Skip to main content
7. desember 2023

Andlát heiðursfélaga: Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur

UTmessan logoÞorsteinn Sæmundsson, vísindamaður við Raunvísindastofnun, lést þann 26. nóvember 2023, 88 ára að aldri.

Þorsteinn fæddist í Reykjavík 15. mars 1935. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1954 og B.Sc. Honours prófi frá Háskólanum í St. Andrews í Skotlandi 1958, með stjörnufræði sem aðalgrein en stærðfræði, eðlisfræði og jarðfræði sem hliðargreinar. Frá 1958 til 1962 stundaði hann rannsóknir við stjörnuturn Lundúnaháskóla og lauk doktorsprófi þaðan 1962. Sérsvið Þorsteins var áhrif sólar á jörð og fjallaði doktorsritgerð hans um uppruna endurtekinna segulstorma.

Eftir heimkomu til Íslands 1963 hóf Þorsteinn starf við Eðlisfræðistofnun Háskólans sem síðar stækkaði í Raunvísindastofnun Háskólans. Hann sat í fyrstu stjórn stofnunarinnar frá 1966-1967 sem forstöðumaður jarðeðlisfræðistofu. Hann varð deildarstjóri Háloftadeildar, sá um rekstur segulmælingastöðvar háskólans frá 1963 til starfsloka og rekstur norðurljósamyndavéla á Rjúpnahæð og við Egilsstaði. Þorsteinn hafði einnig umsjón með rekstri norðurljósamyndavéla sem Pólrannsóknastofnun Japans kom hér upp. Þá annaðist hann útreikning og útgáfu Almanaks Háskólans í sextíu ár, þar af 19 ár með öðrum.

Þorsteinn var fulltrúi Íslands í stjórn Norræna sjónaukans á Kanaríeyjum. Þorsteinn var félagi í Breska stjörnuskoðunarfélaginu (British Astronomical Association) frá 1952 með virkri þátttöku í norðurljósadeild þess í nokkur ár, heiðursfélagi frá 2002. Hann var félagi í Konunglega breska stjörnufræðifélaginu (Royal Astronomical Society) frá 1962.

Þorsteinn gegndi mörgum trúnaðarstörfum á sínum ferli. Hann átti meðal annars sæti í Rannsóknarráði ríkisins 1969-1973, stjórn Félags háskólakennara 1970-1972 og stjórn Hins íslenska stærðfræðafélags 1964-1966. Þá var hann einn af stofnendum Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og jafnframt fyrsti formaður þess 1976-1978 og heiðursfélagi frá 2008. Hann var formaður Stjarnvísindafélags Íslands 2000-2004.

Þorsteinn er höfundur eða meðhöfundur um 50 ritrýndra fræðigreina en birti auk þess hátt í 300 greinar fræðilegs eðlis í Almanaki Háskólans, Almanaki Þjóðvinafélagsins, á vef Almanaks Háskólans og eigin vefsíðu, auk ýmissa dagblaða og tímarita.

Þorsteinn var mikill áhugamaður um íslenskt mál og hafði yfir að ráða afburðaþekkingu á íslensku. Hann starfaði í tveimur orðanefndum og vann einnig að því að taka saman efni um íslensk heiti frumefnanna.

Stjarnvísindafélag Íslands var stofnað 1988 og árið 1990 var sett á laggirnar orðanefnd. Þorsteinn var formaður nefndarinnar frá upphafi. Árið 1996 kom út hjá Háskólaútgáfunni Ensk-íslensk og íslensk-ensk Orðaskrá úr stjörnufræði með nokkrum skýringum sem nefndin hafði tekið saman. Orðaskráin var tölvutekin og komið í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar þegar hann var opnaður 1997. Árið 2001 var orðaskráin síðan endurskoðuð og stækkuð og síðustu breytingar færðar í orðabankann í febrúar 2002. Síðar (sennilega 2012) var ákveðið að flytja skrána á vefsetur Almanaks Háskólans þar sem viðmót hennar yrði aðgengilegra og auðveldara að lagfæra skrána. Þorsteinn hélt skránni við á vefsetri Almanaks Háskólans og eru síðustu lagfæringar dagsettar í mars 2020.

Orðanefnd starfaði á vegum Skýrslutæknifélagsins frá því skömmu eftir stofnun þess árið 1968. Árið 1974 gaf nefndin út sem handrit tölvuprentaðan orðalista, Skrá yfir orð og hugtök varðandi gagnavinnslu, en hafði áður sent frá sér stutta óformlega orðaskrá.

Oddur Benediktsson, prófessor, var formaður félagsins 1977-1979 og vildi endurskipuleggja orðanefndina og styrkja hana. Því lyktaði þannig að fjórir einstaklingar völdust í nefndina árið 1978. Baldur Jónsson, prófessor, hafði verið í nefndinni frá 1976 og hélt áfram. Við nefndina bættust Sigrún Helgadóttir sem varð formaður, Örn Kaldalóns og Þorsteinn Sæmundsson. Þessi störfuðu saman í nefndinni óslitið til ársins 2009 þegar Baldur Jónsson lést.

Þorsteinn var einn af fyrstu forriturum á Íslandi og hóf strax að nota tölvur við vinnu sína á Raunvísindastofnun þegar fyrsta tölva Háskóla Íslands, IBM 1620, kom til landsins árið 1964. Hann fylgdist alla tíð mjög vel með þróun tölvutækninnar. Þorsteinn varð því ómetanlegur liðsmaður í orðanefndinni. Góð þekking hans á tölvu- og upplýsingatækni og afburðaþekking íslensku máli kom sér vel í vinnu orðanefndarinnar. Hann var mjög fljótur að setja sig inn í mál og var hugmyndaríkur og smekkvís orðasmiður. Orðanefndin var alla tíð mjög samstiga og nefndarmenn töluðu sig niður á sameiginlega niðurstöðu. Stefán Briem, sem vann með orðanefndinni af og til frá 1995 til 2013, hafði sérstaklega orð á því hvernig hugir nefndarmanna virtust sameinast þegar taka þurfti ákvörðun. En svo þurfti stundum að skipta um skoðun á næsta fundi eða á næsta ári og það var alltaf leyfilegt. Oft var glatt á hjalla á orðanefndarfundum sem hófust ævinlega með sameiginlegri kaffidrykkju. Þar voru heimsmálin leyst og höfð uppi gamanmál. Þá naut húmoristinn Þorsteinn sín vel.

Það tíðkaðist ekki að merkja nýyrði einstökum höfundum en orðaforði Tölvuorðasafnsins hefði orðið fátæklegri ef Þorsteins hefði ekki notið við. Nefndarmenn treystu á hugmyndaauðgi hans þegar illa gekk að finna heiti fyrir erfið hugtök.

Nefndin sendi frá sér fjórar prentaðar útgáfur Tölvuorðasafns, 1983, 1986, 1998 og 2005 og jókst fjöldi orða með hverri útgáfu. Eftir lát Baldurs árið 2009 tóku þeir þrír félagar sem eftir voru í nefndinni ásamt Stefáni Briem til við að ganga frá efni sem hafði orðið til frá síðustu útgáfu árið 2005 og gerðu nýja vefútgáfu árið 2013. Nefndin lauk með því störfum sínum.

Þorsteinn var kjörinn heiðursfélagi Skýrslutæknifélagsins árið 2005.

Sigrún Helgadóttir og Örn S. Kaldalóns

Skoðað: 801 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála