Skip to main content
3. október 2024

Geta vélar hugsað?

Freyr Þórarinsson

Starfsfólk MiðeindarÁrið 2023 er vissulega að verða ár gervigreindar. Þegar spjallmennið ChatGPT birtist almenningi í lok síðasta árs var eins og stífla hefði brostið; mörg stórfyrirtæki í tölvugeiranum höfðu unnið að sambærilegum verkefnum um árabil og auðvitað byggt á áratuga löngum rannsóknum, en nú skall á flóðbylgja.

Milljónir manna prófuðu að láta spjallmennið yrkja ljóð eða skrifa forrit, leitarvélar fóru að taka ámóta stakkaskiptum og þegar Google ruddi AltaVista og HotBot til hliðar, gamalgróin forrit á borð við PhotoShop og Word flýttu sér að bjóða upp á aðstoð gervigreindar og dálkahöfundar og spekingar tóku að skrifa pistla um framtíð gervigreindar, ýmist um stórkostlega möguleika hennar eða um endalok mannkyns með yfirtöku vélmenna.

Ein spurning sem nú vaknar er þessi: Geta tölvur hugsað? Þetta er reyndar ekki glæný pæling því Alan Turing varpaði sömu spurningu fram í grein sem birtist 1950 og nefndist Reiknivélar og greind.[1] Greinin hefst á þessum orðum: I propose to consider the question, ‘Can machines think? ’. Turing segir þó spurninguna vera illa fram setta, því engin einföld leið sé til þess að ákveða hvað sé „hugsun“. Hann leggur því til að í stað þessarar spurningar komi einföld tilraun sem síðan hefur verið nefnd eftir honum og kölluð Turing prófið. Hún er svona:

MyndÞrír aðilar taka þátt í prófinu: Einn prófdómari og tveir leynigestir. Þessir þrír aðilar sjá ekki hvern annan en skiptast á skrifuðum spurningum og svörum. Annar leynigesturinn er manneskja en hinn er tölva, sem á að svara eins og manneskja. Prófdómarinn yfirheyrir báða leynigestina og reynir að sjá út úr svörum þeirra hvor muni vera tölva og hvor sé manneskja. Ef það tekst ekki segjum við að tölvan hafi staðist Turing prófið.

Ég nota hér orðið tölva í staðinn fyrir vél, enda rökstyður Turing í grein sinni að umrædd vél muni verða tölva (digital computer) en slíkar vélar voru þá að byrja að líta dagsins ljós. Ekki er gerð krafa um að tölvan svari öllum spurningum rétt eða að þekking hennar sé óbrigðul, enda er þess ekki krafist af fólki yfirleitt. Einungis er horft til þess að skilningur á spurningum, þekking, röksemdafærsla og orðalag sé nægilega manneskjulegt.

Í grein sinni giskar Turing á að um aldamótin 2000 verði tölvur komnar með megabæt af minni og þær verði hægt að forrita þannig að í 70% tilfella standist þær prófið eftir fimm mínútna yfirheyrslu. Þetta er merkilega nærri lagi og ég held að flestir geti fallist á að trúlega standist ChatGPT spjallmennið ætíð Turing prófið þegar samræðurnar fara fram á ensku. Það er sannarlega mikið ánægjuefni að íslenska skuli vera í boði sem annað tungumál spjallmennisins, en það stenst þó reyndar ekki prófið á íslensku, enn sem komið er.

Alan Turing
3038 Alan Turing 1912 1954 in 1936 at Princeton UniversityÞað er ekki úr vegi að skjóta hér inn örstuttu æviágripi Alan Turing sem oft er nefndur upphafsmaður kennilegrar tölvunarfræði. Hann fæddist árið 1912 og árið 1936, þegar hann var einungis 24 gamall, birti hann grein sem nú er talin grundvöllur tölvunarfræðinnar. Þar gerði hann grein fyrir hugmynd sinni um universal machine sem gæti túlkað og framkvæmt allar skipanir sem henni væru gefnar[2].

Á stríðsárunum leiddi Turing leynilega deild bresku leyniþjónustunnar þar sem hópi stærðfræðinga tókst ítrekað að ráða dulmálskóða þýsku kafbátanna, en það skipti sköpum í baráttunni um Atlantshafið. Um þetta tímabil í ævi hans hafa verið skrifaðar ótal bækur og gerðir sjónvarpsþættir og kvikmyndir, meðal annars Enigma (2001) sem skartaði Kate Winslet í hlutverki vinkonu hans og The Imitation Game (2014) þar sem Benedict Cumberbatch fór með hlutverk Alan Turing.

Eftir stríðið sneri Turing sér að hönnun fyrstu forritanlegu tölvunnar ACE (Automatic Computing Engine). Þess má geta til samanburðar að ENIAC tölvan (Electronic Numerical Integrator and Computer), sem smíðuð var í Bandaríkjunum í stríðinu sérstaklega til þess að reikna út skottöflur fyrir fallbyssur, var ekki forritanleg heldur var vinnslu hennar breytt með því að færa til víra eins og á skiptiborði í síma. ACE tölvan var hins vegar forrituð á vélamáli og bæði forrit og gögn voru vistuð í minni tölvunnar. Áður en smíði ACE tölvunnar lauk flutti Turing sig um set og tók að huga að margvíslegum öðrum viðfangsefnum, þar á meðal hugleiðingum um gervigreind og stærðfræðileg munstur í náttúrunni og skrifaði hann brautryðjandi greinar á þeim sviðum.

Alan Turing var samkynhneigður og eftir stríðið var hann lögsóttur fyrir að hafa haft mök við aðra karlmenn. Í yfirheyrslum mátti hann engu svara um það hvað hann hefði gert á stríðsárunum – það var allt svo leynilegt – og svo fór að hann var neyddur til að undirgangast tilraunakennda hormónameðferð, sem almennt var kölluð efnafræðileg gelding. Skömmu eftir meðferðina svipti hann sig lífi, tæplega 42 ára að aldri.

Þótt fáir þekktu til verka Alan Turing á fyrstu árunum eftir stríð fór vegur hans fljótt vaxandi í heimi tölvuvísindanna. Árið 1966 hófu alþjóðlegu samtökin ACM (Association for Computing Machinery) að veita árlega svokölluð Turing-verðlaun, sem eru oft kölluð Nóbelsverðlaun tölvunarfræðinnar. Árið 2009 baðst Gordon Brown, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, afsökunar fyrir hönd ríkisins á „þeirri skelfilegu meðferð“ sem Turing þurfti að þola. Enska drottningin náðaði svo Turing árið 2013 (betra seint en aldrei) og fyrir tveimur árum var nýi 50 punda seðillinn skreyttur með mynd af Alan Turing.

Hafa tölvur meðvitund?
Aftur að gervigreindinni. Önnur spurning sem hefur vaknað er hvort tölvur geti haft meðvitund. Það komst í fréttir í júlí 2022 að Google hefði rekið forritara fyrir að halda því fram að spjallmenni Google sýndi merki um að hafa meðvitund. Forritarinn spurði spjallmennið hvað það óttaðist helst og tölvan sagðist sífellt óttast að slökkt væri á sér – það yrði eins og að deyja og myndi hræða sig mikið. Þetta hljómar eins og vélin hafi sjálfsvitund, en við hvernig svari býst maður frá vél sem stenst Turing prófið? Flestum í bransanum þykir því fráleitt að svar tölvunnar beri vitni um meðvitund, en með sífelldum framförum í gervigreind verður stöðugt erfiðara að greina á milli manns og vélar.

Kannski Edgar Dijkstra (brautryðjandi í tölvunarfræðum og handhafi Turing-verðlaunanna 1972) hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði: Að spyrja hvort tölvur geti hugsað er eins og að spyrja hvort kafbátar geti synt.[3] Það er tilgangslítið að manngera vélarnar, hversu mjög sem okkur getur þótt þær líkjast okkur. Við erum af holdi og blóði, tilfinningar okkar og upplifanir eru ekki bara háðar hugarstarfsemi okkar heldur ekki síður hormónum, ensímum, taugaboðum og efnafræði líkamans. Vélarnar geta reiknað hraðar en við, verið fljótari að leita að upplýsingum, tekið skjótari og oft skynsamlegri ákvarðanir en við, en þær eru ekki mennskar og verða það aldrei.

Engu að síður virðist hugarstarfsemi spjallmenna vera furðu lík okkar og athyglisvert að undirstöðuatriði í hönnun þeirra eru svokölluð „tauganet“ sem frá upphafi var ætlað að herma eftir tengslaneti heilafruma. Án þess að fara langt út í þá sálma má velta því fyrir sér hvort tauganet í gervigreind séu nógu lík tengslaneti heilafruma til að það varpi nýju ljósi á heilastarfsemi okkar. Er þessi margfrægi hæfileiki okkar til að hugsa frumlega bara spurning um nógu stórt tauganet?

 Höfundur: Freyr Þórarinsson

[1] Alan Turing, „Computing Machinery and Intelligence“, Mind, Volume LIX, Issue 236, October 1950.

[2] Alan Turing, „On Computable Numbers, With an Application to the Entscheidungsproblem”, Proceedings of the London Mathematical Society, 1936-37.

[3]The threats to computing science.“ Aðalræða á ACM ráðstefnu í Austin, Texas, 1984.

Skoðað: 393 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála