límbönd og Post-It límmiða í dag. Nafn þess var upphaflega „Minnesota Mining and Manufacturing Company“. Þetta voru strákar sem fóru að grafa eftir málmi. Enginn málmur fannst og þeir stóðu uppi með haug af grjóti. Þeir ákváðu að selja grjótið sem mulning til að nota sem slípiefni. Svo fundu þeir upp á því að líma mulninginn á pappír og sandpappírinn var þar með fundinn upp. Næst límdu þeir járnsvarf á plaststrimla og þar var komið segulbandið. Svo bjuggu þeir til lím sem hélst klístrugt og þá var límbandið fundið upp. Síðast komu svo „Post-It“ notes. Allt út frá námu sem var verðlaus.

Taktu það sem gagnast þér og láttu hitt liggja milli hluta.
Kær kveðja,
Eyður.

Mynd fengin á Clip Art of Technology - Search Images (bing.com)

Skoðað: 68 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála