Skip to main content
12. október 2017

Foreldrar á samfélagsmiðlum

drifaTækniöldin hefur margar nýjungar í för með sér. Ein mesta breytingin er eflaust samfélagsmiðlarnir sem soga til sín athygli fólks, þar sem við fáum tækifæri með að fylgjast með öllu því sem vinum okkar þykir þess virði að deila. Það merkilegasta sem drífur á daga fólks er mjög oft litlu kraftaverkin, börnin.

Nýbakaðir foreldrar ganga inn í það hlutverk að hugsa um nýjan einstakling og bera ábyrgð á að vernda hann frá hættum samfélagsins. Það getur eflaust verið vandasamt að átta sig á nýjum hættum tæknialdarinnar þar sem samfélagsmiðlarnir eru alls ráðandi. Foreldrar sem rifna úr stolti yfir börnunum sínum vilja segja öllum heiminum hvað barnið þeirra er frammúrskarandi æðislegt á allan hátt. En hvar liggur réttur barnanna?

Hvaða áhrif hefur það á börn þegar fram í sækir þegar þau komast að því að mamma og pabbi hafi deilt allri æskunni þeirra með öllum heiminum? Hafa börn ekki rétt á sama frið helgi einkalífs eins og við hin?

Það er ekki langt síðan tímarnir voru þannig að til þess að fá fréttir af vinum og kunningjum þurftir þú að taka upp símtólið og heyra í viðkomandi eða gera þér ferð og fara í heimsókn. Oft þurfti mikið að ræða því hjá báðum aðilum harfði margt á daga sína drifið undanfarið, mögulega voru myndaalbúmin dregin upp til að sýna myndir frá gæðastundum fjölskyldunnar síðast liðin misseri. Myndirnar lifðu inn á heimilunum og voru dregnar fram einungis við viðeigandi tækifæri. Þá hefði það nú þótt skrýtið ef einhver ókunnugur hefði farið að hnýsast í fjölskyldumyndaalbúmin.

Í dag er þetta orðið töluvert breytt. Flestir hafa eflaust staðið sig af því að vera á samfélagsmiðlum að skoða í albúmum hjá fólki sem það þekkir varla neitt. Ástæðurnar fyrir þessari forvitni getur verið af ýmsum toga. Sumt fólk vill láta allan heiminn sjá hvað það lifir ofsalega spennandi lífi og það getur verið gaman að skoða myndir hjá þessu fólki þó þú þekki það varla neitt. Stundum skoðum við af því að okkur langar að vita hvað fólk sem þú þektir einu sinni hefur verið að gera undanfarin ár og hvar það er niðurkomið í lífinu. Stundum skoðum við einfaldlega bara af því okkur leiðist og höfum ekkert betra að gera en að skoða myndir hjá hálf ókunnugu fólki.

Oftar en ekki eru þarna myndir og sögur af börnum þeirra og það verður hálf ógnvekjandi að hugsa til þess að maður veit eiginlega meira um börn kunningja sinna heldur en um þá sjálfa. Börn sem maður hefur aldrei séð, einu tengslin eru þau að þú hefur er að hafa foreldra þeirra á vinalistanum þínum á samfélagsmiðlum.

Núna ganga allir um með fjölskyldualbúmin þín í snjalltækinu í vasanum og geta í rauninni skoðað þau hvenær sem þeir vilja. Lang flestir sem nota samfélagsmiðla eru komnir með ansi stóran “ vinahóp ”. Sumir á þessum lista eru nánir vinir og fjölskylda, en sá hópur er yfirleitt ekki svo stór. Afgangurinn af hópnum er yfirleitt fólk sem þú kynnitst kannski í vinnu, námi eða tómstundum og heldur ekkert endilega neinu sambandi við en þið eruð alltaf vinir á samfélagsmiðlum. Þetta fólk fær að sjá allt sem þú deilir og oftar en ekki vinir vina þinna líka.

Það er auðvitað val hvers og eins hversu mikið hann vill deila af sínu lífi með samfélagsmiðlum, en hversu eðlilegt er það að deila lífi annarra án þeirra samþykkis. Þó svo börnin séu mikilvægur þáttur í lífi foreldra þá eiga börnin sinn rétt á friðhelgi einkalífs.

Umboðsmaður barna segir á heima síðu sinni að “allir – þar á meðal börn – eiga rétt á því að njóta friðhelgi einkalífs. Friðhelgi einkalífs felur meðal annars í sér rétt til þess að ráða yfir lífi sínu og líkama og til þess að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi.” [1]. Þrátt fyrir það tekur hann fram að það sé ekkert í lögum landsins sem beinlínis bannar foreldrum að birta myndir eða aðrar upplýsingar um börn sín á netinu. Ekki má þó setja inn myndir eða umfjöllunarefni sem brýtur í bága við lög, til að mynda barnaverndarlög, almenn hegningarlög eða lög persónuvernd og verndun persónuupplýsinga [2].

Sem betur fer er langflest af því sem foreldrar setja um börnin sín á samfélagsmiðla ósköp saklaust, sætar myndir, krúttlegar setningar sem börnin láta út úr sér eða kannski listaverk sem var kannski óvart teiknað á stofuvegginn. En hvað ætli börnum finnist um þessar deilingar af þeirra persónulega lífi þegar þau verða eldri?.

Ein móðir lenti í því að börnin hennar fór að spyrja hana út í hver sæi það sem hún setti á samfélagsmiðla. Hún sýndi þeim ömmur og afa, foreldra vina þeirra og fleiri á vinalistanum. Börnin voru ekki glöð með að vita af þeirra persónulegu sögum á samfélagsmiðlum og báðu hana um að hætta að deila sögum um sig. Þó svo börnin séu stór partur af hennar lífi þá væru þeirra sögur kannski ekki hennar sögur til að segja. Eftir þetta biður hún alltaf börnin sín um leyfi áður en hún deilir einhverju um þau og þau hafa fullt vald til að segja nei [3].

Ég segi fyrir mína parta að ég er mjög fegin að hafa ekki verið barn á tímum samfélagsmiðla. Þeir sem vita hvað ég gerði í æsku eru einungis þeir em ég umgekkst sem barn eða þeir sem ég vildi sjálf segja frá mínum ævintýrum. Einhver maður sem vann með pabba áður en ég fæddist fékk til dæmis ekki að sjá mynd af mér á bleyjunni eða útkámuga eftir að hafa borðað súkkulaðiköku.

Ég sæi það ekki alveg fyrir mér ef mamma mín færi að deila svona sögum um mig sem fullorðna manneskju. Ég veit að ég kynni ekkert vel við það ef mamma færi að deila með vinum sínum og kunningjum sögum úr mínu persónulega lífi í dag. Hvers vegna er það þá eitthvað öðruvísi að deila lífum barnanna okkar?

Ætli það sé ekki best að allir líti í eigin barm áður en þeir setja mynd eða stöðuuppfærslu um börnin sín á samfélgasmiðla og hugsi hvernig þeim myndi sjálfum líða ef þessu hefði verið deilt um þau sem börn. Svo veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér. Þegar þessi kynslóð elst upp þá eru eflaust allir í sömu stöðu og það þykir þá kannski bara eðlilegt að geta farið inná facebook foreldra sinna og lesið ævisöguna sína þar.

Höfundur: Drífa Örvarsdóttir nemandi í Háskólanum í Reykjavík

Heimildir
[1] Umboðsmaður barna. (2015). Upplýsingar um börn í samfélagsmiðlum. Sótt 19. September 2017 af: https://www.barn.is/frettir/2015/06/upplysingar-um-boern-i-samfelagsmidlum
[2] Umboðsmaður barna. Er leyfilegt fyrir foreldra að birta myndir eða aðrar upplýsingar um börn sín á netinu, til dæmis á facebook, bloggsíðum eða öðrum sambærilegum síðum? Sótt 19. September 2017 af: https://www.barn.is/spurt-er/umfjoellun-a-netinu/
[3] Mackenzie Dawson Parenting in a Fakebook World: How Social Media Is Affecting Your Parenting. http://www.parents.com. Sótt 19. September 2017 af: https://www.parents.com/parenting/better-parenting/style/how-social-media-is-affecting-your-parenting/

Skoðað: 2467 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála