Skip to main content
4. apríl 2024

Gogg áhrifin

Kári Harðarson

Kári HarðarsonKannast þú við pappírsleikfang sem er kallað „Goggur“? Hann er brotinn saman, trélitaður og með tölum innan í. Þú átt að velja eitthvað hornið og sjá hvaða tala er á bak við. Það er erfitt fyrir flesta (a.m.k. mig) að muna hvað er bak við hvaða lit. Ef goggurinn er brotinn sundur verður allt augljóst því yfirsýnin fæst.

Ég vil halda því fram að tölvunarfræðingar eigi að forðast að búa til svona gogga að óþörfu. Flokkið hugsanir og verk og gerið þeim sem koma á eftir ykkur kleift að lesa í gegnum skipulegan, línulegan texta.

Ég vil nefna nokkur dæmi til að forðast. Fyrsta dæmið eru samskiptaforrit en þau fá oft að þrífast mörg saman og það þarf að kíkja inn í hvert og eitt þeirra. Er einhver að ná í þig með Gmail, Outlook, Slack, Zoom, Teams eða Jira eða jafnvel á Facebook? Oftar en ekki er hvert innbox hálftómt. Misstir þú af einhverju?

2987 Mynd1

Einn samskiptastaðall gæti leyft okkur að velja sjálf hvernig, hvar og hvenær við tökum á móti upplýsingum. Svona stöðlun var lykillinn að internetinu, mörg net voru sameinuð í eitt en það þurfti Bandaríkjaher til. Öll netlögin starfa saman í dag nema það efsta. Ég vona reyndar að þetta netlag verði einhvern tíma staðlað en ég ætlaði ekki að leysa málið, bara benda á svæsið tilfelli af „gogg áhrifunum“.

Athygli er takmörkuð auðlind og margir keppa um hana eins og sést í dæminu að ofan. Ekki sólunda henni með því að breyta línulegum lestri í síðuflakk („browsing“) um tómar síður og möppur.

Mörg tól eru jú gerð til að gera nánast sama hlutinn. Eigum við að geyma skjölun verkefnis á sameiginlegu Z: drifi, GitLab, Confluence, Google Drive, sem athugasemdir í Jira, eða sem spjall á Slack? Er svarið að nota öll tólin og leita svo á öllum þessum stöðum að því sem þig vantar? Það er svo auðvelt að kaupa nýtt tól, en það er meiri áskorun að innleiða gott verklag.

2987 Mynd2

Þegar inn í Jira er komið eru undirverk oft mörg og lítil en hvert þeirra er hálf tómt og þeim sem á að leysa það er nánast ekkert gefið að gera með lágmarks skýringartexta. Verkaskipting í þarfagreiningu er jú hluti af hönnuninni og forritið sem verður skrifað samkvæmt henni mun endurspegla undirverkþættina sem voru ákveðnir í upphafi.

Forritið sem er skrifað inniheldur stundum margar hálftómar undirmöppur. Hver skrá í möppu inniheldur fá föll eða klasa, sem gerir lítið.

Þetta er ekki góð hönnun, frekar en bókarkafli sem er bara ein málsgrein. Sá sem reynir að lesa það fær ekki yfirsýn. Gott IDE forrit eins og Visual Studio eða IntelliJ gerir flakkið þolanlegra en það er ekki lausn.

Hjálpin með forritinu er oft svipuð. Textanum er skipt í fáar málsgreinar á hverri síðu sem hver um sig lýsir einum eða tveim reitum í skjámynd. Það var gert grín að Microsoft fyrir svona hjálparsíður en þær eru því miður algengar. Hjálparsíðan endurspeglar forritið sem endurspeglar verklýsinguna.

Ég hef oft séð „Confluence“ síður sem eiga að hýsa innanhúss þekkingu. Oft eru síðurnar flokkaðar eftir teymunum sem voru við lýði þegar vefurinn var stofnaður og þar eru oft nöfn á teymum sem eru ekki lengur til. Hver ákvað að það væri besta flokkunin?

Af hverju eru síðurnar tómar eða ekki viðhaldið? Þeir sem eru fyrir á fleti vita oft betur en að reyna að flokka og skjala því kollegar þeirra ganga um upplýsingar þekkingarfyrirtækis eins og illa upp alið fólk gengur um sameiginleg svæði. Fyrir mér er þetta kjarni greinarinnar: Af hverju er þessi umgengni um þekkingu í lagi hjá þekkingarfyrirtækjum?

Skipulag í upphafi er mikilvægt. Þá er flokkunin búin til og hlutunum gefin góð nöfn. Það er freistandi að ætla sér að skilgreina hluti betur þegar verkefninu vindur fram en þetta er gryfja sem þarf að varast. Góð kerfi þarf að hanna, líka þegar Agile er notað. Um flokkanir og nafngiftir má segja sem sagt er til sjós: Staður fyrir hvern hlut og hver hlutur á sínum stað.

Það er ekki gott þegar grunnhugmyndir hafa ekki verið skilgreindar svo allir hafi sterkan hugtakagrunn til að eiga samskipti á. Orð geta þvælst fyrir þegar þau þýða ekki það sama hjá hverjum og einum.

Of mikið og illa ígrundað skipulag fyrir fram er ekkert svar en það verður samt að reyna. Í Ameríku segja þeir „if you fail to plan you plan to fail“. Forritunarmálið Python lagði af stað með nokkur gullkorn að leiðarljósi. Eitt þeirra var: There should be one, and preferably only one, obvious way to do it. Það hjálpaði að höfundurinn var upphaflega bara einn -- Python var ekki hannað í nefnd. Þetta skýrir vinsældir og langlífi Python að mínu mati.

Sá sem lærir málið í dag þarf að læra margar aðferðir til að gera sama hlutinn því margir hafa komið með nýjar hugmyndir inn í málið með tímanum. Skýr sýn spilltist á löngum tíma en höfundurinn markaði stefnu sem dugði lengi.

2987 Mynd3
Höfundur myndar „Charles Minard“

PS: Í bókinni „Visual Display of Quantitative Information“ eftir Edward Tufte er myndin hér að ofan notuð sem dæmi um snilldar framsetningu á gögnum. Hún sýnir innrás Napóleons inn í Rússland 1812. Þarna má sjá leiðina sem hann fór og mannfallið þegar hitastigið féll um veturinn. Ég hugsa stundum til þessarar myndar, hvað hægt er að koma upplýsingum haganlega fyrir ef höfundurinn vandar sig.

Höfundur: Kári Harðarson, tölvunarfræðingur

Skoðað: 522 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála