Skip to main content
12. desember 2024

Nýsköpun knúin áfram af þörfum notenda

Ingunn Fjóla Brynjólfsdóttir

Ingunn Fjóla BrynjólfsdóttirHvað getur greint á milli tæknilausna og hugmynda sem ná flugi og þeirra sem brotlenda? Vel heppnuð nýsköpun eða tæknilausn nær að halda áherslunni á notandanum og þörfum hans þegar freistandi, nýjar hugmyndir poppa upp.

Nýsköpun án notendaþarfa
35% gjaldþrota sprotafyrirtækja tilgreindu ,,engin notendaþörf til staðar” sem eina af ástæðunum fyrir því að dæmið gekk ekki upp.

Þetta kemur fram í bandarískri rannsókn* á 111 sprotafyrirtækjum sem hætt hafa starfsemi. Þar kemur meðal annars fram að góð tækniþekking, nákvæm tölfræði um hegðun notenda, mikil sérfræðiþekking á málefninu og hæfir ráðgjafar sé ekki nóg til að ná árangri. Nauðsynlegt sé að viðskiptaáætlunin byggist á að leysa raunverulegt vandamál fyrir fólk á skalanlegan hátt.

Leiðarljósið
Í upplýsingatækni og nýsköpun er oft mikil áhersla lögð á hraða og framfarir. Nýjar hugmyndir kvikna á miðri vegferð, sem getur leitt til þess að verkefni breytast og taka óvænta stefnu.

Til að forðast algenga gryfju nýsköpunarverkefna – að missa tengslin við notendurna – er mikilvægt að hafa skýrar notendaþarfir að leiðarljósi. Þessar þarfir eiga að vera grunnurinn sem verkefnið byggir á, óháð því hversu spennandi nýjar hugmyndir kunna að birtast á miðri vegferð.

Það er freistandi að elta nýjar hugmyndir sem poppa upp í þróunarferlinu. Án þess að tengja þær við raunverulegar þarfir notenda getur verkefnið villst af leið.

Formúla notendaþarfa
Ein leið til að halda okkur við efnið er að vinna með skýra formúlu sem gerir okkur kleift að átta okkur á þörfum notenda, markmiðum þeirra og hvernig okkar lausnir eiga að mæta þessum þörfum. Þessi formúla er einföld:

Sem [einstaklingur í hlutverki eða aðstæðum] þarf ég að [aðgerð] svo að [ávinningur].

3049 mynd1

Til dæmis: Sem einstaklingur í nýsköpun, þarf ég þekkja notendaþarfirnar sem ég vil leysa svo ég nái árangri.

Hagnýt nálgun á notendaþarfir
Formúla notendaþarfa er óspart notuð í góðri efnishönnun enda er markmiðið að leysa þarfir notenda. Efni eða upplýsingar eru gríðarlega stór hluti af allri þjónustu- og vöruhönnun.

Hönnun sem byggist á notendaþörfum tryggir að lausnirnar þjóni raunverulegum markmiðum og séu gagnlegar notendum. Þessi nálgun hindrar að verkefni fari út í óþarfa flækjustig eða að of mikil áhersla sé lögð á fagurfræði eða ótengd tækifæri sem þó leysa ekki vandamálið sem notendur standa frammi fyrir.

Hefur þú einhvern tíma leitað að upplýsingum á vefnum eða notað smáforrit og:

  • ekki fundið neitt?
  • fundið upplýsingar en ekki skilið þær?
  • fundið upplýsingar og misskilið þær?
  • fundið ýmislegt og skilið það, en það var samt ekki það sem þú varst að leita að eða bjóst við að finna?

Flest svörum við þessu játandi. Ástæðurnar eru margar og ólíkar. En sameiginlegt með þeim öllum er að raunveruleg notendaþörf gleymdist einhvers staðar á leiðinni. Í efnishönnun, eins og í annarri notendamiðaðri nálgun, er notendaþörfin ávallt þungamiðjan.

Þegar nýjar hugmyndir yfirtaka verkefnið
Á miðri vegferð geta nýjar hugmyndir eða breytingar á stefnu auðveldlega leitt til þess að verkefnið fari út fyrir upphaflega rammann. Þetta gerist oft þegar tæknifólk, forritarar, hönnuðir eða aðrir sem koma að verkefninu sjá tækifæri til að prófa nýjustu tækni eða skapa áhugaverða upplifun, sem þó þjónar ekki beint notandanum.

Til dæmis: Smáforrit sem tekur á móti greiðslu fyrir vegatolla tekur líka á móti pylsu pöntunum.

Góð hugmynd, því sá sem á veginn á líka tvo pylsuvagna! Í framtíðinni væri hægt að bæta við frjálsum framlögum til styrktar íþróttafélaginu á svæðinu.

Það er mikilvægt að halda fókus á það vandamál sem átti að leysa. Notendaþarfir eiga að vera kjarni nýsköpunarferlisins, og ef þróunarferlið stefnir í aðra átt, ætti alltaf að spyrja: Erum við enn að leysa þörf sem notendur hafa?

Að halda nýsköpun notendamiðaðri
Nýsköpun þarf að vera knúin áfram af raunverulegum þörfum notenda. Þegar markmiðin eru skýr og notendaþarfir eru skilgreindar í upphafi er mun auðveldara að halda verkefninu á réttri leið, jafnvel þótt nýjar hugmyndir og tækifæri kvikni á leiðinni.

Með því að fylgja einfaldri formúlu fyrir notendaþarfir, og spyrja sig stöðugt hvort lausnin þjóni þessum þörfum, er líklegra að nýsköpun skili árangri og skapi virði fyrir notendur.

*Rannsókn sem vísað er í:
CB Insights. (2022, 1. desember). The top 12 reasons Startups fail. CB Insights Research. https://www.cbinsights.com/research/report/startup-failure-reasons-top/

Höfundur: Ingunn Fjóla Brynjólfsdóttir, efnishönnuður hjá Stefnu

Skoðað: 241 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála