Skip to main content
29. febrúar 2024

Fræðsla á tímum gervigreindar

Atli Þór Kristbergsson

Atli Þór KristbergssonÝmislegt hefur verið sagt um leiðbeinendur og kennara í gegnum árin en það sem stendur upp úr er menntun, hæfni og þekking þeirra. Að þeir hafi ríka samkennd, veri jákvæðir og hafa góða sjálfsmynd eru ekki síðri góðir eiginleikar til að halda utan um hóp ólíkra nemenda sama hversu gamlir þeir eru.

Að hafa ríka samkennd, vera jákvæður og góða sjálfmynd er eitthvað sem hver og einn einstaklingur byggir upp á sínum ferli og gerir viðkomandi að betri leiðbeinanda eða kennara. Verður vélin einhvern tíma fær um þessa þætti? Sjálfsagt verður hún með mikla þekkingu en litla menntun eins og við skilgreinum hana í dag. En er það nóg að hafa mikla þekkingu til að vera góður kennari eða leiðbeinandi?

Á síðustu árum og áratugum höfum við orðið vitni af ótrúlegum tækniafrekum sem engan endi virðast ætla að taka. Nú síðast hefur gervigreindin verið að ryðja sér til rúms en henni er ætlað stórt hlutverk er kemur að fræðslu. Hver einstaklingur á að hafa sinn eigin kennara er eitthvað sem hefur verið nefnt. En hvað með mannlega þáttinn?

Ég tel að kvikmyndinni sé ætlað að gjörbylta menntakerfinu okkar“ sagði Thomas Edison, 1922 eða fyrir meira en 100 árum. „Og innan fárra ára mun hún kom í stað notkunar kennslubóka að mestu, ef ekki öllu leyti“. Skoðun Edison breyttist lítið á árunum þar á eftir „Eftir tíu ár verða kennslubækur sem aðalkennslumiðill jafn úreltar og hesturinn og vagninn eru núna… það eru engin takmörk fyrir myndavélinni“ - Edison var því á þeirri skoðun að hefðbundin kennsla væri á undanhaldi með nýrri tækni þess tíma.

En sýn Edison á þróun fræðslu með nýrri tækni var ekkert einsdæmi. Með útbreiðslu útvarpsins á árunum 1930 til 1950 var álitið að það myndi losa flesta skóla og/eða skólakerfið við kennara, að mestu leyti alla vega. Að geta komið kennara inn í hverja stofu hvar og hvenær sem er með einu útvarpi var álitið fýsilegt. Samkennd, jákvæðni og góð sjálfsmynd var að engu höfð. Allir áttu að geta lært með því einu að hlusta á rödd er kom úr útvarpi.

Við eigum til að gleyma sögunni og þeim fullyrðingum sem haldið hefur verið á lofti enda var því haldið fram að tölvan, upp úr 1980, myndi leysa vanda skólakerfisins en þar fengist hinn fullkomni kennari – óþrjótandi fróðleikur og endalaus þekking.

Geisladiskar áttu líka að gera sitt í að fækka kennurum enda var hægt að koma heilum bókasöfnum og öðru fræðsluefni inn á einn disk eða tvo. Tungumálanám, saga, listir og fleira hafa verið gefin út á diskum. En að sitja ein(n) við tölvuna án nokkurs áreitis frá öðrum er ekki allra. Einsemd, einmannleiki og skortur á aðhaldi er eitthvað sem margir hafa nefnt.

Með tilkomu internetsins varð vissulega sprenging í aðgengi að upplýsingum enda hægt að fletta upp í alfræðiritum, orðabókum, lesa gamlar greinar, skoða eldri fréttir og margt, margt fleira. Þrátt fyrir það er enn kennari í hverri stofu og fjöldi nemenda í kennaranámi aldrei meiri. Árið 2022 útskrifuðust 454 kennarar eða 160 prósent aukning frá árinu á undan.

Því má með sanni segja, að í meira en 100 ár, hafi því verið haldið fram að eitthvað eitt sé að fara taka yfir er kemur að kennslu. Kvikmyndin, útvarpið, tölvan, geisladiskurinn, internetið… eigi að gera það sem kennari gerir almennt. Allt á þetta sameiginlegt að sleppa mannlega þættinum. Að vera hluti af hópi, heyra sýn annara á t.d. sögu og/eða túlka niðurstöður með ólíkum hætti.

Nýjasta tækniútspilið er gervigreind – hún muni svo sannarlega brjóta upp hefðbundið kennslufyrirkomulag. Auglýsingar eru farnar að sjást þar sem enginn er maður með mönnum nema viðkomandi kunni öll skil á þessari nýju tækni. Stærðfræði, útreikningar, ritun, myndagerð og/eða teikningar eru nú þegar aðgengilegar með því að nota gervigreind. Eina sem þarf að gera er að velja rétta hugbúnaðinn, slá inn nokkur orð ásamt hvatningu og gervigreindin sér um rest.

Ef við stöldrum aðeins við og horfum á hvað hefur gerst með nýrri tækni kemur í ljós að hún hefur reynst góð viðbót við hið hefðbundna. Hugsanlega verða það örlög gervigreindarinnar að verða enn eitt tólið sem við nýtum okkur er kemur að menntun.

Gervigreind mun hjálpa til er kemur að kennslu en meira þarf til en bara vita allt. Að geta lesið bekkinn, aðstoðað og leiðbeint þeim er sitja eftir, ýtt við og hvatt þann er vantar, komið með aðra nálgun og margt, margt fleira þarf til en bara hafa mikla þekkingu.

Ég hef verið að kenna í upplýsingatækni meira og minna síðan 2002 en þá hóf ég störf hjá NTV og kenndi námskeið er hét því einfalda nafni „A+“ og fjallaði um uppbyggingu tölvunnar og undirbýr nemendur undir þjónustu og viðgerðir á þeim. Á síðustu árum hef ég aðalega verið að kenna á Microsoft M365 afurðir hjá fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum ásamt því að vera verktaki hjá nokkrum af símenntunarmiðstöðvum.

Staðbundin kennsla, fjarnám, sjálfnám, vendikennsla er allt eitthvað sem hefur verið reynt og mun vera áfram til staðar. Gervigreind er að öllum líkindum ekki að fara breyta neinu þar um. Nemendur eru mismunandi og kjósa mismunandi form af fræðslu. Nemandi sem vill geta lært þegar honum hentar kýs því oft sjálfsnám á meðan annar segist ekkert fá út úr náminu nema vera hluti af hópi þar sem kennari miðlar upplýsingum. Þannig fá þessi tveir nemendur það sem þeir vilja út úr náminu – ekki með því að setja báða í fjarnám því það sé „best“.

Tæknin hefur hjálpað til við kennslu, því er ekki hægt að neita. Spjaldtölvur halda meira af efni en flest bókasöfn geta státað af. Hægt er að sækja nýjustu upplýsingar á internetinu eða skoða myndbönd í fartölvunni ásamt því að skrifa ritgerðir og/eða skýrslur.

Mun gervigreindin því taka yfir núverandi kennslufyrirkomulag? Ef við stöldrum aðeins við og rýnum í söguna eins og gert er hér að ofan er það ólíklegt þar sem margt annað en fræðsla á sér stað inni í kennslustofunni. Gervigreind er sennilega ekki að fara koma í stað alls þessa en mun verða eitt af þeim tólum er nemendur hafa aðgang að.

Ef upplýsingarnar sem gervigreindin hefur aðgang að eru réttar og hún þjálfuð í að gefa upplýsandi svar verður hún án efa frábær viðbót við það sem nú þegar er til staðar.

Höfundur:  Atli Þór Kristbergsson,  Sjálfstætt starfandi leiðbeinandi 

Skoðað: 441 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála