Skip to main content
9. mars 2017

Upplýsingatækni í skólum – Viðtal við kennara

k1Okkur langaði að kynna sér betur nýtingu upplýsingatækni í skólum og langaði að fá að heyra sjónarmið kennara. Því það gagnast lítið að vaða bara af stað með innleiðingu og stefnur án þess að heyra frá þeim sem virkilega koma til með að nýta sér hugmyndirnar. Við tókum því viðtal við grunnskólakennarann Ingu Margréti Skúladóttur sem hefur starfað sem kennari í 25 ár og sér núna um námsver í Grunnskólanum í Borgarnesi sem var opnað árið 2015. Námsverið er hugsað sem eins konar griðastaður fyrir nemendur til að koma og geta lært án áreitis. Það fannst okkur hljóma eins og góður staður þar sem hægt væri að prófa sig áfram með nýtingu upplýsingatækni í námi og vildum því vita meir um það.

Fyrsta spurningin var: Geturðu útskýrt örlítið starfsemina í Námsverinu og hugmyndina á bakvið það?

Námsverið er hugsað fyrir unglingadeildina, 8 - 10.bekk. Öll almenn sérkennsla úr þessum árgöngum var sett í það og eru 2 kennarar sem kenna í því, en alltaf einn í hverjum tíma. Námsverið er hugsað bæði fyrir sérkennslunemendur og bráðgera nemendur. Nemendur sem eru með einhverfugreiningar fá svo aukinn stuðning í Kletti, sem er þroska og hegðunarver fyrir 1 - 9 bekk. Námsverið er opið alla þá tíma sem kennslustundir eru í unglingadeildinni og þangað geta kennarar sent þá nemendur sem þeir vilja. Sumir nemendur koma oft og reglulega en aðrir þegar þeir þurfa tímabundna aðstoð. Einnig nota umsjónarkennarar verið til að senda nemendur til að taka próf ef þeir eru einhverra hluta vegna á eftir. Í verinu er aðstoð við allar almennar námsgreinar, en mest samt aðstoð í stærðfræði og íslensku.

Hversu vel hefur þetta virkað fyrir nemendur með lélegan árangur?

Flestu leyti vel, nemendur hafa verið ánægðir að koma og fá meiri aðstoð, en umsj.kennarar geta veitt í stórum hópi. Einnig finnst þeim gott að komast í meiri frið, en hámark í hverjum tíma eru 10 nemendur í Námsverið. Reynt er að hafa Námsverið notalegt, og eru t.d. 2 gamlir sófar þar, sem nemendur geta notað t.d. þegar þeir eru að lesa. Notalegt umhverfi skiptir miklu máli. Hversu vel hefur þetta virkað fyrir nemendur sem eru að standa sig betur en flestir aðrir? Bráðgerir nemendur hafa líka verið ánægðir en mættu nýta sér það betur.

Hvað finnst þér verst við aukna notkun nýrra tækja (s.s. snjallsíma) hjá nemendum?

Misnotkun nemenda á snjallsímum. Þarf að fylgja vel eftir reglum um notkun þeirra. Einnig er þetta mikill tímaþjófur og dregur úr almennum samskiptum milli nemenda. Stundum í frímínútum er 90 - 95 % nemenda í símanum og því ansi lítil samskipti. Kennarar þurfa að kenna nemendum í auknum mæli að nota símana sína til upplýsingaöflunar og sem kennslutæki, en ekki eingöngu tæki til afþreyingar. Oft eru nemendur með dýr og flott tæki í höndunum sem eru alltof mikið eingöngu notuð til afþreyingar.

Finnst þér kennarar fá næga þjálfun í upplýsingatækni til þess að nýta það í kennslu?

Nei svo langt því frá. Kennararstéttin er orðin frekar gömul og þarf því að endurmennta kennara í tækjum og tólum, uppfæra miklu meira en gert er.

Hver finnst þér vera mesta hindrunin við að grunnskólar geti notað framúrskarandi upplýsingatækni- og tól?

Vanbúnaður skóla á nettengingu sem og öðrum tækjakosti. Alltof mikið af gömlu og úreldum tækjum. Ef nemendur ætla síðan að nota snjalltækin sín þá er nettenging skólans ekki nógu góð.

Hvað er það sem þú myndir vilja sjá bætt í menntakerfinu (varðandi upplýsingatækni)?

Miklu betri nettenging, betri tækjakostur og mun betri þjálfum á tiltölulega gömlum kennurum, sem margir hverjir hafa litla sem enga tölvukunnáttu. Einnig þarf að hafa tölvuumsjónarmann sem er vakandi yfir nýjungum og kynna fyrir almennum kennurum. Einhvern sem getur leiðbeitt og þjálfað kennara og að allur búnaður sé í lagi þegar umsj.kennarar ætla að nýta sér tæknina, því oft fer alltof mikill tími í að koma tækjum í gang og tengja allt svo það virki. Almennt eru skólar ekki með nógu góða og hraða nettengingu fyrir það starf sem oft er ætlast til að unnið sé í skólanum. Einnig þarf að auka meira flæði milli skólastiga, bæði leik - grunn og framhaldsskóla. Það sem vakti sérstaka athygli skýrsluhöfunda er af hverju skólar nýta sér ekki betur persónulegan tækjabúnað nemenda. Nemendur koma sjálfir með rándýr tæki í skólann, t.d. snjallsíma og spjaldtölvur, en skólarnir nýta sér þetta ekki. Það gæti verið góð lausn miðað við hvað skólar eru fjársveltir. Einnig veltum við fyrir okkur stöðu tölvuumsjónarmanns. Af hverju eru grunnskólar ekki að nýta sér allan þann fjölda af nýútskrifuðum tölvunarfræðingum og ráða þetta fólk til sín sem tölvuumsjónarmenn. Þannig fengju skólarnir ferskt og áhugasamt fólk í þessar stöður sem gætu komið með nýjar lausnir fyrir skólana.

Viðtalið tóku: Darri Ragnarsson og Guðrún Ingadóttir nemendur í Háskólanum í Reykjavík

tveir

Skoðað: 2018 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála