Skip to main content
31. mars 2016

Grunnþekking í tæknigreinum

mynd31marsTækninám á borð við tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði hefur aukist til muna í háskólum landsins síðastliðin ár og má líklegast rekja þá aukningu til mikils framboðs á atvinnu tengdum slíkum greinum bæði hér á Íslandi sem og erlendis. Í háskólanáminu má sjá fólk úr mörgum áttum, þar hafa sumir góða reynslu á forritun á meðan aðrir eru að hefja námið frá grunni og hafa litla sem enga þekkingu á forritun. Tæknigreinar eru krefjandi nám og er til mikils ætlast af nemendum, líkt og í öðru háskólanámi. Það sem skilur þó tæknigreinarnar að frá öðrum námsgreinum er takmarkaður aðgangur að grunnkennslu í forritun sem er oft æskilegt undirbúningsnámi fyrir háskóla.

Inngönguskilyrði fyrir tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík krefjast þess að nemendur hafi lokið stúdentsprófi og einnig er æskilegt að hafa haldgóða þekkingu á stærðfræði en hvergi er gerð krafa fyrir þekkingu í forritun [1].  Grunnatriði hvers áfanga eru tekin fyrir í háskólanum en þó getur reynst erfitt fyrir nemendur að ná haldbæru taki á grunninum því að yfirferðin er hröð ef þeir hafa ekki einhvern grunn fyrir. Kennarar fá lítinn tíma til að komast yfir mikið efni og getur það valdið því að nemendur flosna upp úr náminu.

Síðustu árin hafa nokkrir framhaldsskólar landsins reynt að bæta þetta bil upp með því að bjóða upp á áfanga þar sem grunnur tæknigreina er kenndur. Tölvubraut Tækniskólans og Fjölbrautaskóla Suðurnesja(FSS) hafa skarað fram úr á því sviði en stúdentspróf þaðan gefur góðan grunn fyrir framhaldsnám í tæknigreinum. Báðir skólarnir bjóða uppá kennslu í hinum ýmsu fögum sem öll veita góðan grunn í tæknigreinum á borð við forritun, vefforritun og gagnasafnsfræði [2] [3].

Háskólann í Reykjavík hefur, í samstarfi við Tækniskólinn og Háskólann á Akureyri, staðið að árlegri forritunarkeppni framhaldsskólanna til þess að gefa nemendum tækifæri á að spreyta sig í forritun. Fyrsta keppnin var haldin 2009 og síðan þá hefur keppnin stækkað með ári hverju. Allir framhaldsskólanemar mega taka þátt, hvort sem þeir kunna forritun eða ekki og er keppninni skipt niður í þrjú erfiðleikastig þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Markmið keppninnar er að kynna forritun fyrir framhaldsskólanemendum og hvetja þá til að skoða háskólanám í tæknigreinum [4].

Þrátt fyrir þessa jákvæðu umfjöllun og mikla aukningu á áhuga á framhaldsnámi í tæknigreinum hafa einungis tveir framhaldsskólar bætt forritun inn sem skylduáfanga, Tækniskólinn og FSS. Höfundar greinarinnar furða sig á þessu þar sem forritun er tungumál tækninnar og þörfin fyrir tæknimenntuðu fólki eykst með degi hverjum. Það ætti því að leggja jafn mikla áherslu á að kenna framhaldsskólanemendum forritun líkt og önnur fög.

Nú þegar framhaldsskólar eru farnir að bjóða uppá heilu námsbrautirnar tengdar tæknigreinum þá er spurning hvort það sé ekki kominn tími á að hefja líka forritunarkennslu í grunnskólum landsins. Brynhildur S. Björnsdóttir, varaþingkona og stjórnarformaður Bjartrar Framtíðar lagði fram tillögu til Alþingis 17.september 2015 þar sem hún lagði til að forritunarkennsla yrði innleidd í aðalnámskrá grunnskóla. Brynhildur er þeirrar skoðunar að börn séu orðin ágæt í tæknilæsi en í staðinn fyrir að vinna með tæknisköpunina sjálf þá séu þau orðin þiggjendur hennar. Hún vill jafnframt meina að skortur á tæknikennslu sé þess valdandi að nemendur velji aðrar námsgreinar fram yfir tæknigreinar vegna lítillar þekkingar. Nágrannalönd okkar hafa nú þegar sett forritun í aðalnámskrár sínar sem skyldufag og krefst Brynhildur að slíkt hið sama verði gert á Íslandi. Eftir ræðu Brynhildar á Alþingi lýsti menntamálaráðherra yfir mikilli ánægju með tillöguna og sagði að hún gæti vel orðið að veruleika [5] [6].

Þrátt fyrir litla sem enga tæknikennslu í grunnskólum landsins þá er verið reyna að kveikja áhuga hjá ungum krökkum með því að bjóða upp á forritunarkeppnir fyrir grunnskóla, fyrir reynda krakka jafnt sem og krakka sem vilja bara kynnast forritun. Tækniskólinn heldur keppnina Kóðun og gengur hún út á að nemendur koma saman og leysa forritunar verkefni. Forritunarklúbbur Tækniskólans heldur keppnina með hjálp frá fyrrum nemendum sem nú stunda nám við Háskólann í Reykjavík. Keppni sem þessi er vissulega skref í rétta átt hvað snertir að vekja áhuga á forritun hjá yngstu kynslóðinni en það er ekki nóg [7].

Ef að forritun á að komast inn í námskrá grunnskóla þá verður fyrst að sýna stjórnendum skólanna fram á mikilvægi forritunar. Þekking í forritun nýtist mjög vel og krakkar hafa almennt sýnt slíkri tæknikunnáttu mikinn áhuga þrátt fyrir að þeim sé ekki skylt að læra hana. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er staðreyndin sú að heimurinn er sífellt að tæknivæðast og ef að forritun er tungumál tækninnar þá er nauðsynlegt að kenna hana í grunnskóla til að gefa yngstu kynslóðinni sem besta forskotið á framtíðina.

Höfundar: Anton Marinó Stefánsson, Hrönn Róbertsdóttir og Sigrún Þorsteinsdóttir, nemednur við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá:
1. Tölvunarfræði almenn BSc. Háskólinn í Reykjavík . Sótt 23.febrúar 2016 af http://www.ru.is/td/tolvunarfraedi/tolvunarfraedialmennbsc/#tab2
2. Tölvufræðibraut (TFB) 116 ein. Framhaldsskóli Suðurnesja. Sótt 23.febrúar 2016 af http://fss.is/index.php/toelvufraedhibrauttfb2012116ein
3. Um námið. Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins . Sótt 23.febrúar 2016 af http://www.tskoli.is/skolar/upplysingataekniskolinn/umnamid/
4. Forritunarkeppni framhaldsskólanna. Háskólinn í Reykjavík . Sótt 23.febrúar af http://www.ru.is/forritun
5. Tillaga til þingsályktunar um forritun í aðalnámskrá grunnskóla. Alþingi. Sótt 23.febrúar af http://www.althingi.is/altext/145/s/0120.html
6. Björt framtíð vill að forritun verði skyldufag í grunnskólum. Björt framtíð. Sótt 23.febrúar af http://www.bjortframtid.is/blog/2015/09/17/bjortframtidvilladforritunverdikenndigrunnskolum/
7. Forritunarkeppni grunnskólanna. Kóðun . Sótt 23.febrúar af https://kodun.is/  Höfundar greinarinnar. Frá vinstri : Sigrún Þorsteinsdóttir, Hrönn Róbertsdóttir og Anton Stefánsson

Skoðað: 2436 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála