Skip to main content
21. september 2017

Spilar þú Planning Poker leikinn?

04 LogiPlayingPlanning Poker hefur átt upp á pallborðið í hugbúnaðargerð með Scrum aðferðafræðinni og þar hefur leikurinn einnig verið kallaður Scrum Poker. Leikreglurnar geta skolast til og sú staða komið upp að aðferðin sé ekki er notuð rétt sem leiðir til óánægju með að meta verkefni. Því er gott að rifja leikinn upp reglulega og fara yfir “leikreglurnar” til að sjá hvort það sé eitthvað sem megi leiðrétta.

Hvað er Planning Poker

Planning Poker er aðferð, eða leikur, til að fá sameiginlegt mat á stærð verkefnis með því að búta það niður í hluta, meta hvern og einn og enda með heildarmat. Matið auðveldar áætlanagerð og mælingar á framgangi verkefnisins á verktíma. Matið fer þannig fram að hverjum hluta gefin eining sem við köllum punkta (einnig kallaðir sögupunktar (e. Story Points)). Þessir punktar eru aðeins hugsaðir til að flokka miðað við aðra hluta í verkefninu með einingum sem ekki tengist tímatali í klukkutímum eða dögum. Þannig frelsum við alla frá því að hugsa um tíma og getum einbeitt okkur að því að njóta þess að spila leikinn.

Hvernig er Planning Poker spilaður?

Allir leikmenn hittast og fá spil sem yfirleitt hafa tilteknar tölur, til dæmis 0, 1, 2, 3, 5, 8, 13, 20, 40, 100. Þetta er aðferð til að fá hlutana flokkaða í tiltekna stærðir sem eru takmarkaðir af þeim spilum sem eru notuð. Einnig er hægt að spila með færri stærðir til að meta grófar og hraðar, eða til dæmis meta aðeins í þremur stærðum: Lítið, Miðlungs og Stórt.
Í upphafi er einn hluti valinn sem grunnur og honum gefinn punktafjöldi sem allir eru sammála um. Passið hér að velja auðskilinn hluta, sem lítil sem engin óvissa er um, þannig að grunnurinn sem upphaflega er miðað við sé góður.

Þá er hægt að byrja að spila:
1. Hluti sem á að meta er útskýrður og rætt um hann - munið að taka inn sjónarmið allra
2. Allir velja spil - miðað við þá hluta sem liggja fyrir og er búið að meta
3. Allir sýna samtímis - passið að allir séu tilbúnir áður en að byrjað er að sýna svo enginn velji út frá hinum
4. Ef allir eru með sama matið þá er sameiginlegt mat á þeim hluta komið - annars er mismunurinn ræddur og spilað aftur þar til allir eru sammála

Hvað svo?
Heildarmat verkefnisins liggur nú fyrir og þegar byrjað er að vinna í verkefninu lærist hversu hratt punktarnir klárast. Hraðinn sem að punktarnir klárast, eða vinnuhraðinn er kallaður brennsla (e. Velocity). Brennslan er mæld á tilteknum tímabilum. Í upphafi er hægt að giska á hana en síðan liggur hún fyrir í lok hvers tímabils og meðaltal myndast með tímanum sem verður sú brennsla sem hægt er að miða við.

Nýjir hlutar geta bæst við verkefnið og þá er gott að nota alltaf sömu aðferð við að meta og áður því þá er samræmi í matinu á öllum hlutum.

01 Cards

Með heildarmati (ásamt nýjum hlutum) og brennslu er hægt að fylgjast með framvindu verkefnisins og bregðast við ef þarf út frá þeim upplýsingum.

Hvað skal varast?

  •  Ekki nota stærðareiningu sem hefur beina tilvísun í raunverulega vinnu, t.d. klukkutíma eða daga. Við viljum geta spilað leikinn án þess að vera að hugsa hversu mikinn tíma hlutar taka.
  • Best er að meta aðeins eitt verkefni í einu og leyfa þeim punktum að vera óháðum öðrum verkefnum. Ef samræma á mat milli verkefna, eða spila um mörg verkefni í einu, reynið þá að passa að notast við eins líkan grunn til viðmiðunar eða miða við hluta úr því verkefni sem er verið að samræma við í upphafi.
  • Ekki velja stóra eða flókna sögu sem grunn því að mikilvægt er að allir nái utan um að skilja grunnsöguna þannig að matið á henni sé nokkuð skýrt í hugum allra.
  • Ekki endurmeta sögur með annarri aðferð ef eitthvað er ekki að ganga upp á verktímanum, metum alltaf miðað við aðra verkhluta til að halda samræmi milli hvernig allt var metið.

Þarf að meta allt verkefnið?

Ef það á að gera áætlanir og mæla framvindu verður að hafa eitthvað til að mæla. Gott er að stilla verkhlutunum upp þannig að þeir séu stórir í upphafi og hægt að meta þá grófar. Þá hluta sem á að byrja á er hægt að brjóta niður í minni hluta og hittast og meta þá fyrst. Heildarmatið getur því tekið breytingum ef að verkhlutar eru brotnir niður. Til þess að gera þetta getur verið gott að gera skýrar greinarmun á stærra matinu og því ítarlegra.

Playing hands above

Til dæmis má gera stærra matið með stærðunum Stórt, Miðlungs og Lítið og síðan þegar farið er að meta þá vinnu sem er verið að fara í er hægt að fara í punktana. Þá er öllum ljóst að ef að hluti er metinn á Stórt þá á eftir að brjóta það meira niður. Þannig er hægt að byrja vinnuna á því sem er búið að brjóta meira niður í minni hluta og hittast svo reglulega og halda áfram að fá skýrari mynd.

Hvenær á að spila Planning Poker

Hvenær sem þörf er á að meta einhvern hluta. Ef eitthvað er ómetið í verkefninu er tilefni til að hittast og spila. Gott getur verið að hittast regulega og fara yfir það sem er ómetið eða næst á dagskrá og kalla fram umræður og hugmyndir.

Planning Poker er verkfæri sem nauðsynlegt er að vita hvenær og hvernig á að nota. Það er hægt að finna aðrar leiðir til að meta og kalla fram sameiginlegan skilning og því er gott að nota það sem hentar hverju sinni.

Þó að takmarkið sé að meta verkefni þá eru samskiptin eitt það mikilvægasta sem leikurinn kallar fram. Staður þar sem óhindruð samskipti og hugmyndir fá hljómgrunn eru ómetanlegur ávinningur þess að spila leikinn.

Plannig Poker má spila til að meta hvers konar verkefni og er hægt að spila með alls kyns spilum, fingrum á höndum, benda á númer á blaði eða nota hugbúnað sem líkir eftir spilum. Það er samt alltaf skemmtilegra að sitja saman á fundi sem er kallaður Planning Poker með spil milli fingranna og halda þeim leyndum (eins og í póker) þangað til að allir sýna og eiga góðar samræður um væntanleg verkefni.

Hvar fæ ég Plannig Poker spil?

Agilenetið hefur útbúið og látið prenta spil sem hægt er að nálgast með því að hafa samband við félagið á heimasíðu félagsins; agilenetid.is.

Höfundur: Logi Helgu, ScrumMaster hjá Novomatic Lottery Solutions, Formaður Agile Netsins, agile.logihelgu.com

Skoðað: 2030 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála