Nýr vefur um tölvubúnað á Íslandi – tolvur.sky.is
Í skilgreiningum á faghópum Ský kemur fram: Öldungadeild Ský [er] faghópur um varðveislu sögulegra gagna og heimilda um vélræna gagnavinnslu og notkun upplýsingatækni á Íslandi, og í samþykktum fyrir Öldungadeildina stendur: Tilgangur og verkefni faghópsins er varðveisla sögulegra gagna og heimilda, í hvaða formi sem er, um vélræna gagnavinnslu og notkun upplýsingatækni á Íslandi. Þetta felur meðal annars í sér að skrá sögu upplýsingatækninnar og að stuðla að því að varðveittur verði búnaður sem þýðingu hefur fyrir söguna.
Öldungadeildin hefur um árabil átt sér þann draum að koma upp safni tölvubúnaðar sem safnað hefur verið gegnum árin og væri heimild um tækni hvers tíma og jafnvel vettvangur fyrir fagfólk til að fara um höndum. Ekki hefur fundist aðstaða fyrir slíkt safn og vafasamt að úr rætist í bráð. Safn í vefheimum er því líklega raunhæfari kostur.
Að frumkvæði Öldungadeildar Ský var ráðist í það stóra verkefni árið 2014 að taka sama sögu upplýsingatækni á Íslandi 1964-2014. Tilefnið var, að haustið 2014 voru 50 ár síðan fyrsta alvöru tölvan kom til Íslands og enn er margir til frásagnar um hvernig tölvuvæðing á Íslandi hefur verið frá upphafi.
Bókin Tölvuvæðing í hálfa öld, Upplýsingatækni á Íslandi 1964-2014 kom út á prenti árið 2018, en er einnig aðgengileg á vef félagsins https://www.sky.is/index.php/sagautaislandi/sagautaislandi-2, þar sem henni er haldið við með viðbótum og leiðréttingum, eftir atvikum. Þetta er umfangsmikil og vönduð samantekt á sögu upplýsingartækninnar, viðburðum og persónum sem henni tengjast. Þótt í bókinni sé víða minnst á tækjakost, er þar ekki að finna samanrekjanlegar upplýsingar tölvubúnaðar, í tímaröð eða í tengslum við annan sambærilega búnað, enda óhægt um vik í prentuðu máli og þarfnast annars konar útfærslu á vef.
Stjórn Öldungadeildað ákvað því vorið 2021 að ráðast í það verkefni að leita uppi heimildir um tölvubúnað á Íslandi, hverjir notuðu og til hvaða verkefna. Þessu verkefni hefur verið komið fyrir á vefnum tolvur.sky.is. Þetta er að sönnu nokkuð djarft, en heimildir er víða að finna, á Timarit.is og svo auðvitað hjá starfsfólki viðkomandi fyrirtækja, sölu- og þjónustuaðila. Því er leitað til þeirra sem til þekkja, að skrá vitneskju sína á skráningarsíðu vefsins eða senda í tölvupósti á uppgefið tölvupóstfang á síðufæti vefsins.
Eins og oft vill verða þegar farið er af stað í áhugaverð verkefni, vill það þenjast útfyrir upprunalegan tilgang og svo er einnig hér. Þannig er t.d. einnig að finna söfn sem varðveita gamlan tölvubúnað og skjöl með myndum. Einnig yfirlit yfir blaðagreinar frá Timarit.is og myndskeið frá YouTube, ásamt tilvitnunum í vefsíður sem tengjast sögu tölvu- og upplýsingatækninnar frá óskilgreindu upphafi, hérlendis og erlendis.
Áhersla gagnasöfnunarinnar er fyrst og fremst á tölvubúnað á Íslandi frá upphafi og framundir lok 20. aldar, þegar tæknin breyttist úr að vera sértæk í að vera altæk. Þannig er ekki sérstaklega safnað saman upplýsingum um einmenningstölvur, þótt minnst sé á brautryðjendur, enda eru þær einsleitar frá fjölmörgum framleiðendum.
Einhverjir kunna þó að vita um eða búa yfir búnaði sem áhugavert er að skrá, enda er stundum leitað eftir vitneskju til félagsins um gamlan tölvubúnað, t.d. til að nota í kvikmyndir.
Okkur er ljóst að upplýsingar sem nú þegar hafa verið skráðar, kunna að vera rangar eða misvísandi og svo verður sjálfsagt áfram, enda er í mörgum tilvikum langt um liðið síðan viðkomandi búnaður var í notkun. Það er því vel þegið að fá leiðréttingar og ábendingar um það sem réttara er.
Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að kanna og skrásetja tölvunotkun á Íslandi.
Skýrslutæknifélagið sendi út ítarleg spurningaeyðublöð 1981 til um 1500 fyrirtækja. Aðeins 375 svör bárust, þar af 70 sem höfðu tölvubúnað, aðrir svarendur voru kaupendur tölvuþjónustu (Tölvumál 1981, 4. tbl.).
Fyrirtækið Tölvulausn framkvæmdi könnun á tölvuvæðingu fyrirtækja á Reykjavíkursvæðinu 1987, en svör voru dræm (Tölvumál 1987, 1. tbl.).
Námsgagnastofnun og fræðsluskrifstofurnar gerði könnun 1991 á tölvueign og notkun þeirra í skólum (Tölvumál 1991, 7. tbl.).
Engar niðurstöður þessara kannana eru aðgengilegar, eftir því sem ég kemst næst.
Stjórn Öldungadeildar vonast til að þessi nýi vefur nái betri skilvirkni og þar verði að finna ítarlegri og varanlegri upplýsingar um tölvur og tölvunotkun á Íslandi en áður hafa verið skráðar.
Höfundur: Jón Ragnar Höskuldsson, í stjórn Öldungadeildar Ský
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.