Skip to main content
14. maí 2020

Eftir COVID 19

asrun 13035Hvað ætlum við að gera núna þegar við erum öll búin að prófa að nota nýja tækni í kennslu og námi? Það kom ekki til af góðu að allt í einu eru allir, eða flestir, kennara í framhalds- og háskólum búnir að prófa allskonar rafræna möguleika við kennslu og námsmat. Áður vorum við snjöll í að nota kennslukerfi til að dreifa og taka við efni og sumir voru jafnvel farnir að nota rafræn próf og umræðu á netinu en fáir notuðu upptökur eða rauntíma útsendingar sem helstu  kennsluaðferðir. Í mörgum leik- og grunnskólum hafa spjaldtölvur verið innleiddar þar sem kennarar hafa þróað áhugaverða notkun á nútímatækni og sú reynsla nýttist eflaust þegar skólastarfi var breytt. En núna vitum við að þetta er allt saman hægt, þekkjum Teams, Zoom, DigiExam, Inspera, One Note, Slack, Trello, Piazza eða hvað þetta allt heitir og erum kannski búin að prófa flest af þessu. En hvað ætlum við svo að gera? Ætlum við að nota þessa reynslu til að breyta okkar kennslu og skipulagi náms?

Áður en við breytum kennslunni til frambúðar þurfum við að skoða vel hvaða áhrif það mun hafa á störf kennara og nám nemenda. Verður ágóðinn eins og við búumst við? Það er ekkert rétt svar við þessari spurningu, en miðað við hvernig gekk í vor, má ætla að kennarar geti þróað sig útfrá þessari reynslu á áhugverðan hátt og að árangurinn verði góður. Við erum búin að prófa ýmislegt og fikta okkur áfram, sumt erum við ánægð með en annað ekki. Við notum þessa reynslu til að velja okkur þau tæki og tól sem okkur líkar best við og skipleggja framhaldið.

Tæknin sjálf hefur ekki endilega áhrif á kennslu og nám því árangurinn fer eftir því hvernig hún er notuð af kennurum og nemendum til að styðja við nám og þroska. Það er svo margt sem við viljum þroska og efla hjá nemendum, það er ekki bara þekking og hæfnin til að nota hana sem við erum að hugsa um heldur margskonar færni s.s. samvinna, sköpunargáfa, sjálfstraust, sjálfstæði, félagsfærni og almenna lífsleikni. Það eru margar kennslufræðilegar hugmyndir og kenningar til sem má skoða og nýta, má hér nefna að skipleggja námið sem blandað nám (e. blended learning) eða sem vendikennsla (e. flipped classroom). Ýmsar kennsluaðferðir má líka nefna s.s. teymisnám (team-based learning), þemanám (e. thematic teaching), verkefnamiðað nám (e. project-based learning), leitaraðferð (e. inquiry based learning), samvinnunám (e. cooperative learning), hönnunarmiðað nám (e. designbased learning) og lausnaleitarnám (e. problem-based learning) sem kennara geta skoðað og nýtt sér og hafa eflaust margir gert það nú þegar.

Það er margt sem þarf að skoða við breytingar á kennslu og námi því kennara þurfa að fylgja stefnu bæði stjórnvalda og síns skóla og einnig þurfa að vera skýrar leiðbeiningar um notkun þess efnis sem kennarinn útbýr. Hvað með höfundaréttinn og öryggi gagna? Varanlegar breytingar með nútíma tækni þurfa að gerast í samvinnu kennara og stjórnenda og vonandi verða skólar í stakk búnir til að aðstoða þá kennara sem vilja halda áfram að þróa sig í tækninotkuninni. Auðvitað þurfa kennara að hafa aðgang að góðum vél- og hugbúnaði en einnig að fá aðstoð við að nota alla þessa möguleika sem eru í boði. Hér má líka sjá fyrir sér tækniver þar sem kennara gera streymt kennslustundum beint og haft aðstöðu til að taka upp efni. Sumir skólar settu upp tækniver í vor til að auðvelda kennurum kennsluna og aðrir bjuggu svo vel að vera með slíka aðstöðu en margir höfðu ekki neitt og þurfa aðstoð til að bæta úr.

Lítum aðeins á nokkra kosti þess að nota tæknina. Tæknin getur gert nám skemmtilegra og áhugaverðara fyrir nemendur. Þegar við bjóðum nemendum að vinna verkefni og skila af sér lausnum á nýju formi, t.d. myndbandi, hlaðvarpi, vefspjalli og vefsíðu, þá komum við til móts við fjölbreyttan nemendahóp og erum að nota miðla sem þeim er tamt að nota. Við erum því að koma til móts við þeirra venjur og nýta þær í þágu menntunar. Með aukinni notkun á margskonar rafrænum samskiptamáta er kominn frábær vettvangur til að kenna nemendum hvað að er að vera stafrænn borgari, netborgari. Við getum þroskað með þeim stafræna borgaravitund með þátttöku í samfélaginu með aðstoð upplýsingatækninnar og skapa þannig góða netmenningu. Með kennslukerfum og samfélagsmiðlum geta kennarar/nemendur/foreldrar verið í betra sambandi eins og margir þekkja nú þegar.  Tæknin getur líka gert vinnu kennara fjölbreyttari þar sem hún býður upp á endalausa möguleika til nýrrar framsetningar og úrvinnslu. Eina sem stoppar okkur er kannski ímyndunaraflið (og tímaskortur).

Lítum samt líka á galla þess að nota tæknina því samfélagsmiðlar geta verið truflun í bekkjastarfinu og erfitt að fylgjast með notkun þess hjá stærri hópi nemenda. Því miður er auðvelt að misnota samfélagsmiðla og setja inn óviðeigandi og skaðlegt efni sem getur leitt til eineltis og tælingar. Einnig geta minnkuð samskipti augliti til auglitis dregið úr tækifærum til að þroska félagsfærni nemenda og ýtt undir félagslega einangrun, ásamt því að netnotkun getur orðið að ávana eða fíkn.

Það er hægt að skrifa lengi um þetta áhugaverða efni en ég hætti hér og bendi á áhugavert viðtal Using Social Media to Teach Social Media: My Interview with HubSpot Academy og svo má skoða góð viðmið (e. standards) hjá ISTE.

Á netinu er hægt að finna aragrúa af forritum og smáforrit (öppum) sem henta vel til kennslu og nokkrar síður til sem hafa safnað upplýsingum um smáforrit, s.s. Menntamálastofnun, Mímisbrunnur, Fikt, Smáforrit fyrir leikskóla, og Tungumálatorg. Það er áberandi hvað mikið hefur verið tekið saman á íslensku um smáforrit fyrir yngri börn en minna fyrir unglinga en ég fann erlendar síður eins og Top Educational Software, Eight best educational apps for teens og My 10 Top Educational Apps for Teens. Hér er kannski komið tækifæri til að taka sama efni fyrir eldri nemendur.

Að lokum langar mig að benda á tvö forrit sem geta nýst vel í kennslu:

Diigo (borið fram dee’go, stendur fyrir Digest of Internet information, Groups and Other stuff) hefur það markmiði að hjálpa þér að búa til þitt eigið persónulega þekkingarsafn á netinu til rannsókna og miðlunar. Það auðveldar notandanum að halda utan um vefsíður sem verða á vegi hans og tilefni er til að heimsækja aftur síðar og hægt að skrifa hjá sér minnispunkta um hverja síðu. Mjög sniðugt til að venja sig á góð vinnubrögð í netheimum og hentar fyrir nemendur frá ca. 10 ára aldri.

Portfolium eða Portfolio Network er kerfi til að halda utan um afrek nemenda sem þeir geta síðan sýnt öðrum. Hugmyndin er að nemendur byrji að safna í möppuna í framhaldsskóla og haldi svo áfram í háskóla en kerfið hefur ókeypis tengingu við Canvas.

Höfundur: Ásrún Matthíasdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík

Skoðað: 2298 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála