Skip to main content
1. október 2020

Jákvæð áhrif nútímatækni

margret1Í nútímanum er gríðarlega hröð tækniþróun en það er umdeilt hvort tæknin sé af hinu góða eða slæma. Í greininni verður fjallað um þá jákvæðu þætti sem tæknin hefur haft í för með sér og áhrif hennar á samfélagið. Samskipti eru eitt  af umdeildu þáttum tækninnar en margir vilja meina að mannleg samskipti séu á undanhaldi í okkar samfélagi og það gerist hratt með nýrri tækni.

Áður fyrr fór fólk í kaupfélagið til að versla og notaði tækifærið til að spjalla við fólk, verslanir voru nokkurs konar samkomustaðir. Í dag er mikil aukning í netverslun eða um tugi prósenta og eins og kemur fram í rannsókn um íslenskar netverslanir að meiri breytingar verða í verslun næstu 10 árin en orðið hafa síðustu 50 árin þar á undan. Getur það haft í för með sér að mörg störf þurrkast útsvo verslanir hafa ekki sama gildi og áður [1]. Það vill samt gleymast að með þessari tækni getum við líka haft samskipti og/eða haldið sambandi við fólk sem er til dæmis hinum megin á hnettinum án þess að þurfa að hafa neitt fyrir því. Hér áður fyrr var þetta mun flóknara en í dag finnst okkur þetta sjálfsagður hlutur. Samfélagsmiðlar koma mikið við sögu þegar kemur að nútímatækni en í dag eru 2.41 milljarður manna sem nota Facebook daglega samkvæmt niðurstöðum frá september 2019 og 1 milljarður manns sem nota Instagram [2], [3].

Hér áður fyrr hringdi fólk eða hittist en hafði samband bara við þá allra nánustu því annað var erfitt án tækninnar. Nú í dag er mun auðveldara að vera í sambandi við fleiri á sama tíma hvenær sem er. Í grein á vef BBC er sögð saga ungs drengs sem barðist við fötlunarsjúkdóm, hann dó ungur að aldri en pabbi hans segir frá því í viðtalinu að í jarðaför sonar síns hafi hann hitt margt ungt fólk sem hann hafði aldrei séð áður. Sonur hans hafði verið í samskiptum við þetta fólk í gegnum netið og myndað náin tengsl við fólk út um allan heim. Hann segir að með þátttöku í tölvuleikjum hafi strákurinn hans fengið að upplifa á einhvern hátt að lifa eðlilegu lífi, geta gengið, verið sterkur og myndað vinatengsl, eitthvað sem hann gat ekki upplifað í daglega lífinu [4].

Viðskiptalega séð hefur tæknin einnig komið sér vel og eru mörg fyrirtæki að leyfa fjarvinnu. Þar sem starfsfólk getur unnið heima fyrir og þar eru til dæmis „Skype-fundir” mikið notaðir. Fyrirtæki sem snúa að tækni hafa verið að bjóða forriturum að vinna heima fyrir einhverja daga vikunnar svo lengi sem starfsfólk skilar inn ákveðnum verkefnum eða vinnutíma. Viðskipti ganga mun hraðar fyrir sig heldur en hér áður fyrr og markaðssetning verið auðveldari fyrir fyrirtæki og koma samfélagsmiðlar sterkir þar inn. Fyrirtæki geta núna fengið áhrifavalda til að auglýsa fyrir sig og velja þá áhrifavald sem tengist þeirra auglýsingum á einhvern hátt og nær þá betur til markhópsins.

Það getur verið kostnaðarsamt fyrir fyrirtæki að hýsa starfsfólk en með svokallaðri fjarvinnu getur það sparað bæði tíma og peninga. Fyrirtæki þurfa að ekki að fjárfesta jafn mikið í skrifstofubúnaði eins og að kaupa borð og stól fyrir hvern starfsmann, starfsfólk getur unnið heima fyrir og hisst í hópavinnum og unnið í rými saman. Eins og kemur fram í Mannlega þættinum frá ruv.is þá sparast mikið húsnæði, aðstaða og tækjabúnaður. Með fjarvinnu skapast mikill sveigjanleiki og hagkvæmni því starfsmenn geta sparað mikið ef þeir þurfa einungis að keyra til vinnu 3 daga í viku í stað 5 daga [5].

Menntun er eitt af því sem hefur breyst mikið með nýrri tækni en nú á fólk mun auðveldara með að mennta sig til dæmis í fjarnámi. Gríðarleg þekking fylgir nýrri tækni og getur fólk aflað sér upplýsinga á methraða og orðið sjálflært í öllum sköpuðum hlutum sem til eru á netinu. Þó bækur séu mikilvægar fyrir nám eru tölvur nú til dags orðnar jafn mikilvægar ef ekki mikilvægari. Miðlalæsi er einnig mjög mikilvægt í nútímasamfélagi og partur af menntuninni er að þú þarft að kunna að afla þér upplýsinga og kunna á ýmis kerfi og/eða viðmót.

Tæknin hjálpar til við að efla heilbrigðiskerfið, en í dag getum við sótt um lyfseðli á netinu, haft samband við lækna gegnum tölvupóst en einnig fræðst um ýmislegt tengt heilsu á áreiðanlegum vefsíðum eins og til dæmis www.doctor.frettabladid.is , www.heilsa.is , www.visindavefur.is. Ný tækni gerir læknum kleift að greina sjúklinga fljótt og gefa þeim meðferð sem hentar þeim.

Tæknigeirinn keppist við að einfalda líf fólks. Við viljum öll spara tíma og nútímatækni gerir okkur það kleift á ýmsan hátt. Ef við skoðum betur daglega hluti sem við gerum og reynum að ímynda okkur hvernig þessir hlutir væru ef ekki væri til sú tækni sem við notum í dag, þá væri margt öðruvísi. Ef við rötum ekki getum við sótt „maps” smáforrit í símanum okkar, stimplað inn staðsetningu og við komumst á leiðarenda. Ef við viljum vita hvernig veðrið er þá munum við finna veðurspá á innan við mínútu. Ef við viljum vita hversu lengi við erum að sjóða egg þá þurfum við bara að „googla” það. Þetta eru mikil þægindi vegna þess að þetta sparar tíma. Aftur á móti getur þetta leitt til þess að við sem njótum góðs af tækninni getum orðið óþolinmóð ef þetta tekst ekki á örfáum mínútum. Við viljum að allt gerist hratt og helst strax. En yfirleitt virkar tæknin þannig að við upplifum mikil þægindi.

Með nýrri tækni höfum við uppgötvað mörg ný tækifæri sem við megum ekki gleyma. Að sjálfsögðu er tæknin tvíeggjað sverð og henni fylgir margt neikvætt en þegar upp er staðið þá hefur tæknin haft jákvæð áhrif á okkur öll.

Höfundur: Margrét Vala Björgvinsdóttir

Heimildir

[1] Emil Karlsson, “Íslensk netverslun – áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni” nr. 978-9935-9275-1-4, 2018. [Rafrænt]. Aðgengilegt á: http://rsv.is/Files/Skra_0078623.pdf Sótt: 12.sep.2019.

[2] Dan Noyes, “The top 20 Valuable Facebook Statistics – Updated September 2019”, sep.2019. [Rafrænt]. Aðgengilegt á: https://zephoria.com/top-15-valuable-facebook-statistics/ Sótt: 13.sep.2019.

[3] Chloe West, “17 Instagram stats marketers need to know for 2019”, 22.apr.2019. [Rafrænt]. Aðgengilegt á: https://sproutsocial.com/insights/instagram-stats/ Sótt 16.sep.2019

[4] Vicky Schaubert, “My disabled son’s amazing gaming life in the World of Warcraft”, 7.feb. 2019. [Rafrænt]. Aðgengilegt á: https://www.bbc.com/news/disability-47064773 Sótt: 13.sep.2019.

[5] Magnús Ragnar Einarsson, “Kostir og gallar fjarvinnu”, 23.okt.2015. [Rafrænt] Aðgengilegt á: https://www.ruv.is/frett/kostir-og-gallar-fjarvinnu Sótt: 17.sep.2019.

Skoðað: 877 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála