Námsmat framtíðarinnar
Mikil umræða hefur skapast nýlega vegna þeirrar gífurlegu þróun sem hefur átt sér stað í gervigreind undanfarið. ChatGPT hefur verið á allra vörum og er fólk ýmist mjög spennt fyrir þessari þróun eða hefur miklar áhyggjur af hvaða áhrif þetta hefur á nám. Ekki mun umræðan einfaldast nú þegar GPT-4 er nýkomið út, sem er talið vera margfalt öflugra en forverinn GPT-3 eða GPT-3.5 sem komu út í Nóvember á seinasta ári.
Fyrirtækið Miðeind hefur verið að vinna þróunarverkefni með GPT-4 þar sem verið er að kenna gervigreindinni íslensku og hefur það tekist svo vel að kerfið er farið að skilja samhengi þess þegar spurningar eru spurðar á íslensku samanborið við ensku. Dæmi sem þau nefna í kynningu sinni á samstarfinu með Open AI er þegar spurningin "Hver er forseti" er borin fram, þá svarar kerfið með "Guðni Th. Jóhannesson" en ef spurning er borin fram á ensku, þá er svarið "Joe Biden". (Open AI)
ChatGPT sem byggir á gamla GPT-3.5 módelinu er orðið gríðarlega öflugt í að leysa forritunar, stærðfræði og meira að segja ritgerðar verkefni, með þeim fyrirvara að svörin gátu einungis verið á ensku. Með tilkomu GPT-4 er sá fyrirvari ekki til staðar lengur og er því mjög stutt í að nemendur geti fengið gervigreindina til að skrifa grein eins og þessa fyrir sig.
Mörgum finnst þessi þróun hættuleg og dragi úr trausti til náms. Nemendur geta nú auðveldlega sett verkefnin sín í hendur gervigreindarinnar og þar af leiðandi lítið þurft að hafa fyrir náminu. Ég aftur á móti er þeirrar skoðunar að þessi þróun sé frábær og eftir því sem fleiri læri að nýta sér tæknina, þá munum við sjá ótrúlega aukningu í nýsköpun sem einfaldar okkur daglegar athafnir í vinnu, námi og á heimilum.
Þetta krefst hins vegar endurhugsunar á námsmati, verkefnum og prófum til þess að tryggja að nemendur sem fari í gegnum háskólanám séu raunverulega að fá skilning á kennsluefninu. Með tilkomu gervigreindar er skilningur á námsefni orðinn mikilvægari en nokkru sinni, þar sem að gervigreindin er ekki fullkomin og getur komið með ranga niðurstöðu. Ef notandi hefur ekki skilning á því sem verið er að biðja gervigreindina um, getur röng niðurstaða haft gríðarlegar afleiðingar.
Ég skrifaði nýlega grein um nám í heimi gervigreindar þar sem ég nefndi að ChatGPT hefði leyst tölfræði próf fyrir mig með frábærri niðurstöðu. Það sem ekki kom fram í þeirri grein var að fyrsta niðurstaða ChatGPT var röng og hefði skilað 0 á prófinu vegna mistúlkunar á orðalagi. Eftir að ég benti á rökvilluna fékk ég leiðrétt svar sem var nærri fullkomin niðurstaða á prófinu. Þarna sést bersýnilega að án þekkingar minnar á námsefninu hefði ég ekki getað bent gervigreindinni á villuna. Þegar slík tækni er síðan nýtt af vinnumarkaðnum og villur fara ógreindar í gegn eru afleiðingarnar ekki lengur bara mögulegt fall á lokaprófi heldur þaðan af verri.
Hvað er til ráða
Skólastofnanir mega ekki stinga hausnum í sand og horfa fram hjá hvað koma skal. Boð og bönn gegn tækninni tel ég að muni aldrei ganga upp í ljósi þess hve aðgengileg þessi tækni er orðin. Þess utan, þá finnst mér líklegt að fyrirtæki vilji mun frekar fá sérfræðinga í notkun gervigreindar út á vinnumarkaðinn þar sem svoleiðis starfskraftur er að öllum líkindum fljótari að klára sín verkefni en einhver sem ekki nýtir slíka tækni.
Lokapróf hafa verið notuð til að kanna skilning nemanda í 60 ár núna án mikilla breytinga. Vissulega hefur tæknin verið nýtt í auknum mæli en engu að síður er uppbygging prófa að mestu leyti sú sama og þegar þau voru fyrst lögð fyrir í Cambridge 1958. (Lambert & Keats, 2021) Lokapróf eru fín leið til að kanna kunnáttu nemanda á viðfangsefni, en því miður hafa þau sína vankanta eins og annað.
Samkvæmt samantekt Healthline glímir á milli 10 - 40% nemanda við prófkvíða (Healthline, 2017) og samkvæmt rannsókn frá Walden háskóla hefur prófkvíði mælanleg áhrif á loka niðurstöður nemanda sem glíma við prófkvíða (Fulton, 2016). Lokapróf eru líka þess eðlis að fólk sem á erfitt með að koma frá sér efni í skrifuðu máli, fá oft verri einkunn en þau sem eru góðir pennar þar sem að erfitt getur verið að ná fram réttu atriðunum og rétta samhenginu til að kennari meti það að nemandi hafi fullan skilning á efninu.
Lokapróf sem eru tekin á blaði geta bara kannað þekkingu og skilning upp að ákveðnu marki. Ekki er hægt að fara djúpt í forritunar þekkingu eða biðja um langar ritgerðir vegna tíma takmarkanna prófa. Spurningar geta því yfirleitt verið heldur yfirborðskenndar og byggt of mikið á utanbókarlærdómi.
Með tilkomu gervigreindar tækninnar er hins vegar heldur ekki auðvelt að bjóða upp á próf tekin á tölvu í ljósi þess að auðvelt sé að láta gervigreindina leysa prófið fyrir sig að hluta eða öllu leyti. Ég trúi því að nú sé kominn tími til að skólakerfið fari í auknum mæli að bjóða upp á aðrar leiðir til námsmats heldur en hið hefðbundna lokapróf.
Með aukinni tækni tengdum fjarfundum og myndbandsgerð væri hægt að bjóða nemendum upp á að flytja stuttar kynningar á verkefnum sínum ýmist á fjarfundi, í eigin persónu eða með því að senda inn stutt kynningarmyndband þar sem nemandi lýsir mikilvægustu hlutum verkefnisins og af hverju ákveðin aðferð var notuð. Með þessu móti skiptir ekki máli hvort nemendur hafi leyst verkefnið að öllu leyti sjálf eða hvort gervigreind hafi gert það fyrir þau, þar sem að nemendur þurfa að sýna fram á skilning á því hvers vegna verkefni var leyst á ákveðinn máta. Að flytja slíka kynningu í gegnum fjarfundarbúnað myndi einnig bjóða upp á þann möguleika að kennarinn taki kynninguna upp og nýti seinna til samanburðar við önnur sambærileg verkefni til að meta einkunn einstakra nemanda. Ef slíkri nálgun væri beitt í öllum verkefnum þyrfti kennari ekki að nýta lokapróf þar sem nemandi hefur farið í gegnum símat á kunnáttu sinni alla önnina. Kennarar fengju líka rauntíma innsýn hvort að nemendur væru að öðlast þann skilning sem vonast væri eftir í kennslunni.
Slík lausn helst líka í hendur við þróun sem vinnustaðir eru að sjá varðandi samskipta mynstur Z kynslóðarinnar, kynslóð sem verður fljótlega meirihluti nemanda í háskólanámi. Samkvæmt rannsóknum kýs sú kynslóð að eiga samskipti í mynd eða eigin persónu frekar en skriflega (Rise, 2020). Þetta myndi gera nám mun persónulegra þar sem nemendur ættu í meiri og nánari samskiptum við kennara í takt við óskir þessarar kynslóðar.
Nú hrista kennarar landsins líklega hausinn þar sem þetta myndi þýða að þeirra vinna aukist til muna. Ég get ekki fullyrt hvort það sé rétt eða rangt, en ég held allavega að það muni ekki miklu hvort kennarar taki stutta fundi með hverjum nemanda, eða horfi á stutt myndbönd í stað þess að eyða mörgum klukkustundum í að semja, sitja yfir og fara yfir próf og endurtektarpróf árlega með tilheyrandi stressi fyrir bæði kennara og nemendur.
Þessi aðferð hentar auðvitað ekki í öllum fögum, stærðum af bekkjum og við mismunandi aðstæður. Ég tel samt að þetta geti verið góð viðbót til að minnka stress nemanda, gera nám persónulegra og nýta tæknina sem næsta kynslóð nemenda hefur alist upp við frá blautu barns beini.
Höfundur: Arnar Þór Sveinsson nemandi við Háskólann í Reykjavík
Heimildir:
Fulton, B. A. (2016). "The Relationship Between Test Anxiety and Standardized Test Scores". ScholarWorks | Walden University Research. Retrieved March 19, 2023, from https://scholarworks.waldenu.edu/cgi/viewcontent.cgi?article=3361&context=dissertations
Healthline. (2017, April 14). Test Anxiety: Symptoms, Statistics, and Tips for Coping. Healthline. Retrieved March 19, 2023, from https://www.healthline.com/health/test-anxiety#statistics
Lambert, T., & Keats, J. (2021, November 27). Who Invented Exams? A History of Examination. Local Histories. Retrieved March 18, 2023, from https://localhistories.org/who-invented-exams/
Open AI. (2023, January). Chat OpenAI. ChatGPT. Retrieved January 30, 2023, from https://chat.openai.com
Open AI. (2023, March 14). Customer Stories. Government of Iceland - How Iceland is using GPT-4 to preserve its language. Retrieved March 18, 2023, from https://openai.com/customer-stories/government-of-iceland
Rise. (2020, January 15). Communicating with Gen Z Employees: Manager's Guide | Rise. Rise People. Retrieved March 19, 2023, from https://risepeople.com/blog/gen-z-communication/
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.