Skip to main content
9. júní 2016

Hönnunarlýsingar (e. Design Patterns) í hugbúnaðargerð

Ingþór júlíusson 265Hjá Reiknistofu bankanna (RB) starfa um 70 manns á hugbúnaðarsviði og eru mörg þróunarteymi að störfum hverju sinni.  Tækniumhverfið er einnig ansi viðamikið þar sem bæði er verið að viðhalda eldri lausnum, útfæra nýjar lausnir og innleiða aðkeyptar lausnir.  Til að flækjustigið verði ekki of mikið í útfærslu, viðhaldi og rekstri á öllum þeim lausnum sem er verið að vinna með þá var tekin ákvörðun fyrir nokkrum árum um að útbúa fyrirfram skilgreindar hönnunarlýsingar og ýmis sniðmát (e. Design Patters and Templates) sem eru notuð þvert á teymi og lausnir.

Aukin skilvirkni og rekstraröryggi
Markmiðið með fyrirfram skilgreindum hönnunarlýsingum og sniðmátum er að auka skilvirkni í hugbúnaðargerð, samræma útfærslur lausna til að auka rekstraröryggi og tryggja að unnið sé eftir sameiginlegri tæknistefnu innan RB til að minnka flækjustig (e. technical debt).  
Búið er að staðla og útfæra fyrirfram tengingar við aðgangskerfi,  rekstrareftirlitskerfi, gangrita, gagnagrunna, villumeðhöndlun, nafngiftir, uppbyggingu á einingum, stílsnið, útlit á veflausnum, skjölun og margt fleira.  Nátengt þessu eru síðan ITIL ferlar notaðir fyrir útgáfustýringu og gangsetningar og devops aðferðafræði fyrir t.d. sjálfvirkni (e. automated build and deployment). Mikið af sniðmátum eru útfærð sem template í Microsoft Visual Studio og TFS fyrir útgáfuferli en einnig eru notuð stoðkerfi frá aðilum eins CHEF, GitHub og Grafana.  Forritari getur því strax farið að einbeita sér að útfærslu á viðskiptavirkni því það er fyrirfram búið að hanna og útfæra allt sem snýr að tæknilega umhverfinu (e. platform).

Stjórnskipulagið við gerð hönnunarlýsinga
Stjórnskipulagið til að útfæra og viðhalda hönnunarlýsingum og sniðmátum á markvissan hátt er heilmikil pæling og RB hefur prófað ýmsar útfærslur í gegnum árin.  Það hefur þó ávallt reynst best þegar þeir starfsmenn sem eru  áhugasamir um nýsköpun og gæði, hver í sínu fagi, taka hlutverkin til sín með tíð og tíma og verða þar með sjálfsskipaðir í að bera ábyrgð á skjölun og að búa til vettvang þar sem allir starfsmenn þvert á teymi hjálpast að við að finna upp þær útfærslur sem henta best hverju sinni. RB ákvað að gera þetta að formlegu hlutverki innan fyrirtækisins og er þetta kallað að vera tæknistjóri (e. Technical Lead).  Þannig geta áhugasamir starfsmenn haft veruleg áhrif á tækniumhverfið með því að taka þátt á þessum vettvangi. Til viðbótar við að útbúa hönnunarlýsingar þá er kennsla einnig hluti af starfi tæknistjóra sem eru yfirleitt reynslumiklir starfsmenn sem aðrir forritarar leita til eftir upplýsingum og aðstoð. Auk þess er þróun og viðhald á ýmsum stoðkerfum og umhverfum (e. platform) einnig hluti af þeirra starfi.

Hjá RB eru tæknistjórar innan hugbúnaðarsviðsins fyrir:
•    Vefviðmót
•    Vefþjónustulag
•    Stoðþjónustur og tengingar
•    Gagnagrunnar
•    Þróunarumhverfi  .Net
•    Þróunarumhverfi Stórtölvu
•    Þróunarumhverfi Java

Jafnframt eru tveir fagstjórar sem hafa umsjón með framþróun á Agile annars vegar og prófunum hins vegar.

HönnunMynd1arlýsingar hluti af Gæðahandbók
Þegar búið er að útbúa hönnunarlýsingar þá er mjög mikilvægt að þær séu geymdar á miðlægum stað og öllum vel aðgengilegar.  Því var farin sú leið að innan RB að hafa þetta sem hluta af Gæðahandbók RB sem inniheldur einnig heildar upplýsingaöryggisstefnu sem fyrirtækið hefur sett sér í formi verklagsreglna og vinnulýsinga.  Hönnunarlýsingar eru því hluti af vinnulýsingum í gæðahandbók til að tryggja að hlutirnir séu útfærðir á öruggan og samræmdan hátt. Þannig hjálpa hönnunarlýsingar til með að gera gæðahandbók RB að lifandi plaggi sem endurspeglar og styður við þá vinnuferla sem notaðir eru og nýtast starfsmönnum í þeirra vinnu.

Góð reynsla
RB hefur hafið endurnýjun helstu grunnkerfa sem nær til innlána- og greiðslukerfa þar sem gömlum sérhönnuðum kerfum er skipt út fyrir staðlaðar alþjóðlegar hugbúnaðarlausnir. Samhliða því er RB að byggja upp tölvuský fyrir íslensk fjármálafyrirtæki í kringum þessi grunnkerfi RB þar sem tryggð verða stöðluð þjónustu- og gagnaskil. Markmið endurnýjunarinnar er að auka hagræði og draga úr kostnaði við rekstur upplýsingakerfa bankanna.
Fyrirfram skilgreindar hönnunarlýsingar í hugbúnaðargerð hafa reynst mjög vel hjá RB í þessari miklu þróunarvinnu undanfarin ár og skilað verulegum árangri í þekkingarmiðlun og til að auka gæði í hugbúnaðargerð.   Samræming er mjög mikil milli forritara og þróunarteyma og nýir starfsmenn, verktakar og samstarfsaðilar eru fljótir að nýta sér þessar lýsingar og byrja að skila góðum afköstum hratt.  Með markvissri vinnu í gerð hönnunarlýsinga hefur einnig myndast fyrirtækjamenning sem gengur út á að deila upplýsingum milli teyma og samnýta sem mest af aðferðum sem er sjálfsagt mikilvægast af öllu þegar upp er staðið til að auka gæði og skilvirkni.

Höfundur Ingþór Guðni Júlíusson, Forstöðumaður Hugbúnaðarþróunar hjá RB

Skoðað: 2131 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála