Skip to main content
9. febrúar 2017

Kóðinn 1.0

kamila og hildurÁrið 2016 hleypti BBC af stokkunum verkefninu Micro:bit. Það fól í sér að öll börn á aldrinum 12-13 ára fengu gefins litla forritanlega vasatölvu með innbyggðum áttavita, bluetooth tækni, hreyfiskynjara og 25 rauðum LED ljósum sem geta birt ýmis skilaboð. Tilgangur verkefnisins var að virkja sköpunargleði barna og kynna þau fyrir grunnþáttum forritunar. Það er skemmst frá því að segja að verkefnið hlaut góðar viðtökur.

Á síðasta ári, í samvinnu við mennta og menningarmálaráðuneytið, Menntamálastofnun og Samtök iðnaðarins, stóð Krakka-RÚV fyrir forritunarleik sem ætlaður var fyrir börn í 6. og 7. bekk. Þau nota við Micro:bit smátölvuna frá BBC og RÚV setur vikulega fram ný verkefni ásamt ýmsu fræðsluefn.

Á heimasíðu verkefnisins, sem á íslensku hefur fengið nafnið Kóðinn 1.0, er fjallað um að samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla sé forritun einn af þeim hæfnisþáttum sem börn eiga að vera búin að kynna sér við lok grunnskóla og að börn eigi að vera búin að öðlast þekkingu sem gerir þeim kleift að nýta hugbúnað við forritun og miðlun þekkingar á fjölbreyttan og skapandi hátt. Það eru skiptar skoðanir á því hversu vel þessu er fylgt eftir en hingað til hefur vantað töluvert uppá skipulagða forritunarkennslu í grunnskólum.

Kóðinn 1.0 er flott framtak og skref í rétta átt en til þess að öðlast betri innsýn í verkefnið tókum við viðtal við Benedikt Bessa Gunnarsson, nemenda í 7. bekk Setbergsskóla og þátttakanda í kóðanum 1.0.

Við spurðum hann fyrst: Hvernig finnst þér verkefnið Kóðinn 1.0?
Það er mjög skemmtilegt.
Hvernig verkefni hefurðu unnið á Micro:bit smátölvunnni?
Aðallega frekar einföld verkefni. það er 5x5 led skjár á Micro:bit og við létum t.d. hjarta og broskall blikka á skjánum. Svo höfum við gert tening en þá hristir maður tölvuna og hún birtir alltaf einhverja tölu frá 1 til 6.
Myndirðu vilja vinna fleiri svipuð verkefni?
Já endilega, Micro:bit er mjög skemmtileg og ég væri til í að vinna meira í henni í skólanum.
benediktMyndirðu vilja frekari kennslu í forritun?
Já endilega, það væri æðislegt. Ég væri til í að læra að nota Unity eða læra alvöru forritun. Ég væri til í að kennslan næði til næsta stigs, en Micro:bit er mjög einfalt og góð byrjun.
Var eitthvað sem hefði mátt gera betur að þínu mati?
Mér fannst verst hvað við fengum að gera lítið, við fengum aðvinna u.þ.b. 5 verkefni á Micro:bit en miðað við heimasíðuna er hægt að gera miklu meira með kubbinn. Mörg okkar prófuðum líka að gera ýmis verkefni sjálf.
Hvernig fannst þér kennslan ganga? 
Kennarinn kunni grunninn í kringum Micro:bit en þegar við vorum búin að nota tölvuna í einhvern tíma voru sumir í bekknum orðnir miklu betri en kennarinn. 
Hvernig myndi forritunarkunnátta nýtast þér? 
Ég myndi búa til tölvuleiki, helst mobile leiki.
Er eitthvað sem þú vilt segja um Micro:bit að lokum? 
Það er genius forritunartæki.

Forritunarleikunum lýkur 15. maí næst komandi og það er greinilegt að verkefnið fær góða dóma hjá yngri kynslóðinni. Vonandi verður verkefnið til þess að hvetja til frekari forritunarkennslu í grunnskólum.
Það er kominn tími til að við nálgumst forritunarkennslu á nýjan hátt,en eins og Sinead Rocks yfirmaður BBC learning sagði þá finnst okkur sjálfsagt að gefa ungum börnum pensla og liti án nokkurs fyrirvara og leyfum þeim að uppgötva og skapa á eigin forsendum. Kannski er kominn tími á sömu nálgun þegar kemur að tækninni.

Þeir sem vilja fræðast meira um verkefnið geta skoðað vefi BBC og Krakka-RÚV hér http://krakkaruv.is/heimar/kodinn og http://www.microbit.org/about/

Höfundar: Hildur Nanna Eiríksdóttir og Kamilla Guðmundsdóttir nemendur við Háskólann í Reykjavík

 

Skoðað: 2867 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála