Skip to main content
27. maí 2021

Fjarskiptatækni í námi og starfi á tímum COVID-19

Ráðstafanir stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins hafa sett mark sitt á samfélagið. Vegna fjarlægðar- og ferðatakmarkana fór vef- og fjarskiptatækni skyndilega að spila stærri rullu í daglegu lífi margra. Hér deila nokkrir einstaklingar reynslu sinni af notkun fjarskiptatækni í námi og starfi.

simonSimon Cramer Larsen, dönskukennari FS og formaður Skólamálanefndar FF: Þegar fyrsta samkomubannið vegna COVID-19 faraldursins var sett á varð það ljóst að kennslan í framhaldsskólum landsins yrði að breytast. Í starfi mínu sem tungumálakennari þurfti ég að nota Innu (á vegum Advania), frábært kerfi sem heldur utan um einkunnir, verkefni, próf og annað.

Það er alltaf svolítið erfitt að breyta til og sérstaklega með engum fyrirvara. Ég hef verið að nota kerfið Zoom fyrir munnleg próf, munnlegar æfingar og til að hitta nemendur. Zoom er fínt í notkun fyrir stutta kennslu sem er ekki lengri en 40 mínútur.

En sem tungumálakennari vantaði mig persónulega þáttinn í fjarkennslunni. Mér þótti erfitt að kenna án þess að geta verið 100% til staðar. Þó það hafi verið lærdómsríkt að fara úr skólastofunni yfir í fjarkennslu, þá var þetta ekki auðvelt. Ég er viss um að kennsla í framhaldsskólum á eftir að breytast eftir COVID-19 og að upplýsingatækni mun koma inn í auknum mæli í kennslunni í framtíðinni.

sigridurSigríður Kolbrún Kristinsdóttir, sérfræðingur í samfélagsmiðlum: Ég hef stundað staðbundið nám við Griffith-háskóla í Ástralíu frá árinu 2017, en þegar landamærin þar lokuðust og samkomubönn voru kynnt til sögunnar vegna COVID-19, fluttist námið alfarið á netið.

Skólinn er með sterkt kennslukerfi á netinu, Blackboard Learn, en eftir að námið var sett upp sem fjarnám hafa kennarar notast meira við forritið Microsoft Teams. Á Teams eru spjallborð fyrir hvern áfanga og þar fara fram vinnustofur, fyrirlestrar og fundir með kennurum.

Fyrirlestrar eru ýmist teknir upp fyrirfram eða þeim streymt í beinni útsendingu. Hægt er að horfa á upptökur af öllum fyrirlestrunum seinna, sem er mikill kostur fyrir námsmenn sem nú eru á víð og dreif um heiminn og spanna ansi mörg tímabelti.

Námsmat fer enn fram með svipuðum hætti og áður, en helsti munurinn liggur í þeim verkefnum sem kalla á kynningu þar sem áður hefði verið notast við t.d. forritið PowerPoint. Nú er beðið um vídjókynningu, sem er sett inn í gegnum VoiceThread. Kennarar nota líka Microsoft Sway í staðinn fyrir PowerPoint, sem gerir framsetninguna á efninu meira „interactive“, en virkar samt ekki alltaf sem skyldi.

tumi mynd eftir magnus andersenTumi Árnason, tónlistarkennari: Ég kenni grunnskólabörnum einkatíma í saxófónleik í gegnum skólahljómsveitirnar í Reykjavík. Þegar COVID-19 skall á í vor neyddumst við kennararnir til að færa okkur yfir í fjarkennslu. Það var mjög óljóst hvernig það myndi ganga upp, enda lítið verið reynt áður, en mér fannst það ganga vonum þrátt fyrir byrjunarörðugleika.

Fyrst kenndi ég í gegnum Microsoft Teams, svo Zoom og loks Google Meet. Af þessu fannst mér Google Meet reynast best, en Zoom var einnig þægilegt í notkun og gekk vel. Fjarkennslan jafnast auðvitað ekki á við hefðbundna kennslu, en gæti algjörlega virkað mjög vel í bland við venjulega tíma.

Samspil er mun erfiðara, svo það reyndist mér best að nota tímana meira í samtal um æfingar og verkefni vikunnar. Krakkarnir prófuðu sig einnig áfram í að taka upp æfingar og verkefni heima og senda til yfirferðar. Þetta gekk misvel en gæti verið skemmtilegt að þróa lengra. 

Mynd tekin af Magnúsi Andersen

Óskar Völundarson tók saman

Skoðað: 839 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála