Skip to main content
21. mars 2024

Gervigreind til framfara

Ólafur Andri Ragnarsson

Ólafur Andri RagnarssonAllt frá sögum forngrikkja um vitigædda bronsvélmennið Talos sem gætti eyjarinnar Krít og til sagna miðaldanna um Golem, leirmanninn sem gætti íbúa í Prag, hefur sú hugmynd að skapa vitsmunaveru lengi verið manninum hugleikin. Þetta voru þó ekki bara sögur og ímyndun. Á tímum Endurreisnarinnar smíðuðu menn flókin gangverk í klukkur sem sýndu afstöðu himintunglanna sem og vélræn leikföng, oft í mannsmynd. Þegar fyrstu tölvurnar koma fram eru menn ekki lengi að leita leiða til að fá þær til að gera mannanna verk. Allt endurómar þetta sama drauminn, sem er að móta, búa til eða kóða eitthvað í líkingu við okkur, að anda vitsmunum inn í hið líflausa, búa til gervigreind.

Tölvur og gervigreind hafa hingað til helst nýst við að framkvæma aðgerðir sem mönnum reynast erfið og seinleg, eins og að framkvæma flóknar stærðfræðiaðgerðir, leita í gögnum og raða gögnum. Verk sem felast í rútínu og endurtekningu eru afar hentug til sjálfvirknivæðingar með tölvum. Núna á 21. öldinni er gervigreindin komin á það stig að sífellt meira af mannanna verkum má leysa með tækni, verk sem maðurinn einn gat framkvæmt eins og að þýða milli tungumála, keyra ökutæki, fljúga drónum, þekkja andlit á myndum og greina líkamleg frávik á röntgenmyndum. Með nýjustu framförum getur gervigreindin unnið verk sem áður þurfti þekkingu, þjálfun, hæfileika og sköpunargáfu. Þetta er aðeins byrjunin. Gervigreind mun hafa mjög jákvæð áhrif á mannkynið næstu áratugi og efla framfarir í heiminum.

Árið 2022 urðu viss kaflaskil í þróun gervigreindar. Þá kom á markað fyrir almenning gervigreindarkerfið ChatGPT sem byggir á svokallaðri spunagreind (e. generative AI). Hægt er að setja fram spurningu og kerfið kemur með ítarleg og greinargóð svör. Hægt er að óska eftir kóða sem leysir ákveðin verkefni, SQL fyrirspurnir og HTML síður. Þá er hægt að biðja um texta sem lýsir einhverju, jafnvel látið kerfið skrifa grein, leikrit eða kvikmyndahandrit. Sem dæmi þá hjálpaði ChatGPT til við að skrifa fyrstu málsgreinina hér að ofan. Almennt voru viðbrögðin jákvæð, jafnvel undrun og aðdáun yfir þessu nýja tæki. Orð Arthur C. Clarkes komu í hugann „Sérhver nægilega háþróuð tækni er óaðgreinanleg frá töfrum“.

En viðbrögðin voru líka neikvæð. Fljótlega spruttu fram fyrirsjáanlegir úrtölumenn. Fréttamiðlar kepptust við að taka viðtöl við fræðimenn og spáð var fjöldaatvinnuleysi, svo miklu að borgaralaun væru eina lausnin, enda koma vondar hugmyndir oft fram í örvæntingu. Skólafólk sá fram á endalok á skilaverkefnum og ritgerðum nemenda. Þá væri þessi tækni stórhættuleg kæmist hún í hendur óvandaðra. Setja þurfi reglur um hvað má og hvað má ekki, allt byggt á siðfræði.

Allt þetta uppnám var stórlega ýkt.

Þeir sem þekkja tæknisögu vita að þetta eru dæmigerð viðbrögð. Alltaf þegar framandi tækni kemur fram og fólk er að reyna að átta sig á nýjum veruleika, tækifærum og ógnunum, þá fylgja svartsýnir úrtölumenn í kjölfarið og finna henni allt til foráttu. Jafnvel þeir sem ættu að bregðast við eins og Ken Olsen, stofnandi miðtölvufyrirtækisins Digital Equipment Corporation, sem sagði árið 1977, þegar Apple II einkatölvan kom á markað, að það væri engin ástæða fyrir fólk að hafa tölvu á heimilinu. Þeir hjá Pessimist Archive hafa mörg önnur dæmi. Bílar áttu mjög erfitt uppdráttar á 19. öldinni, enda hræddu þeir hestana sem var ríkjandi samgöngumáti þess tíma. Settar voru margar hömlur á notkun þeirra sem nú vekja kátínu. Á Bretlandi í lok 19. aldar þurfti maður að labba á undan bílnum með rauðan fána og vara vegfarendur við að bíll væri að koma. Annað dæmi er þegar ferðakassettutæki með heyrnartól, eins og Walkman, kom á markað voru háværar umræður í sumum ríkjum Bandaríkjanna og vildu margir banna notkun tækjanna til dæmis við akstur, jafnvel í bílum sem þó voru með kassettutæki.

Það er þó líka réttmæt gagnrýni á gervigreind og líkön eins og ChatGPT. Upplýsingarnar sem þessi líkön hafa þurfa ekki að vera réttar og geta verið misvísandi. Miðað við hve mikið af röngum upplýsingum, bulli og samsæriskenningum eru almennt á Internetinu, má ætla að eitthvað af því hafi ratað í gögnin sem notuð eru til að þjálfa þessi líkön. Þá eru fordómar fylgifiskur gervigreindar þar sem gögn byggja á og miðast við einsleitan hóp.

Hvað sem því líður mun gervigreind hafa gríðarlega jákvæð áhrif á mörgum sviðum. Til dæmis mætti nefna að áður nefnd þjónusta eins og ChatGPT getur hjálpað okkur á ýmsan hátt, eins og til dæmis að skrifa tölvupósta, hvort sem hann á að vera formlegur eða léttur, skrúðmæltur eða knappur. Þegar skrifa á uppsagnarbréf eða tilkynna höfnun á umsókn getur verið gott að fá texta frá svona kerfi.

Fjölmörg önnur kerfi sem vinna með texta hafa komið fram eins og jamie og Otter sem hlusta á fundi og skrifa fundargerð. Þá eru lausnir sem breyta texta í tal og lausnir sem textasetja vídeó í rauntíma og jafnvel „dubba“ myndir á önnur tungumál og nota þá rödd þess sem talar. DALL-E kerfið tekur textalýsingu og býr til myndir. Önnur kerfi taka handrit og búa til vídeó.

Áhrif gervigreindar kemur best í ljós þegar hún hjálpar fólki við sérhæfðari verkefni sem áður voru aðeins leyst af sérfræðingum. Gervigreindin getur leiðbeint, aðstoðað, komið með dæmi, farið yfir og þannig gert fólk mun öflugra. Gervigreindin hefur þann kost að vera til staðar allan sólarhringinn, verður aldrei þreytt og hefur endalausa þolinmæði.

Fyrir þá sem búa til hugbúnað má láta gervigreind hjálpa við að skrifa kóðann, setja upp lausnir og villuleita. Forritarar hafa þannig tól sem eykur framleiðni verulega. Uppsetning á flóknum lausnum verður einfaldari og tekur mun styttri tíma. Þar að auki geta Agile teymi notað gervigreind og forspárgreiningar til að fá betri og nákvæmari mat á umfangi verkefna.

Sama má segja um sérfræðinga eins og lækna og annað heilbrigðisfólk. Gervigreindin getur aðstoðað við að greina sjúkdóma, finna réttu meðferðina, jafnvel réttu lyfin og stærð skammta. Gervigreind má nota til að framleiða persónubundin lyf fyrir hvern og einn, enda eru ekki allir eins. Ekki bara það, gervigreind getur líka nýst í endurhæfingu sjúklinga. Hún getur veitt aðhald, minnt á lyfjainntöku, minnt á hreyfingu – og auðvitað hefur hún endalausa þolinmæði gagnvart fólki sem er að glíma við erfiðar áskoranir og ekki síður andlegar. Það má líka hugsa sér gervigreind sem veitir eldri borgurum samveru. Einmanaleiki er stórlega vanmetinn og þó að tækni leysi ekki félagsskap þá er gervigreind sem talar við fólk betri en ekki neitt. Róbotar með gervigreind, hvort sem þeir eru í mannsmynd eða eins og krúttleg dýr, geta aðstoðað og verið félagsskapur á heimilum.

Menntun er líka að gjörbreytast. Hér áður fyrr var menntun stöðluð, allir með sama námsefni á sama hraða, hvort sem það hentaði eða ekki. Með nýrri tækni geta kennarar búið til persónubundin verkefni, spurningar og próf sem miða má við getu og áhuga hvers nemenda. Kennarar geta einnig notað gervigreindina við námsmat, símat og þannig sleppt lokaprófum. Í dag getur nemandi fengið svör við hverju sem er, fengið lausnir á vandamálum og eflt skilning sinn á því hvernig þær virka. Sem dæmi þá hefur Khan Academy útbúið Khamigo spjallmenni sem leiðbeinir nemendum við að leysa verkefni, leiðréttir og svarar spurningum. Það er eins og að hafa persónulegan einkakennara við að læra. Sjálfur Sal Khan stofnandi fyrirtækisins hefur sagt að menntun sé núna á stærstu og mikilvægustu tímamótum í sögunni.[1]

Þetta eru bara nokkur dæmi. Það verða líklega fá svið þar sem gervigreindin gæti ekki nýst. En eru fyrirtæki að innleiða gervigreind? Greiningaraðilar eru duglegir við að gera frasafullar skýrslur um áhrifin. McKinsey Global Institude spáir því að 70% fyrirtækja muni taka í notkun einhvers konar gervigreind fyrir 2030 og innan við helmingur stórra fyrirtækja muni nota gervigreind að fullu leiti[2]. Price Waterhouse Coopers telur að gervigreind muni auka verga heimsframleislu um 14% fram til 2030. Þá telur fjármálafyrirtækið Goldman Sachs að bara spunagreind eins og ChatGPT muni auka verga heimsframleiðslu um 7% (sem eru um 7 trilljón Bandaríkja dollarar)[3].

Í stefnu Íslands um gervigreind frá árinu 2021 segir: „Tækifærin sem notkun gervigreindar skapar þurfa að standa öllum til boða og segja má að Ísland sé í sérstaklega góðri stöðu til að nýta þau. Gervigreind byggist á hugviti og þekkingu frekar en stærð vinnuaflsins. Fyrirtæki og nýsköpun sem á slíkri tækni byggjast geta oftar en ekki starfað og veitt þjónustu þvert á landamæri og heimsálfur. Þetta gæti skapað ný og áður óséð tækifæri hér á landi.“[4]

Á meðan blaðamenn ræða við fræðinga um hættur gervigreindar og nauðsyn þess að innleiða einhverjar Evrópureglugerðir, þá eru nýsköpunfyrirtækin á fullu að smíða lausnir sem byggja á gervigreind. Framfarir verða með nýsköpun og gervigreindin hefur búið til nýtt tækifæri til að smíða nýjar lausnir sem áður voru órar einir. Draumur mannsins um að smíða vél í sínu líki til að framkvæma verk hans er að einhverju leiti orðinn að veruleika. Það má því búast við að þær miklu framfarir og lífsgæðaaukning sem við höfum séð í heiminum síðastliðna áratugi muni halda áfram.

Höfundur: Ólafur Andri Ragnarsson

Heimildir:

 [1] https://www.ted.com/talks/sal_khan_how_ai_could_save_not_destroy_education

[2] https://www.mckinsey.com/~/media/McKinsey/Featured%20Insights/Artificial%20Intelligence/Notes%20from%20the%20frontier%20Modeling%20the%20impact%20of%20AI%20on%20the%20world%20economy/MGI-Notes-from-the-AI-frontier-Modeling-the-impact-of-AI-on-the-world-economy-September-2018.ashx

[3] https://www.goldmansachs.com/intelligence/pages/generative-ai-could-raise-global-gdp-by-7-percent.html

[4] https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/FOR/Fylgiskjol-i-frett/Stefna%20Íslands%20um%20gervigreind

Skoðað: 515 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála