Skip to main content
10. október 2024

Fyrstu skref gervigreindar í Hollywood

Fannar Gunnsteinsson

Fannar GunnsteinssonÁrið 2023 byrjaði og lauk sögulegu tvöföldu verkfalli SAG-AFTRA og WGA, stéttarfélag leikara og handritshöfunda í Bandaríkjunum, gegn kvikmynda og sjónvarpsverum Hollywood. Verkfallið snérist um ýmis málefni, sum þeirra gömul eins og laun, lífeyrisgreiðslur og þóknanir (residuals) fyrir notkun streymisveitna. Önnur málefni eru nýtilkomin eins og gervigreind, sem er mikið hagsmunamál fyrir leikara, rithöfunda og leikstjóra. Gervigreindin mun tvímælalaust breyta landslagi Hollywood og hefur hún nú þegar látið finna fyrir sér.

Í kvikmyndinni Litla Hafmeyjan, úr söguheimum Disney, selur titilhafmeyjan Ariel rödd sína til sjávarnornarinnar Úrsúlu og fær í skiptum draum sinn uppfylltan um að verða manneskja. Þetta hljómar eins og ævintýri en raunveruleikinn er ekki svo fjarri lagi. Árið 2022 gerði leikarinn James Earl Jones, þekktastur fyrir sín hlutverk sem Svarthöfði úr Star Wars og Mufasa úr Lion King, samning við Disney um réttindi til að þjálfa talgervil með hans rödd. Með þessari tækni gæti Disney þannig lagað séð notað röddina hans í hvaða mynd sem er, en hingað til hefur hún bara birst í sjónvarpsseríunni Kenobi, þar sem röddin var notuð fyrir Svarthöfða.

Það sem var mikilvægt í þessum samningi var að James Earl Jones gaf Disney samþykki sitt. Aðrir raddleikarar eru ekki jafn heppnir. Ári eftir að stóra tvöfalda SAG-AFTRA og WGA gegn Hollywood verkfallinu lauk hófu SAG-AFTRA annað verkfall gegn tölvuleikjaiðnaðinum. Tölvuleikir er líklega vinsælasta afþreying nútímans, og allur alþjóða tölvuleikjaiðnaðurinn eltir meiru á hverju ári en alþjóða kvikmyndageirinn og tónlistargeirinn til samans. SAG-AFTRA vill koma í veg fyrir það að fyrirtæki geti þjálfað gervigreind á efni sem raddleikarar framleiða án leyfis. SAG-AFTRA hefur oft bent á það að orðalagið í mörgum núverandi samningnum sé óskýrt og fullur af gráu svæðum sem fyrirtæki geta nýtt sér. Talgervlar hafa marga frábæra eiginleika, ekki síst í heilbrigðisgeiranum þar sem þeir geta ljáð hinum raddlausu raddir. Þetta virðist samt ekki vera markmið kvikmyndavera, þar sem þeirra markmið, eins og margra annara fyrirtækja, er að minnka launakostnað.

Stafrænar eftirlíkingar hafa einnig verið mikið í umræðunni, þar að segja tæknin til að endurgera höfuð þitt eða líkama í stafrænu formi, eitthvað sem væri síðan hægt að nota í mörgum verkefnum í framtíðinni. Verkfallið snerist að hluta til um að koma fyrir lágmarksgjald handa leikurum fyrir afnot af þeirra andliti og líkindi. Eins og með raddir finnst mér þetta vera í lagi eins lengi og samþykki allra er tryggt.

Mál sem hefur komið aftur í umræðuna er siðferði þess að nota gervigreind eða svokölluð deepfake-tækni til að endurskapa látna leikara í bíómyndum. Nýlega barst Walt Disney fyrirtækinu kæra um að þeir hafa ekki fengið nægilegt leyfi til að nota líkindi leikarans Peter Cushing í myndinni Rogue One: A Star Wars Story. Cushing fer með smávægilegt hlutverk í þeirri mynd en þrátt fyrir vöktu senur hans mikla athygli og enn þá fleir spurningar. Kæran sjálf virðist samt ekki halda miklu vatni og byggist á leynilegum samræðum sem Cushing átti að hafa átt með vini sínum rétt fyrir andlát hans. Disney fengu leyfi frá fjölskyldunni hans Cushings og borguðu þeim einhverja upphæð. En til hvers að vera að þessu til að byrja með?

Þarf alltaf að vera sami leikarann til að leika sama karakterinn? Það endist ekkert að eilífu, af hverju ættu leikferlar að gera það? Ef Sean Connery hefði, til dæmis, leikið James Bond í öllum Bond-myndum eftir 1962, hefðu áhorfendur misst af Daniel Craig, og það hefði verið ansi mikill missir. Hver leikari býður upp á eitthvað nýtt og spennandi, og karakterinn fær þar af leiðandi að breytast með tímanum.

Ekki nóg með það þá er þetta líka óþægilegt. Nú fáum við tækifæri til að sjá manneskju segja og gera hluti langt eftir hans andlát. Myndir hafa auðvitað komið út í gegnum tíðina eftir andlát leikara eða leikstjóra. Ýmsar tæknibrellur notaðar eins og að klippa gömul atriði upp á nýtt til að gefa þeim nýtt samhengi, sem kvikmyndir hafa nýtt sér í mjög langan tíma. En nútíma tækni er af allt annarri stærðar gráðu og gefur kvikmyndaverum ótakmarkað vald til að nýta sér fólk sem tæknibrellur. Leyfum frekar hinum látnu að hvílast og ráðum nýja leikara.

Hlutir eru að breytast hratt, og afþreying nútímans verður mögulega ekki afþreying
morgundagsins. Á síðustu tuttugu árum höfum við séð hverja tækni á fætur annarri taka yfir. Fyrst tók DVD-diskurinn yfir spólu markaðinn, sem seinna var steypt af stóli af Blue-ray. Sem entist enn skemur því núna var miklu þægilegra og hagstæðara að streyma myndum á netinu. Hvert sem þessi þróun stefnir, þá er eitt víst: mannkynið mun alltaf hafa þörf á sögum. Spurningin er, verður sögumaðurinn þinn manneskja eða tölva?

Höfundur: Fannar Gunnsteinsson, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá
Andrew Dalton. (2023, 19. október). Hollywood's actors strike is nearing its 100th day. Why hasn't a deal been reached and what's next?. abcnews.go.com.https://web.archive.org/web/20231020002355/https://abcnews.go.com/Business/wireStory/hollywoods-actors-strike-nearing-100th-day-deal-reached-104136181

David Brown. (2024, 9. september). Peter Cushing’s Star Wars resurrection at centre of legal battle. thetimes.com. https://www.thetimes.com/article/peter-cushings-star-wars-resurrection-at-centre-of-legal-battle-vsp8ssjg2

Noor Al-Sibai. (2024, 12. september). Before he died, James Earl Jones signed paperwork to Voice Darth Vader using Ai. Futurism.com. https://futurism.com/the-byte/james-earl-jones-voice-rights-ai

Viðbót: Sag-aftra samningurinn sjálfur https://www.sagaftra.org/sites/default/files/sa_documents/TV-Theatrical_23_Summary_Agreement_Final.pdf

Skoðað: 88 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála