Hvers vegna er WordPress til á íslensku?
WordPress er útbreiddasta vefumsjónarkerfi í heiminum og líklega kannast flestir lesendur Tölvumála við kerfið. Fyrirtækið á bak við WordPress, Automattic, er með um 500 starfsmenn frá 57 löndum þar sem töluð eru 69 tungumál. Síðustu fimm ár hefur Egill Rúnar Erlendsson starfað hjá fyrirtækinu og nýlega bættist annar Íslendingur í hópinn. Tölvumálum lék forvitni á að vita nánar um starfsemi WordPress hér á landi og ekki síst að fá að heyra um það starf sem unnið hefur verið við þýðingar á kerfinu og því var tekið viðtal við Egil Rúnar Erlendsson, kóðasmið og auglýsingastjór hjá Automattic..
Hver er maðurinn og hvað gerirðu hjá Automattic?
Egill Rúnar Erlendsson heiti ég, kem úr Reykjavík en bý á Reykhólum og hef starfað síðastliðin fimm ár hjá fyrirtæki sem heitir Automattic (automattic.com). Stærsta verkefnið okkar er að þróa og reka WordPress.com, sem er hýst útgáfa af vefumsjónarkerfinu WordPress. Sjálfur hef ég aðallega séð um að halda utan um þau kerfi sem snúa að birtingu á auglýsingum hér og þar á netinu, en fjöldi birtinga í hverjum mánuði hlaupa á milljörðum. Þess fyrir utan hef ég reynt að leggja mitt af mörkum við þróun og þýðingu á WordPress, ásamt því að reyna að svara fyrirspurnum og aðstoða íslenska notendur eftir bestu getu.
Hvernig er staða WordPress hér á landi?
Vefumhverfið á Íslandi er dálítið sérstakt, ég hef a.m.k ekki fundið neina hliðstæðu í löndunum í kring. Flestir vefir hafa keyrt á kerfum sem smíðuð eru hér innanlands, oft hefur verið grínast með íslenska vefforritara þannig að hver einn og einasti hafi í það minnsta skrifað eitt vefumsjónartól á ævinni. Það hefur því verið lenska að líta niður á WordPress en ég finn að það er að breytast.
Hvað markaðshlutdeild varðar þá þekki ég ekki til hennar, veit ekki til að það hafi verið gerð nein rannsókn á henni hér innanlands. Á heimsvísu er talað um að hátt í 27% allra vefja séu knúðir af WordPress (skv. mælingum frá W3Techs), þá er miðað við 10 milljón vinsælustu vefina á heimsvísu (m.v. tölur frá Alexa.com).
Við höfum tölur um niðurhöl bæði á íslensku þýðingunni og WordPress á íslensku, en WordPress á íslensku hefur verið halað niður 1.500 sinnum frá því að útgáfa 4.6 af WordPress kom út og þýðingarnar yfir 5 þúsund sinnum. Það segir okkur ekkert um hlutdeild eða fjölda vefja, en það gefur okkur einhverja hugmynd um að þýðingarnar okkar séu í notkun..
Hvers vegna er kerfið þýtt á íslensku?
Það er líklega engin ein ástæða fyrir því, einhver byrjaði þar sem dagsetningar í kerfinu birtust ekki rétt. Síðan var bætt við þá vinnu, hægt og rólega. Hvað sjálfan mig varðar þá fóru sumar þýðingarnar í taugarnar á mér, ég fór að laga þær og eftir það varð ekki aftur snúið. Hver sem er getur tekið þátt í að þróa og þýða WordPress, frumkvæðið hefur verið alfarið frá notendum en mér telst til að u.þ.b. 50-60 manns hafi tekið þátt í að þýða WordPress yfir á íslensku frá upphafi.
Í dag er heilt samfélag á heimsvísu sem vinnur að þýðingum á WordPress, fólk er hvatt áfram af öðrum notendum til þess að tryggja að móðurmál þeirra haldi áfram að fylgja WordPress beint úr kassanum. Hópurinn, sem er mjög óformlegur, setur sér markmið um fjölda tungumála í hverri útgáfu.
Hægt og rólega hefur þetta orðið að ákveðnu kappsmáli, að passa upp á að við dettum ekki út úr neinni útgáfu.
En skilja ekki allir Íslendingar ensku?
Jú flestir Íslendingar skilja hana upp að vissu marki. Kannski er það aldurinn, en mér þykir fallegra að tala um viðbætur, skapalón, notendur og lykilorð frekar en plöggin, templeit, júsers og passvörd. Ég er í það minnsta ánægður með að við erum komin álíka langt með þýðingarnar eins og t.d. Danir.
Leggur Automattic áherslu á að kerfið sé aðgengilegt á öllum tungumálum? Eða er þetta frumkvæði frá Íslendingum?
Yfirlýst markmið Automattic er að gera öllum kleift að birta efni á vefnum, óháð tekjum, kyni, stjórnmálaskoðunum, tungumálum eða staðsetningu. WordPress á sig hins vegar sjálft og Automattic sem slíkt hefur engin bein áhrif á það hvernig kerfið þróast eða hvernig sú vinna fer fram. Hins vegar leggjum við metnað í að styðja við WordPress, hvort sem það er með því að taka þátt sem sjálfboðaliðar við þróun, skjölun og þýðingu á kerfinu, halda fyrirlestra, eða einfaldlega svara fyrirspurnum á netinu.
Frumkvæðið að íslensku þýðingunni er því algjörlega Íslendinga, en óbeint stuðlar Automattic að þýðingunni með því að gefa mér tækifæri til þess að vinna að henni þegar þess þarf.
Hvernig heldur að þróunin verði, er aukinn kraftur í þýðingarstarfinu eða dvínandi?
Þróunin hefur því miður verið sú að færri einstaklingar þýða meira. Þörfin og eftirspurnin er klárlega til staðar ef við miðum við tölur um niðurhal á þýðingum. Þar sem þetta er orðinn hluti af kerfinu þá ímynda ég mér að fæstir geri sér grein fyrir því hvaða vinna liggur á bakvið. Ég hugsa að flestir hafi skilning á því að þetta sé nauðsynlegt en á sama tíma hugsa ég að ef þýðingin væri ekki til staðar þá værum við líklega með allt á ensku.
Viðtalið tók Sigurjón Ólafsson
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.