Skip to main content
30. janúar 2020

Fjórða iðnbyltingin – Robocalypse eða tækifæri?

mynd af höfundumHvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðin stór? Spurning sem við spyrjum gjarnan, en er þetta spurning sem einhver mun geta svarað? Það eru miklar líkur á því að börn í dag muni vinna störf sem ekki eru enn orðin til, og vinnumarkaðurinn eins og við þekkjum hann mun eflaust vera allt annar í ljósi örra tæknibreytinga.

Samkvæmt skýrslunni Ísland og fjórða iðnbyltingin sem unnin var fyrir Forsætisráðuneytið[1] eru um 28% starfa á íslenskum vinnumarkaði, miðað við árið 2017, sem eru talin vera mjög líkleg til sjálfvirknivæðingar á næstu tíu til fimmtán árum. Líkt og þessar tölur gefa til kynna, þá er líklegt að töluverður fjöldi starfa verði fyrir áhrifum fjórðu iðnbyltingarinnar og því áhugavert að skoða tækifæri og áskoranir tengdar því. Þó sumir líti á fjórðu iðnbyltinguna sem ógn við ákveðna tegund starfa og haldi að vélmennin taki hreinlega yfir, eins og hálfgert Robocalypse, felur hún einnig í sér fjölda tækifæra fyrir einstaklinga, atvinnulífið og þjóðfélagið í heild.

Hvað er fjórða iðnbyltingin?

Þriðja iðnbyltingin gekk út á að tæknivæða störf en á sama tíma þurfti áfram mannafla til að vinna verkin. Fjórða iðnbyltingin byggir hins vegar á stafrænum grunni og gengur út á að tengja saman þá tækni sem nú þegar er til staðar og minnka þar af leiðandi þörfina fyrir inngrip mannsins. Mannfólkið fer því úr því að stýra tækjunum yfir í að þróa og viðhalda þeirri tækni sem nú er nýtt í að leysa verkefni. Þar er aðallega átt við gervigreind, róbótatækni (e. robotics), sjálfkeyrandi bíla, internet hlutanna (e. internet of Things, IoT), bálkakeðjur (e. blockchain), sjálfvirknivæðingu og fleira sem mun líklega valda víðtækum samfélagsbreytingum á næstu árum og áratugum. Breytingarnar þurfa samt ekki allar að verða jafn róttækar og sjálfkeyrandi bílar. Gervigreind getur t.a.m. bætt ferla í fyrirtækjum sem nú eru framkvæmdir af fólki. Má þar nefna dæmi líkt og mynstursgreiningu og áætlanagerð, meðal annars til að greina birgðastöðu, sem getur verið flókið og tímafrekt ferli. Eitt er víst að ólíkt fyrri iðnbyltingum gengur sú fjórða mun hraðar yfir en áhrifin verða að öllum líkindum mun víðtækari.

Mynd1

Er fjórða iðnbyltingin byrjuð?

Fram eru komin fjöldamörg dæmi þar sem verið er að nýta tæknina til að einfalda og straumlínulaga ferla. Ávinningurinn felst í samlegðaráhrifum þar sem nánast öll ferli sem nýta stafræn gögn og geta nýtt sér gervigreindartækni umbreytast í sjálfvirk ferli. Með aukinni sjálfvirknivæðingu er hægt að nýta vélar meira í erfiðisvinnu, minnka líkurnar á mannlegum mistö

kum og almennt auðvelda hversdagslega hluti. Tölvur vinna hraðar en manneskjur við úrvinnslu gagna og er tilvalið að nýta slíka tækni þegar kemur að flóknum útreikningum, greiningu mikils magns af gögnum, leita eftir mynstrum o.s.frv.

Í tryggingageiranum eru skrifstofuþjarkar (e. Robotic Process Automation, RPA) nýttir, þ.e. tækni byggð á gervigreind, þar sem hugbúnaðurinn hermir eftir þeirri vinnu starfsmannsins sem krefst endurtekninga og leysir þar af leiðandi starfsmanninn af hólmi. Líklegt er að slík notkun á gervigreind muni verða sú algengasta þegar fram líða stundir. Fyrirtæki í tryggingatækni (e. InsurTech) ásamt sumum rótgrónum tryggingafélögum eru farin að bjóða sérsniðin tilboð á einungis 90 sekúndum byggð á stöðluðum spurningum. Einnig geta tryggingafélög boðið upp á heimilistryggingu þar sem leka- og hitaskynjarar fylgja með tryggingunni og tryggingafyrirtækið fær tilkynningar frá skynjaranum þegar tjón á sér stað. Nýjustu dæmin eru tryggingatilboð byggð á upplýsingum úr snjallúrum fólks. Fólk sem hreyfir sig meira fer þannig í einn áhættuflokk en fólk með púls yfir meðallagi fer í annan áhættuflokk. Einnig þekkist að hegðun á samfélagsmiðlum sé notuð við að útbúa tilboð í tryggingar. Þannig geti fólk sem notar mikið af upphrópunarmerkjum í færslum verið líklegra til að vera stressað og þar af leiðandi í hættu á að ávinna sér tiltekna sjúkdóma. Dæmin eru orðin óteljandi.   

Mynd2

Fjölmörg tækifæri eru til tæknivæðingar í fjármálaþjónustu. Þannig hefur heilmikil breyting orðið á allri virðiskeðju fjármálaþjónustu en sögulega hafa fjármálafyrirtæki stýrt henni allri. Samkeppnisumhverfi rótgróinna fjármálafyrirtækja hefur þannig breyst og nú keppa þau við fjártæknifyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki og alþjóðlega tæknirisa sem þjóna mörkuðum sem fjármálafyrirtækin hafa hingað til ekki þjónað áður eða þjónað á óskilvirkan hátt. Í þróun þessarar nýju fjármálaþjónustu eru upplýsingar lykilbreytan og nýju aðilarnir nýta sér upplýsingar, tækni og internetið til að bjóða notendum upp á nýjungar, sveigjanleika og persónulegri þjónustu. Rótgrónu fjármálafyrirtækin þurfa að aðlagast þessu nýja vistkerfi sem samanstendur af gervigreind, bálkakeðjum og fleiru. Eitt er víst að fjórða iðnbyltingin býður upp á tækifæri til að breyta gögnum í upplýsingar sem skapa virði fyrir notendur í formi persónulegri og þægilegri þjónustu.

Með tæknibreytingum skapast nýjar áskoranir

Fjórða iðnbyltingin býður upp á ótalmörg tækifæri en henni fylgja einnig fjölmargar áskoranir. Þó tækniþróunin sé óhjákvæmileg má ekki vanmeta mikilvægi mannlega þáttarins, s.s. þegar kemur að gagnaöryggi, netöryggi og eftirliti. Vélar hafa ekki tilfinningar og taka einungis ákvarðanir út frá þeim gögnum sem þær hafa aðgang að og lesa ekki í aðstæður á sama hátt og manneskja gerir. Framkvæmd ýmissa verkefna er komin yfir á vélar, sem hugsa ekki eins og mannfólk, en þá vaknar spurningin: hver ber þá ábyrgð á þeim aðgerðum sem þær framkvæma? Það hefur reynst erfitt að koma sjálfkeyrandi bílum á göturnar þar sem það hefur verið deilumál hver beri ábyrgðina ef slíkur bíll keyrir á og jafnvel veldur manntjóni. Er það sá sem sat í bílnum, sá sem framleiddi hann eða sá sem þróaði og/eða prófaði hugbúnaðinn sem stýrir honum? Í framhaldi af fyrrnefndu dæmi af tryggingamarkaði getur einnig komið til þess að verðlagning verði byggð á fáum þáttum eða spurningum sem leitt gætu til hlutdrægni. Almennar spurningar gætu leitt til að fólk túlki spurningar með mismunandi hætti. Snjallúrið greinir kannski að notandinn sé með fínan púls og að hann stundi reglulega hreyfingu, en skynjar hins vegar ekki óhollt mataræði eða reykingar. Þannig ákvörðunarferli sem væri einungis í höndum tölvukerfa gætu leitt til flókinna álitamála. Þótt fjórða iðnbyltingin muni tvímælalaust hafa áhrif á vinnumarkaðinn þá verður alltaf þörf fyrir mannlega þáttinn. Sem dæmi má nefna að Amazon notar vélmenni í vöruhúsunum en það er alltaf mannfólk sem hefur umsjón með þeim.

Í dag nýtum við netið mjög mikið. Ótrúlegustu tæki eru nettengd og aðgengileg allan sólarhringinn, allan ársins hring. Verslun, afþreying, samskipti og samgöngur eru aðgengilegar í gegnum farsíma.  Mikið af upplýsingum er því safnað um okkur og þær svo greindar og nýttar til að veita okkur frekari þjónustu sem er sniðin að okkar þörfum. En hvað verður um þessi gögn? Það er mikilvægt að huga að öryggi upplýsinganna. Sem notendur þurfum við að gera okkur grein fyrir því að það sem við teljum vera frítt á netinu erum við oftast að borga fyrir með aðgengi að upplýsingum um okkur. Oftast eru þetta miklu meiri upplýsingar en fólk almennt gerir sér grein fyrir og jafnvel eru þær upplýsingar seldar áfram til þriðja aðila. Það kannast flestir við það að samþykkja skilmála á snjallsímaforriti án þess að lesa hvað í þeim stendur. Notendur þurfa að vera meðvitaðir um hvað þeir eru að láta af hendi þegar skilmálar eru samþykktir.

Með aukinni tæknivæðingu og gagnaöflun eykst þörfin á skilvirku öryggiseftirliti. Ný tækni er nýr vettvangur fyrir öryggisbrot og mikið magn af gögnum í húfi. Með tilkomu internet hlutanna eru fleiri og fleiri heimilistæki orðin samtengd og nettengd, t.d. snjall-heimilistæki eins og ísskápar, ryksugur og þvottavélar. Þar með opnast leið fyrir óprúttna aðila inn á heimili okkar. Það sama á við um fyrirtæki, en örugg innleiðing á snjalltækjum er enn eitt viðfangsefni fyrir stjórnendur og mikið í húfi og nauðsynlegt að rétt sé staðið að hlutunum. Fyrir framleiðendur þessara snjalllausna og þeirra fyrirtækja sem eru að þróa eigin lausnir, er því mikilvægt að huga vel að öryggismálum snemma í þróunarferlinu og tryggja viðvarandi eftirlit. Það er einnig mikilvægt að viðhafa virkt og fyrirbyggjandi eftirlitsumhverfi og viðbúnaðarumgjörð til að lágmarka líkurnar á að áhættur raungerist. Á sama tíma er mikilvægt fyrir notendur að vera meðvitaðir um áhættur tengdum þessum tækninýjungum.  

Lokaorð

Það er ljóst að verkefnin tengd fjórðu iðnbyltingunni eru fjölmörg, krefjast mikillar vinnu, stefnubreytingar og gífurlegrar þekkingar þeirra aðila sem eru að innleiða hina nýju tækni. Eins ógnvekjandi og þessi bylting hljómar þá telja einungis 16% forstjóra að þeir hafi innleitt gervigreind til að sjálfvirknivæða ferla, samkvæmt Global CEO Outlook KPMG, 2019[2]. Þróunin samanstendur ekki af vélmennum sem taka yfir öll störf. Vélmenni munu ekki sjást á hárgreiðslustofunni og mannfólk mun ekki hætta að keyra bíla. Þróunin sem á sér stað samanstendur einnig af atriðum sem fólk tekur ekkert endilega eftir. Til dæmis koma forritin Spotify og Netflix með tillögur að tónlist og sjónvarpsefni byggt á fyrri notkun. Þessi tækni, eða vélanám (e. machine learning), sem Spotify og Netflix nýta, einfaldar hlutina og býður upp á virðisaukandi þjónustur. Eins og gerst hefur í fyrri iðnbyltingum verður alltaf einhver tregða við þróun þeirrar fjórðu, sama hversu ábatasamar breytingarnar eru. Notendur voru t.d. tregir til að byrja með við að skrá sig á Netflix og héldu áfram að fara á myndbandaleigur í ákveðinn tíma. Þegar upp er staðið er þetta spurning um traust og venjur, að innleiða nýja hluti mun taka tíma og því fleiri sem nýta sér nýja tækni því meira traust mun skapast. Það þarf ekki að vera slæmt að vélar leysi af mannshöndina. Því til stuðnings má nefna bankaviðskipti sem í dag fara að mestu fram á netinu, en áður þurfti fólk að fara í útibúið sitt til að millifæra og borga reikninga. Nú erum við meira að segja komin svo langt í þróuninni að viðskiptavinir tala við vélmenni þegar hringt er í þjónustuborð eða senda skilaboð á bankann. Það sakna líklega fæstir þess að vera númer 38 í röðinni á þjónustuborðinu eða stressa sig á að reyna að ná í bankann fyrir fjögur á föstudegi!

Á sama tíma og þessi tæknibylting á sér stað, er ákveðin menningarbylting í gangi. Það verður alltaf tortryggni í garð breytinga en samhliða þessari hræðslu venst fólk því að nýta nýja tækni í daglegu lífi og þannig munu störfin breytast í takt við tækniþróunina. Í dag eru t.d. tífalt fleiri tölvunarfræðingar en þegar þriðja iðnbyltingin átti sér. Börnin nútímans munu þurfa að tileinka sér annarskonar færni til að vinna störf framtíðarinnar og því er mikilvægt að breyta áherslum í kennslu í samræmi við það. Með breytingum verða til nýjar áherslur og áskoranir, en ekki endalok.

Höfundar: Eva M. Kristjánsdóttir, Helena Pálsdóttir, Stella Thors, sérfræðingar á áhættustýringu upplýsingakerfa hjá KPMG

Heimildir

[1] Ísland og fjórða iðnbyltingin, Forsætisráðuneytið, Febrúar 2019

[2] https://assets.kpmg/content/dam/kpmg/xx/pdf/2019/05/kpmg-global-ceo-outlook-2019.pdf

Skoðað: 1136 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála