Tækni og Íslenskt mál
Ég er mikil áhugamanneskja um og hef alltaf haft metnað til að tala hreina og góða íslensku. Ég hef á mínum 37 árum sjaldan átt í erfiðleikum með þetta. Þar til að ég fór í tölvunarfræði. Nánast öll fagorð eru á ensku. Ég heyri til sjálfrar mín segja setningar eins og „við notum mock server“ og „er ekki síðan retró á föstudaginn“. Ég er ekki hrifin af þessu en hef komist að því að það tekur mig langan tíma að finna íslensku orðin við ensku fræðiheitin og fæstir skilja mig þegar að ég legg mig fram um að nota þau íslensku og neyðist til að endurtaka þau á ensku. Ætli skýringin sé að fólk annaðhvort gefst upp í baráttunni við tækniorðin eða hefur ekki metnað í að reyna.
En er þetta vandamál? Er þetta kannski eðlileg þróun á tungumáli? Er þetta vonlaust stríð? Ég vil leyfa mér að neita því. Íslenska er okkar menningararfur og okkur ber skylda til að varðveita hana. Þó svo að íslenska sé töluð af litlum hópi er hún ekki talin í útrýmingarhættu. Þess fyrir utan er hún mjög fallegt tungumál og ekki er ég hlutdræg.
Ég er stórhrifin af því þegar íslenskir kennarar við háskóla gera sér far um að íslenska og nota íslensk orð sbr. Björn Þór Jónsson við Háskólann í Reykjavík sem lét fylgja með gagnasafnsfræðiáfanga, orðasafn, þar sem íslensk orð voru sett við þau ensku sem notast var við í faginu og gerði sér far um að hafa þau á íslensku í fyrirlestrum sínum. Hann er ekki eina dæmið sem að ég veit um.
Ef að við horfum á aðrar greinar sem innihalda mörg fagorð mætti taka stærðfræðina til athugunar. Stærðfræði sem fagmál er gott dæmi um grein sem tekist hefur að íslenska með ágætum. Hún er orðin gamalgróið fag og eru flest orð þar búin að festa sig í sessi sem íslensk. Afleiður, hornafræði og ummál eru dæmi um orð sem eru miklu sætari og tunguvænni á íslensku en þau ensku „derivative“, „trigonometry“ og „circumference“. Hins vegar eru leiðindaorð sem hafa slæðst á milli og eru notuð eins og algebra en það er erfitt að vinna stríð þá að stakar baráttur vinnist.
Það sem helst angrar tölvunarfræði að mínu mati er að nánast allt efni sem fólk les er á ensku. Það svarar ekki kostnaði að þýða allt efni á íslensku fyrir svo fámennan hóp. Þar að auki er flestar greinar á veraldarvefnum á ensku. Eins er þróunin svo hröð og nýju orðin svo mörg að hin ágæta stofnun Árnastofnun hefur ekki undan að þýða. Þetta er þó ekki alveg tapað, því að mörg orð eru á góðri leið að festa sig sem íslensk. Orð eins og stýrikerfi, vafri, þjónn, tölvupóstur, skilaboð, tíst, klasi, fall og breyta eru dæmi um ágæta íslenskun sem ég heyri notaða í kringum mig.
Spurning sem margir spyrja er hvort að það flæki ekki málin að vera með tvö tungumál tengd tölvunarfræði í gangi. Aftur neita ég því. Það er lítið mál fyrir meðalmanninn að læra tvö tungumál og fara rétt með bæði.
Með áhugasömu og metnaðarfullu fólki sem er tilbúið að leggja á sig að finna og nota íslensk orð, hvort sem að þau eru íslenskuð eða tekin og aðlöguð að íslenskunni, er alveg gerlegt að elta tækninþróun og finna góð orð. Þar spila kennarar innan háskólans stórt hlutverk sem uppalendur tölvunarfræðinema í íslensku tölvufræðitungumáli.
Héðan í frá mun ég taka mig á og nota sýndarþjón og fara á endurlitsfundi á föstudögum. Skítt með þá sem ekki skilja mig.
Höfundur: Eva Símonardóttir nemandi við Háskólann í Reykjavík
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.