Skip to main content
29. september 2017

UberEATS

Auður Bjork Aradottir 290791 2519 copyUberEATS er fyrirtæki sem býður upp á smáforrit (app) sem sér um sendingarþjónustu á mat frá veitingastöðum. Þetta er milliliðaþjónusta á milli veitingastaða og kúnnans. Fyrirtækið var stofnað árið 2014 í Santa Monica í Los Angeles en höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í San Fransisco, California.

Fyrirtækið er dótturfyrirtæki hins sívinsæla fyrirtækis Uber sem er sjálfstætt starfandi leigubílaþjónusta. Uber var stofnað árið 2009 og er leigubílaþjónusta með öðru sniði en hefur áður viðgengist. Uber er smáforrit sem sett er upp í snjallsímum og þegar búið er að skrá sig inn og skrá greiðslukort þá er hægt að panta sér leigubíl. Inni í appinu er kort og getur maður séð hvar bíllinn manns er þegar hann er á leiðinni til manns sem er auðvitað mjög hentugt og þægilegt.

Uber er orðið gríðarlega vinsælt í mörgum borgum í heiminum í dag og hefur komið í stað hefðbundinna leigubíla hjá allmiklum fjölda af fólki. Öll greiðsla fer fram í gegnum appið og því þarf ekki að greiða leigubílstjóranum neitt sem auðveldar mjög mikið og eykur þægindi. Stærsta ástæðan fyrir að Uber hefur tekið yfir svo stóran hluta leigubílamarkaðs er að það er almennt talsvert ódýrara að taka Uber en venjulegan leigubíl.

Það var svo árið 2014 sem UberEATS var stofnað. Í appinu þeirra er hægt að skrá sig inn í gegnum Uber accountinn sinn, svo ekki er þörf á að skrá greiðslukort og upplýsingar þegar maður á nú þegar Uber account. Inni í appinu er svo hægt að skoða matseðla frá fullt af veitingastöðum í nágrenninu og panta sér það sem óskað er eftir með einföldum hætti. Þegar búið er að panta sér mat þá er hægt að fylgjast með nákvæmlega hvar pöntunin er á korti, og starfsmaðurinn kemur með matinn alveg upp að dyrum hjá þeim sem pantaði.

UberEATS rukka 5$ fyrir hverja pöntun að jafnaði (fyrir utan það sem veitingastaðurinn rukkar fyrir matinn). Hins vegar ef það er mikið að gera á sérstökum svæðum og tímum þá rukka þeir aukalega þar (það er tekið fram við pöntun í appinu) og þeir segjast gera það til að geta viðhaldið jafn skjótri og góðri þjónustu og þeir gera annars, þrátt fyrir að það sé mikið að gera.

Ef fók er með ofnæmi eða óþol þá er hægt að bæta við athugasemd með pöntuninni, og ef maður lendir í vandræðum með pöntunina sína þá er hægt að hafa samband við starfsfólk UberEATS í gegnum þjónustuverið þeirra með auðveldum hætti.Fyrirtækið er svo með alls konar afsláttarkóða og stigasöfnun, þar sem maður getur notað stigin sem maður hefur unnið sér inn til að kaupa mat inni í appinu. Þó er því miður ekki hægt að nota stigin sín til að borga Uber bíl heldur einungis er hægt að kaupa mat með UberEATS.

UberEats gefa sig ut fyrir að vera mjög fljótir að koma með matinn og nefna að meðaltíminn sé um 35 mínútur frá því að pöntun var lögð fram, þetta getur hins vegar auðvitað verið mjög mismunandi eftir svæði og tímasetningu. Þegar maður er að velja sér rétt og stað þá stendur í smáforritinu hvað áætlaður biðtími er. Það þarf ekki að gefa þjórfé til UberEATS bílstjóra en hægt er að gefa þeim góð ummæli í smáforritinu, til að þakka fyrir góða þjónustu, sé þess óskað.

Í fyrstu voru einungis ákveðnir, fáir réttir í boði af matseðlum og alls ekki margir veitingastaðir skráðir í appinu. Þá kvartaði fólk yfir því að það væru ekki fleiri valkostir, sérstaklega fyrir grænmetisætur. Með tímanum og auknum vinsældum appsins hefur úrvalið þó stóraukist og ekki lengur hægt að kvarta yfir því. Þá er búið að bæta appið sjálft mikið frá því í byrjun, og eru góðar og lýsandi myndir af flestum réttum, til að fólk geti séð hvernig maturinn lítur út og við hverju það á að búast.

Meginn munurinn á Uber og UberEATS er einmitt að þegar fólk er að panta sér leigubíl þá tekur það oft bara það fyrsta sem finnst en þegar fólk ætlar að fá sér að borða getur það oft tekið sér langan tíma í að finna nákvæmlega matinn sem því langar í.UberEATS var fyrst aðgengilegt í Los Angeles 2016 og í kjölfarið fylgdu margar borgir eftir. Verkefnastjóri UberEATS sagði í viðtali að það væri í raun allt annað og flóknara sem huga þyrfti að í sambandi við UberEATS heldur en Uber. Hann nefndi að passa þyrfti að þeir sem sækja ættu matinn myndu ekki mæta of snemma á veitingastaðinn og þyrftu þar af leiðandi að bíða eftir matnum (og tíminn sem fólkið bíður eftir matnum myndi aukast), en ekki heldur of seint því þá gæti maturinn orðið kaldur á leið á áfangastað.

Þeir styðjast við svokallaða ,,map-routing algorithms” til að þetta verði sem hagstæðast og best heppnað fyrir alla.UberEATS er nú aðgengilegt í 70 borgum í Norður-Ameríku, 4 borgum í Suður-Ameríku, 46 borgum í Evrópu, 12 borgum í Ástralíu og Nýja Sjálandi, 10 borgum í Asíu og 2 borgum í Afríku.

Höfundur: Auður Björk Aradóttir

Heimildir:
Uber Just Launched Its Food-Delivery UberEATS App in First US Cities. Davey Alba.[Rafrænt] af https://www.wired.com/2016/03/ubereats-standalone-app-launches-us/ Sótt 23. september 2017.
UberEATS. [Rafrænt] Af: http://www.alvia.com/service/ubereats/ Sótt 23. september 2017.
Uber's GrubHub killer is finally in the US — here's the inside story on its big bet on food. Biz Carson. [Rafrænt] Af: http://uk.businessinsider.com/why-uber-launched-uber-eats-2016-3?r=US&IR=T Sótt 23. september 2017.
About UberEATS. [Rafrænt] Af: https://about.ubereats.com/ Sótt 23. september 2017.

Skoðað: 2505 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála