Skip to main content
11. febrúar 2016

Snapchat: Hvað er það?

Petraog audurSnapchat er snjallsímaforrit sem virkar þannig að notendur skiptast á að senda myndir og myndskeið sín á milli í allt að 10 sekúndur. Einnig er hægt að deila myndum og myndskeiðum í svokallaða “My Story”, en það er sýnilegt öllum sem eru vinir þínir á Snapchat í allt að 24 klukkustundir. Stofnendur Snapchat eru þeir Evan Spiegel, Bobby Murphy og Reggie Brown sem gerðu þetta forrit upphaflega sem skólaverkefni þegar þeir voru nemendur við Stanford háskóla. Snapchat var fyrst gefið út í apríl 2011 undir nafninu Picaboo en var síðar breytt í Snapchat. Fyrirtækið er metið á 10-20 billjónir dollara. Stofnendurnir eiga fyrirtækið sjálfir í dag en þess má geta að þeir höfnuðu til dæmis Facebook og Google þegar þessi stórfyrirtæki reyndu að kaupa Snapchat. Til að fá hugmynd um hversu vinsælt Snapchat er þá eru 8796 myndum deilt á Snapchat á hverri sekúndu.

Hvernig virkar Snapchat?
Markmið Snapchat er að öll skilaboð séu aðeins sýnileg þegar notandi skoðar þau í fyrsta skipti. Því má segja að Snapchat kemst næst því að vera „face-to-face“ samskiptaleið þar sem skilaboðin hverfa eftir að notandinn hefur skoðað þau. Þessi nýja leið samskipta opnar dyr fyrir fólk til að deila upplifunum sínum samstundis með þeim sem það kýs. Í stað þess að setja t.d. myndskeið inn á Facebook fyrir allra augum er mun þægilegra að nota Snapchat þar sem notandinn stjórnar hverjir fá að sjá myndskeiðið. Snapchat er alltaf að bæta við skemmtilegum fídusum til að tengja fólk saman. Sem dæmi sýnir forritið viðburði frá ýmsum löndum svo sem Halloween, Super Bowl og svo framvegis. Þá er einnig hægt að sjá ýmsar myndir og myndskeið frá hinum og þessum menningarheimum.

snap

Línuritið sýnir fjölda milljóna notenda fyrir hvert ár frá því að Snapchat var stofnað. Eins og sést þá hafa vinsældir forritsins aukist gríðarlega hratt á hverju ári og eru notendur nú í kringum 100 milljónir. [1]

Snapchat hefur einstaklega notendavænt viðmót. Það fyrsta sem blasir við þér þegar þú opnar forritið er myndavél. Með einum smelli ertu búin/n að taka mynd eða myndskeið og getur valið viðtakendur á einfaldan hátt. Forritið býður upp á fullt af skemmtilegum „filterum“. Til þess að nota þá þarf eingöngu að renna fingrinum yfir skjáinn til hægri eða vinstri. Það er virkilega auðvelt að læra á forritið og það er einfalt í notkun.

Öryggi
Snapchat hefur verið gagnrýnt fyrir öyggisráðstafanir en tölvuþrjótum hefur tekist að hakka sig inn í gagnagrunn Snapchat að minnsta kosti tvisvar sinnum. Í fyrra skiptið voru um 4,6 milljónum Snapchat notendanöfnum og símanúmerum gerð opinber á vefsíðunni www.snapchatdb.info.2 Í seinna skiptið voru um 500MB af myndum sóttar úr gagnagrunni en myndirnar voru eydd gögn. Aukning á tæknikunnáttu eykur hættu á tölvuþrjótum og því þarf öryggi að vera mun sterkara en fyrir nokkrum árum. Gríðarlegt magn af upplýsingum er að finna á netinu og getur hver sem er nálgast þær. Þá spyrjum við okkur: Hvaða öryggisráðstafanir tryggja öryggi á netinu? Er það þá mögulegt? [2] [3]

Snapchat gaf það út að skilaboð sem þú sendir í gegnum forritið ætti að eyðast. Það er þó ekki alveg rétt þar sem móttakandi getur tekið skjáskot af skilaboðunum. Snapchat brást við því á þann hátt að núna fær sendandi meldingu um að ákveðinn aðili hafi tekið skjáskot af mynd sendandans. Hins vegar er auðveldlega hægt að taka mynd af skjánum, með öðru tóli, sem er að opna snappið og þá fær sendandi enga tilkynningu. Einnig eru komin á markaðinn ýmis forrit sem geta sótt í Snapchat forritið þau skilaboð sem þú varst að fá sent áður en þú opnar það. Þá getur þú vistað skilaboðin á símann þinn í gegnum það forrit án þess að sendandi viti af því. Þetta er vitað af notendum Snapchat en það virðist ekki skipta máli fyrir flesta. Fólk verður að gera sér grein fyrir því að það sem fer á netið er á netinu. Við verðum að geta treyst þeim sem við sendum á og vera viss um að þau skilaboð sem við sendum séu eitthvað sem við viljum ekki láta nota gegn okkur.

Að lokum
Eins og allar tækninýjungar hefur Snapchat sínar jákvæðu og neikvæðu hliðar. Það er allt undir okkur komið hvernig við nýtum Snapchat og hvaða áhrif það hefur á okkar eigið líf. Það sem skiptir mestu máli er að við leyfum ekki tækninni að koma í staðinn fyrir raunveruleikann. Þá er hætta á að mannleg samskipti og nánd fari minnkandi sem gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Við megum ekki gleyma að njóta stundarinnar og fólksins sem er í kringum okkur.
Með tilkomu Snapchat og allra samfélagsmiðlana sem hafa komið upp á yfirborðið síðustu ár er heimurinn orðin miklu hraðari og mun minni. Við mannfólkið erum tengdari hvort öðru en nokkru sinni fyrr. Við þurfum samt að kunna að notfæra okkur þessa miðla og gera greinarmun á raunveruleikanum og tölvuheiminum.

Höfundar. Auður Íris Ólafsdóttir og Petra Pétursdóttir

Heimildir

[1]Molly Mulshine, “ This mind-blowing graphic shows how many Snapchat photos are sent per second”, 28. maí 2015. [Rafrænt]. Af http://uk.businessinsider.com/snapchat-photos-sent-per-second-2015-5?r=US&IR=T . Sótt 31. október 2015

[2] Rich McCormick, “4.6 million Snapchat phone numbers and username leaked”, 1. janúar 2014. [Rafrænt]. Af http://www.theverge.com/2014/1/1/5262740/4-6-million-snapchat-phone-numbers-andusernames- leaked . Sótt 2. nóvember 2015.

[3] Lizzie Dearden, “ 'The Snappening': Snapsave admits security breach but says only 500MB of images leaked”, 14. október 2014. [Rafrænt]. Af https://www.independent.co.uk/life-style/gadgets-and-tech/news/the-snappening-snapsave-admits-security-breach-but-says-only-500mb-of-images-leaked-9794488.html Sótt 4. nóvember 2015.

Skoðað: 5318 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála