Skip to main content
29. september 2022

Heitustu tölvumálin framundan

tolvumalSký hélt viðburð 28. september þar sem rætt var um heitustu tölvumálin framundan, ekki bara í vetur heldur næstu árin. Spáð var í þróun á mannauði og framsæknar lausnir. Fundarstjóri var Jón Ingi Sveinbjörnsson og stýrði hann fundinum með sóma.

Eftir gómsætan hádegisverð hóf Snæbjörn Ingi Ingólfsson, Itera, leikinn með fyrirlestri sem hann kallaði Er 5. iðnbyltingin að hefjast? Fjórða iðnbyltingin er á fleygiferð, en er 5. iðnbyltingin að skella á okkur líka? Hvað einkennir 5. iðnbyltinguna og hvað mun hún kallast?  Hann byrjaði á að rifja upp fyrri iðnbyltingar, þá fyrstu um 1750, aðra um 1850, þriðju um 1930 og fjórðu um 2000. En er sú fimmta þegar hafin? Hann telur að meiri tæknilegar framfarir verði næstu 20-30 árin en hafa verið síðustu 200-300 árin og kannski sé tæknin nú þegar farin fram úr okkur, við höfum einfaldlega ekki undan. COVID henti okkur reyndar áfram í þróuninni þar sem "allir" fóru að versla í netverslunum, skammtarnir komu heim til okkar og samskipti færðust yfir í hin ýmsu tæki. Það sem mun einkenna fimmtu iðnbyltinguna að hans mati er mannlegi þátturinn og sjálfbærni með áherslu á að ná sem mestu út úr hæfileikum hvers og eins undir tryggri stjórn kvenna.  

Næst á svið var Aðalheiður Guðjónsdóttir, Marel, með fyrirlesturinn Stafræn vegferð Marel - Erum við að umbreyta matvælaframleiðslu með nýjum skýjalausnum? Hún rakti þróun í matvælaframleiðslu með stöðugt styttri viðbragðstíma og aukinni sjálfbærni. Hún ræddi verkefnið Connectivity hjá Marel þar sem verið er að tengja allar vélar þeirra við skýið með því að setja litla tölvu í hverja vél, ekki bara nýjar heldur þær sem þegar eru í notkun. Þessu fylgir mikil gagnasöfnun og greining, cloud platform, og eykur mikið innsýni viðskiptavina og starfsmanna Marel þar sem alltaf er verið að greina rauntímagögn og hægt að bregðast skjótt við því tækifæri er til að fylgast stöðugt með vélunum og þeirra vinnslu. Þetta hefur einnig áhrif á endingu vélanna og auðveldar allt viðhald. Lokaorðin voru að með þessu fengist betri tæknileg heilsa og bætt fjarþjónusta.

Stefán Gunnlaugur Jónsson, Háskólanum í Reykjavík, var næst með Vangaveltur um tækniframfarir næstu áratuga. Hann lagði áherslu á að vera jákvæður og láta ekki raunsæi hamla sér of mikið í sínum hugleiðingum.

Hann byrjaði á að fjalla um Detective Owland, list í tækninni, tækifæri til að skapa list með tækni í dag með því að mata tölvuna af gögnum og biðja síðan um listaverk í anda ákveðins listamanns og út geta komið 100 ef ekki 1000 verka. Hann sá fyrir sér að þetta færist hratt yfir í myndbanda og kvikmyndagerð þar sem hægt sé að setja saman fólk og atburði á þann hátt sem hver og einn kýs. Stefán varpaði einnig fram þeirri spurningunu um hvað væri list og hvort tölvur gætu skapað list?

Næst ræddi hann tungumál og máltækni og ræddi framtíð talgreina, talgerfla, rafrænar þýðingar og skilning á tungumálinu og sá fyrir sér að fljótlega yrði hver tölva með rödd síns eiganda t.d. til að les upp fyrir hann bækur. Vélmenni voru næst á dagskrá þar sem hann ræddi t.d. mennsk vélmenni sem marga dreymir um og sér fyrir sér þjónustuvélmenni, félagsvélmenni og umönnunarvélmenni sem gætu stutt okkur innan tíðar í ellinni. Þá var rætt um heilsu og mat því strax í dag getum við safnað saman mörgum gögnum um okkar eigin heilsu en úrvinnslan og notkunin er kannski seinna á ferðinni. Hann nefndi verkefnin CRISPR þar sem verið er að skipta út genum og Alphafold  sem skoðuð eru prótein í þrívíðu rúmi. Viljum við getað ræktað hvað sem er og borðað? Síðasta umræðan var um lýðræði og persónuöryggi en þar erum við alltaf á eftir, eftirlit eykst, gagnamagnið eykst en gagnaleiki einnig, mun lýðstjórnunin verða með tækni. Hvernig nýtum við tæknin í þágu lýðræðis?

Þá rýndi Arnheiður Guðmundsdóttir, Ský, í tölfræði og kynnti til sögunnar alþjóðlegt tól sem tækifæri fyrir fyrirtæki, stofnanir, skóla og fleiri til að skuldbinda sig og styðja við aukinn hlut kvenna og ungs fólks í tæknistörfum. Fyrirlesturinn nefndi hún Er tölvugeirinn á Íslandi fjölbreyttur?  Hún byrjaði á að sýna okkur með gröfum hver fjöldi útskrifaðar tölvunarfræðinga (Computer Science) hefur verið síðan 1978 og þar er konur um 21% í heildina. Hún rakti þróunina í kynjamun og hvatti til aukinnar þátttöku kvenna, ræddi hvað væri til ráða en einnig hvað hefur verið gert og hvaða hópar hafa unnið að þessum málum s.s. Sys/tur og Tæknitátur. Við viljum hafa allskonar fólk í tæknigeiranum og þurfum að benda ungu fólki á að kynna sér þá menntunarmöguleika sem fyrir eru því þeir eru ekki allir í háskólum landsins. Hún benti á að við ættum að  nýta tól og tæki sem til eru til að flýta fyrir og auðvelda fyrirtækjum, skólum og stofnunum til að auka fjölbreytni starfsmanna í tölvugeiranum. Þá kynnti hún DiversIT á Íslandi og hvatti fyrirtæki til að kynnar sér þennan sáttmála fyrir tölvugeirann í Evrópu þar sem tilgangurinn er að minnka kynjamun í tæknistörfum.

Að lokum voru fjörugar pallborðsumræður þar sem tóku þátt Sverrir Norland, rithöfundur, fjölmiðlamaður og fyrirlesari, María Dís Gunnarsdóttir, OK, Finnur Pálmi Magnússon, Gangverk og pallborðsstjóri var Kristjana Björk Barðdal, Reykjavíkurborg. Fjörugar umræður voru og margt rætt en þátttakendur byrjuðu á að kynna sig og ræddu fyrirlestrana t.d. áhersluna á mannauðinn í fimmtu iðnbyltingunni og Sverrir benti á að við værum komin með öfluga tækni í hendurnar en hefðum staðnað andlega á 20. öldinni. Getum við trúað almenningi fyrir tækninni? Mikið var rætt um heilsugögn og alla þessa mæla sem gætu jafnvel valdið kvíða, streitu og jafnvel veikindum hjá þeim sem eru sífellt að fylgjast með þeim. Umræðan fór síðan út í öll leiðtogastörfin sem eru auglýst og taldi María Dís að leiðtogi ætti að ekki að vera starfsheiti því þú vinnur þér traust til að vera leiðtogi, leiðandi á vinnustað eða í hóp. Kynjahlutfall var rætt og tækninám, menning og listir... 

Ásrún Matthíasdóttir tók saman

Skoðað: 353 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála