Vitsmunalegur ávinningur þess að spila tölvuleiki
Tölvuleikir hafa lengi vel verið stimplaðir sem skaðlegir og hættulegir, hver svo sem ástæðan fyrir því er. Margir telja að tölvuleikir geri fólk ofbeldishneigt, latt og metnaðarlaust. Ég held að fólk sé oft tortryggið og hrætt við hluti sem það þekkir ekki nógu vel. Ég heyri oft fólk hneykslast á því afhverju fullorðið fólk spili tölvuleiki mörg kvöld í viku og velti því oft fyrir mér afhverju svo margir telji það skárra að sitja fyrir framan sjónvarpið öll kvöld, heldur en að spila tölvuleiki.
Undanfarin ár hafa margar rannsóknir verið gerðar á áhrifum tölvuleikja á vitsmunalega getu fólks. Þessar rannsóknir eru mjög áhugaverðar og hafa leitt í ljós, að í rauninni geta tölvuleikir haft mjög jákvæð áhrif á getu fólks til að einbeita sér, vellíðan og margt fleira. Allt bendir til þess að tölvuleikir geti verið mjög nytsamlegir til að hjálpa börnum og fullorðnum að læra. Öfugt við það sem talið hefur verið lengi vel, virkjast stöðvar í heilanum á meðan þú spilar tölvuleiki sem hafa jákvæð áhrif á lærdómsgetu.
Það var árið 2013 þegar Cell Press birti niðurstöður úr rannsókn þar sem lesblind börn á aldrinum 7 til 13 ára voru látin lesa fyrir og eftir að hafa spilað bæði hasar leiki og annars konar tölvuleiki í 80 mínútur. (Franceschini o.fl., 2013). Börnin voru látin gera þetta í níu skipti og sýndu niðurstöðurnar að leshraði barnanna jókst töluvert, án þess að hafa neikvæð áhrif á lesskilning þeirra eftir að hafa spilað hasar leiki . Athyglis færni barnanna jókst meðan þau spiluðu þessa leiki, sem nýttist þeim í lestrinum eftir á. Í staðin fyrir að setja þessi börn í sérúrræði væri hægt að nota þessa einföldu og skemmtilegu lausn til að hjálpa þeim að einbeita sér og þar af leiðandi lesa betur. Þessi sérúrræði hafa oft ekki jákvæð áhrif á sjálfsmynd barna, þar sem mikil pressa er sett á þau til að bæta sig í leshraða og lesskilning og þeim líður oft á tíðum eins og þau séu ekki nógu góð eða jafn klár og hinir og séu þar af leiðandi sett til hliðar í þessi úrræði (Franceschini o.fl., 2013).
Basque Center on Cognition, Brain and Language og Háskólinn í Grenoble Alpes rannsökuðy einnig áhrif tölvuleikja á lesblindu, en þeir tóku mið af 36 einstaklingum sem voru ekki með lesblindu eða lestrarörðugleika. (Spanish Foundation for Science and Technology, 2017). Af þessum 36 voru 19 sem spiluðu reglulega hasar tölvuleiki. Lögð voru tvö próf fyrir báða hópana, en þeir sem spiluðu reglulega tölvuleiki stóðu sig töluvert betur í báðum prófunum. Það eru þó ekki allir leikir sem hafa áhrif á þetta tiltekna vandamál, en hasar leikir, þar sem aukin athygli og viðbragðstími skiptir miklu máli eru sérstaklega áhrifa miklir hvað þetta varðar. (Spanish Foundation for Science and Technology, 2017).
Fyrir utan jákvæð áhrif á getu fólks til að læra og einbeita sér er einnig vert að skoða hvernig tölvuleikir geta hjálpað fólki sem glímir við alvarlega sjúkdóma á borð við Alzheimer‘s sjúkdóm og Dementia. Bæði Dementia og Alzheimer‘s eru sjúkdómar sem má rekja til vöntunar á gráu efni í heila og hafa varanlega áhrif á minni fólks. Háskólinn í Montreal ákvað að skoða tengingu á milli þess að spila þrívíddar leiki og aukningu á grá efni í stúkunni sem er taugavefur í heilanum sem styður við byggingu minnis (Rense, 2017). Teknir voru 33 einstaklingar á aldursbilinu 55 til 75 ára og skipt í þrjá hópa. Einn hópurinn átti ekki að spila neina leiki, annar átti að nota sérstakt forrit sem kennd þeim að spila á píanó, og þriðji hópurinn átti að spila leikinn Super Mario 64. Í lok rannsóknarinnar kom í ljós að hópurinn sem spilaði Super Mario 64, sýndu töluverða aukningu á gráu efni í stúkunni, á sama tíma og hópurinn sem gerði ekkert sýndi að dregið hefði úr gráu efni í heilanum. Bæði hópurinn sem spilaði tölvuleikinn og hópurinn sem notaði forritið til að læra á píanó sýndu aukningu á gráu efni í litla heila, en það hefur áhrif á skammtíma minni og hreyfigetu. (Rense, 2017).
Umfram það að hafa jákvæð áhrif á fólk með lesblindu og lestrar- og lærdómsörðugleika, þá hafa sumir leikir einnig jákvæð áhrif á líkamlega getu fólks og viðbraðgstíma. Vefsíða UCSF School of Nursing (e.d) í Kaliforníu birti grein um hvernig tölvuleikir gætu hjálpað fólki með Parkinson‘s. Parkinson‘s er taugasjúkdómur, sem hefur áhrif á hreyfigetu fólks og einkennist af stífleika í vöðvum, skjálfta og hægum hreyfingum. Teymi frá UCSF og Red Hill hönnuðu sérstaka leiki sem voru sérstaklega gerðir til að auka samhæfingu hjá sjúklingum. Leikirnir voru ekki ósvipaðir leikjum sem hægt er að spila á Wii og Kinect, og hjálpuðu sjúklingum að bæta göngulag og jafnvægi. Í lok rannsóknarinnar kom í ljós að hátt hlutfall af sjúklingunum sýndu framfarir á þessum sviðum eftir stuttan tíma. (UCSF School of Nursing, e.d).
Hægt er að finna dæmi sem sýna fram á skaðleika tölvuleikja, en þau dæmi draga oft upp ranga mynd af tölvuleikja heiminum og fær jákvæð umfjöllun tölvuleikja oft ekki næga athygli. Nýlegar rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að efling ákveðinna stöðva í heilanum meðan á spilun tölvuleikja stendur getur haft jákvæð áhrif á vitsmunalega getu og einbeitingu einstaklinga. Ég held að þetta snúist aðalega um að finna meðal vegin, öllu má nú ofgera. Ég tel að við gætum nýtt okkur tölvuleiki á marga vegu til þess að hjálpa fólki að efla einbeitingu og viðhalda minni í framtíðinni.
Höfundur: Bryndís Charlotte Sturludóttir
Heimildaskrá
UCSF School of Nursing. (e.d). Computer Games Help People with Parkinson’s Disease. Sótt 21. september af https://nursing.ucsf.edu/news/computer-games-help-people-parkinsons-disease
Spanish Foundation for Science and Technology. (2017). Action video games to fight dyslexia. Sótt 21. september af https://medicalxpress.com/news/2017-12-action-video-games-dyslexia.html
Francheschini, S., Gori, S., Ruffio, M., Viola, S., Molteni, M. Og Facoetti, A. (2013). Action Video Games Make Dyslexic Children Read Better. Current Biology, 23(6), 462-466. doi:10.1016/j.cub.2013.01.044.
Rense, S. (2017). Playing Video Games Could Help Prevent Alzheimers. Sótt 22. september 2019 af https://www.esquire.com/lifestyle/health/a14379049/video-games-prevent-alzheimers/
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.