Google veldið og skólakerfið
Við þekkjum öll Google og öll þau forrit sem að því fylgir. Ég sem nemandi bæði í háskóla og menntaskóla hef margoft gert verkefni og skýrslur með öðrum nemendum þar sem við þurfum að vinna saman. Þá hef ég notast við þau rit-forrit sem að Google hefur upp á að bjóða. Google Docs, Google Sheets, Google Slides og svo má lengi telja. Google býður nefnilega upp á að margir geti unnið í sama skjalinu í einu. Það er mjög hentugt og gríðarlega þægilegt.
Tökum Google Docs sem dæmi, en það er sambærilegt Microsoft Word. Á Docs sjá allir einstaklingar breytingar sem gerðar eru í skjalinu á rauntíma. Þar er hægt að vera í „tillögu ham“ (e. Suggestion mode) þar sem að allir sjá þær athugasemdir og breytingar sem að þú gerir í skjalinu. Seinna er svo hægt að fara yfir samþykkja eða hafna þeim tillögum. Google hefur gríðarlega öfluga ritvinnslu og það góða við Google er að allir hafa efni á aðgangi, hann er frír.
Google Classroom er einnig mjög öflugt kerfi innan Google þar sem kennarar geta haft yfirumsjón með áföngunum sínum. Það er margt sem að þarf að hugsa um þegar kemur að kennslu. Það þarf að skipuleggja komandi önn og kennsluefni, búa til verkefni og próf. Sem kennari þarftu að vera með allt á hreinu og hafa efnið skipulega sett upp svo að verkefni og kennsla glatist ekki. Classroom er forrit sem heldur utanum allan áfangann eins og hann leggur sig. Inná Classroom er hægt að deila kennsluefni, myndböndum frá YouTube, glærum úr Slides, í raun öllu sem hægt er að geyma inná Google Drive (skýjaþjónusta Google). Þar geta bæði kennarar og nemendur spjallað saman um efnið, Þar er hægt að leggja fyrir nemendur spurningar með Google Forms og gefa nemendum einkunnir fyrir verkefni og próf. Classroom gefur nemendum betri aðgengi að kennurum. Það er auðvelt að spyrja spurninga inná síðunni og auðvelt fyrir kennara að fara yfir og svara spurningum. Classroom er einnig aðgengilegt hvar sem er, á spjaldtölvu, símum og í tölvum. Það gefur nemendum leyfi til að velja það umhverfi sem hentar þeim betur.
Classroom hentar einstaklega vel með vendikennslu (e. Flipped Classroom). Vendikennsla virkar þannig að í staðinn fyrir það að nemendur komi í tíma og sitji fyrirlestra og fara svo heim með verkefni sem þarf að gera utan skóla, þá eiga nemendur að undirbúa sig utan skólatíma, læra kennsluefnið og mæta síðan í skólastofuna og fá hjálp með þau verkefni sem sett eru fyrir.
Í dag lifum við á þannig tíma að það er vitundarvakning í þjóðfélaginu. Við erum orðin meira vör við hvað pappírsneysla er mikill óþarfi þegar kemur að skólakerfinu, það er hægt að gera mest allt á spjaldtölvum og tölvum! Í fyrirlestrum í háskólanum er tæplega helmingur af fólki með stílabækur til þess að glósa. Nú eru flestir að glósa í tölvurnar sínar og spjaldtölvur. Fleiri og fleiri eru farin að notast við spjaldtölvu við stærðfræðireikningana, vegna þess að það fara margar stílabækur á hverri önn í útreikninga og krot. Classroom hjálpar okkur við að losna við pappírinn, skipulagninguna, bæði hjá nemendum og kennurum.
Það er jákvætt að við séum að ala börnin okkar upp við jákvæða tækni. Tækni sem getur nýst okkur mun betur en eldri aðferðir hafa gert og tækni sem að hjálpar okkur að ná lengra í lífinu. Það er jákvætt að sjá leikskólabörn nýta sér tæknina til þess að læra tölustafina, fyrstu orðin og litina. Það er jákvætt að sjá hvað er orðið mikið um fjölbreytt forrit sem að hjálpa grunnskólabörnunum að skipuleggja sig, vinna með hvort öðru og vinna á sínum hraða. Í umhverfi þar sem þau eru örugg, og umhverfi sem þau þekkja.
Höfundur Arnbjörg Bára Frímannsdóttir nemandi við Háskólann í Reykjavík
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.