Verkleg hlaupakennsla á tímum covid-19
Covid-faraldurinn hefur haft mikil áhrif á skólastarf á öllum skólastigum undanfarið. Þegar samkomubann skall á og öll kennsla við Háskólann á Akureyri var færð í fjarnám hafði greinarhöfundur tekið að sér að kenna nokkra tíma í námskeiði um almenningsíþróttir og líkamsrækt sem kennt er á íþróttakjörsviði við kennaradeild. Í þessu námskeiði kynnast nemendur helstu greinum almenningsíþrótta eins golfi, skíðagöngu, gönguferðum og hlaupum og er kennslan að stórum hluta verkleg. Námskeiðið hafði því fram að þessu verið kennt í staðnámi með fyrirlestra- og umræðutímum og verklegri kennslu þar sem nemendur fengu kynningu á mismunandi íþróttagreinum.
Sá hluti sem ég hafði umsjón með fjallaði um gönguferðir og hlaup og við fyrstu sýn virtist ógjörningur að færa þann hluta yfir í rafrænt form. Eftir svolitla umhugsun tókst hins vegar að útfæra þessa kennslu á nýjan hátt með aðstoð tækninnar og voru bæði kennari og nemendur ánægðir með það hvernig til tókst.
Skipulag kennslu
Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að ég myndi hitta nemendur fjórum sinnum, vera með fræðslu um gönguferðir og hlaup, fara í eina gönguferð með nemendum og taka með þeim tvær hlaupaæfingar. Samkomubann setti skipulagið allt í uppnám og ég stóð frammi fyrir þeirri áskorun að kenna þennan hluta námskeiðsins án þess að hitta nemendur. Eftir að hafa velt mögulegum lausnum og útfærslum fyrir mér varð niðurstaðan sú að nota Zoom fjarfundakerfið fyrir fyrirlestra og umræður og gefa nemendum nákvæmar leiðbeiningar fyrir verklegu æfingarnar sem þeir framkvæmdu sjálfir á milli kennslustundanna. Ég hitti nemendur fjórum sinnum á Zoom fundi og milli funda unnu þeir þrjú verkleg verkefni.
Fyrsta verkefnið var að skipuleggja gönguferð fyrir ímyndaðan nemendahóp á leik- eða grunnskólaaldri. Setja átti niður markmið fyrir ferðina sem tengdust bæði hreyfingu og öðrum námssviðum/námsgreinum, ákveða leið til að ganga og prófa að ganga leiðina með barnahópinn í huga til að sjá betur hvað hún hefði upp á að bjóða. Nemendur stóðu skil á þessum hluta með kynningu fyrir samnemendum í tíma á Zoom.
Verkefni númer tvö var hlaupaæfing þar sem nemendur áttu annars vegar að skoða eigin hlaupastíl og hins vegar að reyna að finna sinn rétta skokkhraða og skokka stuttan hring. Til að skoða hlaupastílinn þurftu nemendur að fá einhvern til að taka af sér stutt myndband þegar þeir voru að hlaupa, myndbandinu skiluðu þeir síðan inn á Padlet-vegg ásamt stuttri greiningu á eigin hlaupastíl. Skokkæfingunni skiluðu nemendur inn í Strava og sögðu einnig frá æfingunni á Padlet-veggnum.
Þriðja verkefnið var önnur hlaupaæfing þar sem nemendur áttu að taka nokkrar mismunandi gerðir af sprettum inn í æfinguna; stutta spretti á jafnsléttu, brekkuspretti, tröppuhlaup og einn lengri hraðakafla. Æfingunni skiluðu nemendur inn í Strava og sögðu frá henni á Padlet-veggnum.
Það gekk vel að fylgja kennsluskipulaginu eftir og ekki þurfti að gera á því neinar breytingar. Nemendur mættu vel á farfundina og skiluðu þeim verkefnum sem þeir áttu að skila. Á mynd 1 og 2 má sjá dæmi um verkefnin og útfærslu nemenda á þeim.
Mynd, 1. Hlaupastílsæfing
Mynd 2. Áfangaæfing
Könnun meðal nemenda
Í lok námskeiðsins var lögð stutt könnun fyrir nemendur til að meta hvernig til hefði tekist. Nemendahópurinn var fámennur, einungis sjö nemendur og svöruðu þeir allir könnuninni.
Allir nemendur voru ánægðir með skipulagið á þessum hluta námskeiðsins, þrír mjög ánægðir og fjórir frekar ánægðir.
Fimm nemendum af sjö fannst svipað að mæta í tíma á Zoom og í kennslustofu, einum nemanda fannst það betra en að mæta í tíma og einum fannst það ekki eins gott og að mæta í tíma. Nemendum fannst kostur að geta verið heima og töldu að tímarnir hefðu ekki verið mjög frábrugðnir hefðu þeir verið kenndir á staðnum. Einn nemandi lýsti því að sér hefði fundist gott að skila kynningunni á gönguferðinni í fjarfundi, eiginlega betra en að þurfa að standa frammi fyrir bekknum í kennslustofu.
Aðspurðir um það hvernig þeim fannst takast til við að útfæra verklega hluta námskeiðsins töldu fimm nemendur það hafa tekist mjög vel og tveir frekar vel. Fimm nemendur töldu sig hafa fengið álíka mikið út úr verklega hluta námskeiðsins með þessu fyrirkomulagi og ef það hefði verið kennt í staðnámi, einn nemandi taldi sig hafa fengið meira út úr námskeiðinu með þessu fyrirkomulagi og einn að hann hefði fengið meira út úr því hefði það verið kennt með hefðbundu sniði.
Í könnuninni lýstu nemendur ánægju með verklegu verkefnin og töldu sig hafa lært mikið af þeim. Gönguferðarverkefnið hjálpaði þeim að sjá hvernig tvinna má saman íþróttakennslu og kennslu í öðrum námsgreinum og það að ganga leiðina sjálfur hjálpaði þeim að sjá hvað þau þyrftu að hafa í huga þegar þau skipleggja ferð fyrir börn. Leiðbeiningar með hlaupaæfingunum voru nægilega góðar til að nemendur gætu framkvæmt þær sjálfir og þeim fannst gott að geta tekið æfinguna á tíma sem hentaði þeim og hlaupið hana á sínum hraða. Þeim fannst hins vegar galli að fá enga leiðsögn á staðnum.
Það er hægt að kenna flest í fjarnámi
Niðurstöður könnunarinnar sýna að nemendur töldu sig fá jafngóða kennslu með þessu fyrirkomulagi og þeir hefðu fengið í staðkennslu og það var líka mín tilfinning sem kennara námskeiðsins. Nemendur voru jákvæðir og unnu verkefnin samviskusamlega. Skil á Strava, Padlet og í umræðum í tímum veittu gott aðhald og ég tel að það fyrirkomulag hafi fengið nemendur til að velta verklega hlutanum meira fyrir sér en þeir hefðu gert hefði kennslan farið fram á staðnum.
Niðurstaðan er því sú að það er hægt að útfæra verklega kennslu sem þessa í fjarnámi án þess að það komi niður á gæðum námsins. Hér er þó rétt að hafa í huga að nemendahópurinn var fámennur og því auðvelt að halda vel utan um hópinn auk þess sem aðstæður í samfélaginu voru þannig að hefðbundin kennsla var ekki möguleg sem hefur ef til vill leitt til þess að nemendur voru jákvæðari fyrir breytingunum en ella.
Höfudur: Rannveig Oddsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri
Úr Tölvumál 2020/1. tbl. /45
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.