Framtíðin er okkar!
Viðtal við Ragnheiði H. Magnúsdóttur, forstöðumann Framkvæmda hjá Veitum og handhafi UT-verðlauna Ský.
Ragnheiður hefur verið í farabroddi í upplýsingatæknigeiranum og lagt áherslu á fjölbreytileika í þeim geira. Hún er forstöðumaður Framkvæmda hjá Veitum en var áður m.a. framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar í tæp 6 ár og vann síðan við breytingarstjórnunarverkefni hjá Marel auk þess sem hún hefur setið í stjórnum Samtaka vefiðnaðarins og Ský. Einnig hefur hún verið formaður tækninefndar Vísinda- og tækniráðs, formaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja hjá SUT. Árið 2019 hlaut hún UT-verðlaun Ský sem eru heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi. Tölvumálum langaði að heyra í Ragnheiði, bæði um hana sjálfa og hennar sýn á fjórðu iðnbyltinguna.
Hvað var það sem leiddi þig út upplýsingatæknigeirann?
Þegar ég var enn að klára masterinn í vélaverkfræði í Álaborgarháskóla bauðst mér starf hjá Símanum í vöruþróun og verkefnastjórnun og ég sló til. Þar með var ég komin á bólakaf í vöruþróun í fjarskiptabransanum sem var þá (árið 2000) í þvílíkum blóma. Þessi verkefni innihéldu oft líka töluverða upplýsingatækni og hef ég alla tíð fílað nördaskapinn þannig að þetta gerðist bara svona „náttúrulega“ út frá þessu.
Hvernig líst þér á fjórðu iðnbyltinguna?
Fyrir tækninörda eins og mig er fjórða iðnbyltingin mjög spennandi fyrirbæri enda svo rosalega mikil þróun í notkun gervigreindar, sýndarveruleika, viðbótarveruleika (augmented reality), þrívíddarprentun, nanotækni, vélmennavæðingu, CRISPR, hlutanetsins (IoT), Blockchain, gagnagnótt (big data) o.s.frv. En það sem ekki síst áhugavert er hvernig öll þessi nýja tækni mun hafa áhrif á menntun og samsetningu starfa. Aldrei er mikilvægara að fólk sé skapandi og hafi tilfinningagreind, beiti gagnrýnni hugsun og leggi áherslu á samvinnu í leik og starfi og þessir þættir hreinlega verða að koma sterkar inn í störfin okkar og menntun. Það eru líka alveg fullt af siðferðilegum spurningum sem koma upp hvað varðar notkun tækninnar og mjög mikilvægt að hugsa hlutina vel bæði tæknilega og siðferðilega svo ekki fari illa.
Hvað með litla Ísland, hvernig stöndum við okkur í hraðri þróun dagsins í dag?
Þjóðir heims eru mis vel undirbúnar hvað varðar fjórðu iðnbyltinguna. Það er almennt talið að vestrænar þjóðir og þá sérstaklega norðurlöndin og þar með talið Ísland séu vel í stakk búin að takast á við þessa tæknilegu og menningarlegu breytingu sem eru að fara að eiga sér stað. Enn í dag eru þó lönd í heiminum sem hafa ekki náð að rafvæðast og eru því enn stödd í fyrri iðnbyltingum og munu því eiga töluvert erfitt uppdráttar.
Það mun líka vinna með okkur hvað við hérlendis erum almennt fljót til að tileinka okkur nýja tækni og getum verið fljót að gera breytingar þar sem við erum svo fá og auðvelt að ná til allra í einu.
Hvernig séðu fyrir þér þróunina hér á landi næstu 5-10 árin? Hvaða áherslu vilt þú sjá?
Það er alltaf svolítið erfitt að sjá fyrir sér framtíðina en ég vil sjá hér hugrakkar og stórar breytingar í menntakerfinu til að takast á við þetta. Mig langar að sjá atvinnulífið taka stærri skref hvað varðar sí- og endurmenntun til að sjá til þess að fólk geti þróast í starfi í takt við þær breytingar sem mun eiga sér stað. Svo er ég handviss um að við munum blómstra í að nota nýja tækni á þeim sérsviðum sem við erum góð í eins og innan orkugeirans, heilbrigðistækni, upplýsingatækni, tölvuleikjaiðnaðarins og sjávarútvegstækni.
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.