Skip to main content
18. febrúar 2016

Sjálfkeyrandi bíllinn og samfélagsbreytingar af völdum hans

Bjarni2Heimilisbíllinn er eitt af því dýrasta sem að meðal fjölskyldan fjárfestir í á lífsleiðinni, fyrir utan íbúð. Ekki nóg með það að bíllinn kosti væna fúlgu þá er viðhaldið á bílnum ekki síður kostnaðarsamt og hvað þá eldsneytið. Þrátt fyrir þennan gífurlega kostnað gerir bíllinn ekkert nema falla í verði frá fyrsta degi en það frelsi sem bíllinn veitir okkur sem fær okkur til að líða sem svo að við getum varla lifað án hans og það er okkur fullkomlega ljóst daginn sem að hann bilar. Mörg okkar notast við almenningssamgöngur en þær geta bæði verið mjög dýrar eða mjög tímafrekar eftir því hvað er valið. Sjálfkeyrandi bílar eru eitthvað sem að við höfum lesið um í bókum eða séð í bíómyndum í fjölda ára, en þeir hafa alltaf verið eitthvað sem að við búumst við að sjá í framtíðinni. Nú erum við skyndilega farin að sjá greinar um sjálfkeyrandi bíla birtast í fréttum reglulega og svo virðist vera sem að þeir verði komnir á göturnar innan fárra ára. En hvað skiptir það okkur svona miklu máli að sjálfkeyrandi bílar séu á næsta leiti? Ótrúlega miklu, er stutta svarið. Sjálfkeyrandi bílar eiga eftir að gjörbylta því hvernig við ferðumst, opna fyrir nýjar tegundir af fyrirtækjum og setja önnur á hausinn. En hvað er það sem að mun gerast? Einungis tíminn mun leiða það í ljós, en við skulum kíkja á hvað gæti mögulega gerst.

Fyrsti bíllinn til þess að nota sprengihreyfilinn var framleiddur af Karl Benz og fékk hann einkaleyfi fyrir honum árið 1879[1]. Það höfðu verið gerðar ýmsar tilraunir með gufuvélina en að lokum varð það bensín vélin sem varð ofaná, eins og er nokkuð ljóst í okkar samfélagi. Fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn sem að almenningur átti möguleika á því að eignast var framleiddur af Ford og var kallaður Model T. Þetta var í fyrsta skipti í sögunni sem hægt var treysta á tæki í stað dýra í landssamgöngum[2][3]. Varð bíllinn til þess að gjörbylta samgöngum á landi. Það má segja að seinni parturinn af níunda áratugnum hafi verið stærsta stökkið til þessa í að gera bílinn sjálfkeyrandi[4]. Þá tókst starfsmönnum við háskólann í Carnegie Mellon að láta bíl af gerðinni Chevy keyra sjálfan á tuttugu mílna hraða. Það var svo árið 2008 sem að mesta afrekið í sögu sjálfkeyrandi bíla átti sér stað. Þá tókst Volkswagen að láta bíl af gerðinni Passat keyra sig sjálfan og stöðva þegar hann kom að stöðvunarskyldu[5]. Einungis tveimur árum seinna hafði Google tekist að láta sjálfkeyrandi bíla aka meira en 140.000 mílur á götum Kaliforníu. Þessir bílar óku meðfram öðrum bílum sem og gangandi vegfarendum, hlýddu skilaboðum umferðaskilta og ljósa. Árið 2012 var vegalengdin komin upp í 300.000 mílur án slysa[6]. Það er því óhætt að segja að sjálfkeyrandi bíllinn hafi náð ótrúlegum framförum á mjög skömmum tíma. Nú eru sífellt fleiri fyrirtæki farin að sjá gróðavon í bílum sem þessum og er framþróunin í þessum geira því gífurleg.

Hvað notum við bílinn okkar mikið í raun og hvernig?

Við eigum að sofa átta klukkutíma á sólarhring. Á meðan stendur bíllinn í bílastæðinu heima. Flest vinnum við átta klukkutíma fimm daga í viku. Á meðan stendur bíllinn á bílastæðinu í vinnunni. Bara þessir tveir þættir reiknast sem 96 klukkutímar á viku eða um 57% af heildar klukkutímum í einni viku. Ef við teljum svo með kvöldin þar sem við sitjum heima og horfum á sjónvarpið eða dundum okkur á einhvern annan hátt þá eru ekki orðnir margir klukkutímar eftir sem að við erum í raun og veru að nýta okkur þessa rándýru fjárfestingu. Samkvæmt könnun sem Morgan Stanley bankinn lét gera er bílum einungis ekið um 4% af tímanum[7]. Það er hægt að flokka það sem ótrúlega slæma nýtingu og ekki nóg með það heldur tekur þessi risastóri ónýtti bílafloti upp gífurlegt pláss þegar hann er ekki í notkun. En þegar við erum úti í umferðinni, erum við þá í raun og veru að einbeita okkur að akstrinum? Það vill nefnilega svo til að við manneskjurnar erum ekkert frábærir bílstjórar þó að við höldum það. Til að mynda þarf ekki nema einn bílstjóra sem að missir einbeitinguna til þess að hægja á allri umferðinni fyrir aftann hann[8]. Við þekkjum öll umferðaröngþveitið sem skapast á morgnum þegar fólk er á leið til vinnu og seinni hluta dags þegar fólk er á leið sinni heim frá vinnu. Mikið af þessum stíflum má rekja til þeirra reglna sem við þurfum að setja okkur í umferðinni til þess að minnka líkur á slysum ásamt því að fá umferðina til að ganga betur heldur en ef þessar reglur væru ekki til staðar. Við vitum nefnilega aldrei hvað bílstjórinn fyrir framan okkur er að fara að gera. Einn þáttur er sem við hugsum ekki mikið út í þegar kemur að því að aka bíl er að finna bílastæði. Flest allir sem hafa reynt að leggja þar sem er lítið um stæði kannast við það ergelsi. Í dag eru rúmlega 7 milljarðar manneskja á jörðinni, það þýðir að mörg hundruðir þúsunda, ef ekki milljónir, einstaklinga eru að leita að bílastæði einmitt núna. Ef við teljum þetta allt saman er þetta drjúgur tími, álag á malbik og útblástur koltvísýrings sem hægt væri að koma í veg fyrir ef fólk gæti einfaldlega hoppað út á áfangastað í stað þess að þurfa að finna stæði fyrir bílinn[10].

Sjálfkeyrandi bíllinn

Að notast við sjálfkeyrandi bíl krefst ákveðinnar hugarfarsbreytingar. Hugarfarið sem við höfum í dag varðandi bílana okkur mætti kalla “til öryggis”. Bíllinn okkar er alltaf úti í stæði ef við skyldum þurfa að nota hann. Við þurfum hann ekki alltaf en ef ske kynni að við þyrftum að skjótast eitthvað þá er hann til staðar. Hugarfarið sem við þurfum að færa okkur yfir í er “á réttum tíma”. Það fellst í því að þegar við þurfum á bílnum að halda þá kemur hann á einmitt réttum tíma til að sækja okkur og keyra okkur á áfangastað. Það má í raun líkja þessu við að taka leigubíl hvert sem við förum nema leigubílstjórar hanga ekki úti á bílastæðaplani og bíða eftir okkur þar til okkur dettur í hug að fara eitthvað án þess að rukka vel fyrir slíka þjónustu. Í raun er sjálfkeyrandi bíllinn lítið annað en bílstjóralaus leigubíll. Þetta fær eflaust einhverja til að hugsa með sér “bíddu en ég ætla frekar að eiga minn eigin sjálfkeyrandi bíl, það er allt of dýrt að taka leigubíl í hvert sinn sem ég ætla að fara eitthvað”. Svarið við þessu er nei það verður líklega ódýrara heldur en að reka bensín bíl í dag. Stærsti kostnaðarliðurinn við að reka leigubíl er bílstjórinn. Þar sem Uber leigubílaþjónustan er rekin erlendis er til að mynda kostnaðurinn við bílstjórann sjálfan um 50% af fargjaldinu[9]. Þennan kostnað er hægt að minnka töluvert þar sem eina manneskjan í farartækinu er farþeginn. Þar að auki munu sjálfkeyrandi bílar líklegast notast við rafmagn eða aðra hreina orkugjafa sem eru mikið ódýrari en bensín og því lækka kostnað við rekstur þeirra enn frekar. Enginn þörf er á að greiða bifreiðagjöld, tryggingar eða önnur gjöld tengd viðhaldi. Auðvitað mun þessi kostnaður koma fram í því gjaldi sem rukkað er fyrir hvert far en þetta verða ekki lengur ófyrirséðir kostnaðarliðir fyrir heimilið eins og viðhald bifreiða getur verið í dag.

Hvernig gæti heimurinn orðið öðruvísi?

Ef við lítum aðeins til framtíðar þar sem að við erum mögulega búin að nánast útrýma einkabílnum og sjálfkeyrandi bíllin er orðinn staðall, hverjar eru þær breytingar sem gætu hafa átt sér stað? Bílastæðin standa auð. Þar sem hvert heimili þarf ekki á einum eða fleiri bílum á að halda hefur bílaflotinn minnkað til muna. Flestir sjálfkeyrandi bílar eru sífellt í notkun og því töluvert minni þörf fyrir bílastæði sem veldur því að verið er að vinna í því að breyta bílastæðum við húsnæði, útivistarsvæði eða önnur svæði. Akstursþjónusta við aldraða og fatlaða hefur batnað til muna þar sem að akstur fyrir þau er ekki lengur bundinn við þann tíma sem að starfsmenn geta ekið þeim. Hvernig fólk verslar hefur breyst mikið. Fólk er farið að nýta sér heimsendingar í stórum stíl þar sem að það er orðið mun ódýrara og einfaldara heldur en áður. Litlar og léttar skutlur sendast með vörur um borgina og keyrir þær heim að dyrum. Nýjar tegundir af verslunum hafa opnað sem að bjóða einungis upp á verslun í gegnum netið og geta þar af leiðandi lækkað kostnað þar sem einungis þarf að vera með lager og starfsfólk sem tekur saman pantanir. Umferðin gengur mun öruggar og hraðar fyrir sig. Þar sem að sjálfkeyrandi bílarnir geta allir talað saman og vitað með fyrirvara hvað næsti bíll mun gera hefur árekstrum fækkað mikið. Umferðaljósum hefur verið útrýmt þar sem gatnamót eru nú tölvustýrð og sjá um að stjórna umferðinni. Umferðarslys tengd ölvunarakstri eru ekki lengur vandamál þar sem fólk er hætt að keyra í umferðinni. Fólk ferðast langar vegalengdir í auknum mæli á nóttunni þar sem að hægt er að sofa í bílnum á leiðinni og spara sér þar af leiðandi kostnað við hótelgistingu.

Of gott til að vera satt?

Af upptalningunni hér að ofan mætti halda að við værum á leið inn í einhvers konar útópíu en það er gott að minna sig á það að það eru enn nokkur ár í að sjálfkeyrandi bíllinn komi á markaðinn. Þegar hann kemur svo loksins getur tekið út mörg ár að skipta út bílaflotanum og fyrir fólk að sætta sig við það fórna einkabílnum. Sumt af því sem gerir sjálfkeyrandi bílinn svona stórfenglegan kost krefst þess að manneskjur séu ekki að keyra lengur, eins og til dæmis að losna við umferðarljós og aðrar tengdar merkingar. Öryggiskröfur þurfa að vera gífurlega strangar þar sem að þessir þurfa að geta keyrt í allskonar aðstæðum og það er hætt við því að þegar sjálfkeyrandi bíll lendir í árekstri gætu viðbrögðin orðið töluvert harðari heldur en ef tveir ökumenn lenda í árekstri, sem er svolítið undarlegt þar sem að umferðar óhöpp gerast daglega eins og staðan er núna. Eitt er víst að það eru spennandi tímar framundan hversu ör sem þróunin á eftir að verða.

Höfundar: Bjarni Egill Ögmundsson og Aron Bachman Árnaso, nemendur við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá

[1] Karl Benz. (e.d.). Wikipedia. [Rafrænt]. Af: http://en.wikipedia.org/wiki/Karl_Benz Sótt: 27. Okt. 2015.

[2] Our History. (e.d.) Ford Motor Company. [Rafrænt]. Af: https://corporate.ford.com/company/history.html Sótt: 27. Okt. 2015.

[3] J. Merrill, R. Sharp, S. Usborne. 2008, Mar. 3. Model T Ford: The car that changed our world. [Rafrænt]. Af: https://www.independent.co.uk/life-style/motoring/features/model-t-ford-the-car-that-changed-our-world-790395.html Sótt: 27. Okt. 2015.

[4] PANS: A Portable Navigation Platform. (e.d). Carnegie Mellon University. [ Rafrænt ]. Af: http://www.cs.cmu.edu/afs/cs/usr/tjochem/www/nhaa/navlab5_details.html . Sótt: 28. Okt. 2015.

[5] B. Mack. 2008. Nov. 21. Autonomous VW says, “Look, Ma – No Hands”. [Rafrænt]. Af: https://www.wired.com/2008/11/vw-says-look-mo/ Sótt: 28. Okt, 2015.

[6] F. Lardinois. 2012. Aug. 7. Google’s SelfDriving Cars Complete 300K Miles Without Accident, Deemed Ready For Commuting. [Rafrænt]. Af: https://techcrunch.com/2012/08/07/google-cars-300000-miles-without-accident/ Sótt 28. Okt. 2015.

[7] J. McDuling. 2014. sep. 12. The latest attack on America’s car culture comes from Wall Street. [Rafrænt]. Af: http://qz.com/264781/thelatestattackonamericascarculturecomesfromwallstreet/ Sótt: 29. Okt. 2015.

[8] Shockwave traffic jams recreated for first time. 2008. mar. 3. [Myndband]. Af: https://www.youtube.com/watch?v=Suugn-p5C1M. Sótt: 29. Okt. 2015.

[9] I. Kaminska. 20. Okt. 2015. Do the economics of selfdriving taxis actually make sense? [Rafrænt]. Af: http://ftalphaville.ft.com/2015/10/20/2142450/dotheeconomicsofselfdrivingtaxisactuallymakesense/ Sótt: 30.Okt. 2015.

[10] D. Shoup. 2007. mar 29. Gone Parkin’. [Rafrænt]. Af: http://www.nytimes.com/2007/03/29/opinion/29shoup.html?_r=0 Sótt: 30. Okt. 2015.

Skoðað: 4446 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála