Skip to main content
20. ágúst 2015

Hvernig verður verðlaunavefur til?

SigurjonOlafsson bw2 highres new 200x300Faghópur um vefstjórnun hefur gert það að árlegum viðburði að fá fulltrúa nokkurra vefja sem hljóta vefverðlaun á SVEF til að segja frá ferlinu við vefsmíðina. Á fundi í vor voru flutt erindi um fimm vefi (samgongustofa.is, dominos.is, heilsuvera.is, hvaderibio.is og blær.is). Eftirfarandi er samantekt af fundinum.

Samgöngustofa - besti opinberi vefurinn

Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, sagði frá aðdraganda verkefnisins en verið var að búa til eina stofnun úr þremur. Markhópurinn er í raun allir landsmenn þar sem verkefnin snúa að samgöngum á landi, sjó og flugi. Gömlu vefirnir voru því marki brenndir að vera formlegir með lögfræðilegu yfirbragði.

Markmið sem voru sett var m.a. að gera vefinn snjallan, mikil áhersla var á leit, tiltekt í efni og markmið var sett um að vera með besta opinbera vefinn 2015. Einnig var mikil áhersla á gott aðgengi að eyðublöðum og lögum og reglugerðum. Það markmið náðist og vefurinn var einnig tilnefndur sem aðgengilegasti vefurinn. Leitin á vefnum er ritstýrð og hjálpar notandanum að finna sitt efni þó hann noti ekki alveg sömu orð og stofnunin.

Aðalhindrunin í verkefninu var efnið sem fólki þótti vænt um á gömlu vefjunum en það reyndist oft mikilvægara fyrir starfsfólkið en notendur. Í undirbúningi var rýnt vel í hvað notendur þurftu að sækja og horft út fyrir ramma stofnunarinnar. Það þurfti að “endurræsa” stofnunina, sagði Þórhildur.

Farið var í gegnum ítarlega þarfagreiningu með utanaðkomandi ráðgjafa. Þórhildur nefndi að þau hefðu grætt mjög mikið á flokkunaræfingu (card sorting) sem breytti myndinni talsvert fyrir skipulag vefsins. Fólk kemur í ákveðnum tilgangi inn á vefinn og það skilgreinir sig út frá umferð, flugi eða siglingum - en ekki samþættum verkefnum (öryggi, fræðsla, skírteini o.þ.h.) eins og skipulag stofnunarinnar gaf til kynna.

Vel unnin heimavinna var grundvöllurinn að þessum árangri sagði Þórhildur. Hún var spurð út í hvaða lærdóm hún hefði helst dregið af verkefninu og sagði þá að mikilvægt væri að fá alla með í lið með sér, hafa stuðning stjórnenda og hugsa út fyrir stofnunina. Hætta gamla þankaganginum. Þetta hefði líka reynst mun meiri vinna en þau hefðu gert ráð fyrir.

Hvað er í bíó - besti einstaklingsvefurinn

Hugi Hlynsson, vefforritari hjá Plain Vanilla, er maðurinn á bak við Hvað er í bíó. Nafnið segir sig sjálft. Hugmyndin að baki vefnum var að finna allar kvikmyndasýningar á einum stað. Kvikmyndagestir þurftu áður að fara inn á marga vefi sem var leiðinleg upplifun.

Þetta byrjaði sem skólaverkefni i Háskóla Íslands í vefforritun og Hugi ákvað að taka þetta lengra en fyrsta útgáfa fór í loftið 1. nóvember 2013. Áhersla var lögð á að síðan væri aðgengileg öllum í hvaða tæki sem er og í hvaða aðstæðum sem er. Markmiðið var að auka hraða og gera síðuna eins þægilega og hægt væri, hraði nets ætti ekki að skipta máli.

Snjallvæðing vefsins borgaði sig, 50% af notkun er með snjallsímum, 43% í desktop og 7% með spjaldtölvum. Um ⅔ notenda koma beint inn á síðuna en vefurinn hefur spurst vel út. Hugi hefur ekkert notað samfélagsmiðla til að koma vefnum á framfæri og umferðin því ekki að koma þaðan.

Blær - athyglisverðasti vefurinn

Birna Ketilsdóttir Schram, ritstjóri Blæs, kynnti verkefnið. Fyrir rúmu ári kom þessi hugmynd um nýjan miðil sem væri með fókus á ungt fólk og tímaritið átti að brúa bil á milli tímarits og vefsíðu. Hugi Hlynsson (Hvað er í bíó) var forritari vefsins og kom því að tveimur verðlaunavefjum.

Blær er veftímarit sem kom fyrst út í júní 2014 og kom út 10 sinnum. Hópurinn sem kom að þessu var fjölbreyttur og langur tími fór í að þróa hugmyndina. Þeim reyndist í fyrstu erfitt að gefa út hvert tölublað, því það var alltaf hægt að bæta. Fullkomnunaráráttan reyndist þeim erfið en tímaritið leggur mikla áherlsu á notendaupplifun með góðu samspili ljósmynda, myndbanda og texta. Vefurinn hefur fengið hrós frá lesblindum.

Notendur koma flestir í gegnum samfélagsmiðla, Facebook aðallega eða 36%. Önnur umferð er í gegnum Google 29%, þeir sem koma beint inn á vefinn eru 29% og vísanir frá öðrum vefjum er 6%.

Hugi kom seint inn í forritun en það var pressa á að vinna hratt. Farin var óhefðbundin leið með vefumsjónarkerfi en Craft CMS var notað sem Hugi telur sérstaklega gott fyrir ritstjóra. Þau fóru út með takmarkaða útgáfu í byrjun - “minimum viable product”- sem var góð ákvörðun. Bættu síðar inn leit og leiðarkerfi eftir því sem útgáfum fjölgaði.

Hugi nefndi sérstaklega samspil hönnunar og forritunar, sagði nauðsynlegt að hafa mikil samskipti í því ferli en svo heppilega vildi til að kærasta Huga er hönnuður vefsins og var að mestu búin að hanna vefinn þegar Hlynur kom að verkefninu.

Huga hefur fundist vanta samspil á milli hönnunar og forritunar í vefverkefnum. Þarf að vera díalógur að hans mati, ekki bara á milli vörustjóra og forritara. Þarf að styrkja þennan hluta. Oft mjög fjarlægt samband þarna á milli.

Dominos - besta hönnun og viðmót

Egill Þorsteinsson, þjónustustjóri, sagði frá vinnu við vef Dominos. Hann rakti stöðuna áður en núverandi vefur var gerður en árið 2008 var hlutfall netpantana 3%. Vefurinn hafði eiginlega gleymst. Menn áttuðu sig á mikilvægi þess að vera með góða vefsíðu. Markmið var sett að ná 25% pantana í gegnum vefinn 2012 en þeir náðu ca. 30% í árslok. Vefurinn réð þó illa við álag og útlit var ekki í takt við annað markaðsefni.

Árið 2014 var markmið sett að ná 50% pantana í gengnum netið og þau töldu sig eiga töluvert inni. Lausnin var skalanlegur (snjall) vefur. Markmið var líka að gera vefinn meira aðlaðandi, að notandinn myndi virkilega langa í vöruna. Mikil áhersla var á pöntunarferlið, hafa það hratt og einfalt að fara á milli skrefa.

Þau komu upp pizzavakt þar sem hægt er að fylgjast með stöðunni. Útlit átti að kallast á við annað markaðsefni. Gríðarleg mobile notkun er á vefnum í dag með vel yfir 50% mobile notkun. Ferlið við “up-sell” eða það að fá fólk til að kaupa eitthvað annað með pizzunni var endurhugsað.

Þau héldu vikulega fundi með vefstofunni og þar gafst tækifæri á að koma skoðunum á framfæri sem var líka gott upp á tíma og kostnað.

Egill taldi mikilvægt að vefurinn væri dýnamískur, að hann tali beint við sölukerfið og sæki réttar uppfærslur á hverjum tíma.

Þau fóru í loftið með BETA útgáfu og fengu mjög mikið af ábendingum. Í þessu ferli komust þau að því að viðskiptavinum fannst vera í lagi að bjóða sér að kaupa annað en pizzu.

Vöxtur netpantana fór úr 3,3% í 46% (þar af var appið með 12%). Í september 2014 fór þetta yfir 50%. Brotthvarfshlutfall (bounce rate) lækkaði um 20%. Stefnt er að 60% sölu í gegnum netið fyrir lok 2015.

Heilsuvera - besti íslenski vefurinn

Að lomum kynnt Atli Már Gunnarsson frá TM Software ferlið við smíði á heilsuvera.is. Atli var svokallaður “product owner” en verkefnið var unnið í nánu samstarfi við Landlæknisembættið og Heilsugæslur höfuðborgarsvæðisins. Markmið vefsins er að vera heilbrigðisvefur fyrir almenning með aðgengi að lyfseðlum, bólusetningum o.fl. Þarna getur almenningur átt í samskiptum við heilbrigðisþjónustuna og nálgast gögn úr eigin sjúkraskrá.

Áhuginn á þessu verkefni hefur lengi verið til staðar og pressa verið frá samfélaginu. Vefurinn var gangsettur í október 2014 en smíði fór af stað vorið 2013. Þetta var flókið verkefni, gögn eru vistuð á hverri stofnun, samtengingar vantaði, mikil áhersla var á örugga auðkenningu en ákveðið var að nýta rafrænu skilríkin þegar þau komu til sögunnar.

Vefurinn átti að vera þægilegur vefur, öruggur, með einfalt viðmót og gott aðgengi að upplýsingum.

Margir aðilar komu að undirbúningi, stýrihópur var fámennur og hittist vikulega. Greiningarhópur var með fagfólki. Notast var við Trello og Jira í verkefnastjórnun sem tengdu hönnuði og forritara. Prófanir voru í gegnum Cucumber verkfærið sem nýttist vel í samskiptum prófara og forritara. Vefurinn sækir öll gögn úr öðrum kerfum en sama og ekkert er vistað í gegnum vefinn sjálfan.

Lærdómur sem Atli dró einna helst af verkefninu var hve góð samvinna sé mikilvæg við verkkaupa, hafa góða skjölun, prófanir væru bráðnauðsynlegar, nauðsynlegt að hafa gott upplýsingaflæði og vita að allt hefur sinn tíma. Muna að þetta er þolinmæðisverk.

Sigurjón Ólafsson Fúnksjón vefráðgjöf tók saman

Skoðað: 2338 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála