Skip to main content
28. maí 2015

Hvað þarf til að auka áhuga kvenna á tölvunarfræði?

AsrunogKristine

Það er ekki auðvelt að svara þessari spurningu, en hér verður reynt að rýna í greinina, “Anatomy of an Enduring Gender Gap: The Evolution of Women’s Participation in Computer Science,” og skoðað hvað hægt er að læra af henni.

Í greininni er m.a. farið er yfir áhuga nemenda á tölvunarfærði síðustu 40 árin, en við gefum okkur að það sé æskilegt að ungt fólk þekki til sem flestra faggreina þegar þau eru að velja sér framtíðarstarfsvettvang. Við gerum líka ráð fyrir því að æskilegt sé að bæði kynin leggi stund á sem fjölbreyttust fög. Starfssvið, þar sem annað kynið verður af viðhorfum og reynslu hins kynsins getur skipt töluverðu máli, t.d. í tölvunarfræð,i þar sem verði er að hanna hugbúnað sem ætlaður er báðum kynjum.

Konum fækkar

Því miður er staðan þannig að þátttaka kvenna í tölvunarfræði hefur dregist saman á sama tíma og þörfin fyrir reynslu í faginu hefur aukist og framboð á tækifærum aukist. Í ofangreindri grein kemur í ljós á á tímabilinu 1971-2011 hefur hlutfall kvenna í tölvunarfræði verið lágt. Áhugi á tölvunarfræði var mikill hjá báðum kynjum í kringum 1980 en dalaði áratug síðar. Þegar áhuginn óx aftur um árið 2000 voru um 9%  karla og 2% kvenna með tölvunarfræði sem aðalgrein í USA. Tölur frá 2011 sýna að hlutfall kvenna í tölvunarfræði var um 15%.

Trú á eigin ágæti í stærðfræði hefur verið talin geta haft áhrif á námsárangur og áhuga nemenda á tölvunarfræði. Í þessari grein kemur fram sú áhugaverða staðreynd að í dag virðist þessi þáttur ekki lengur hafa eins mikil áhrif og áður. Talið var að breytan skýrði 79% af muninum árið 1976 en ekki nema 13% árið 2011. Þetta er jákvæð þróun þar sem það hefur fylgt konum að meta eigin stærðfræðihæfni síðri en karla, jafnvel þær sem gengur best telja sig ekki vera góðar í stærðfræði.

Fleiri jákvæðir hlutir koma fram í greininni, eins og að konur sem telja sig vera skapandi og listrænar eru síður líklegar til að forðast tölvunarfræði miðað við það sem áður var. Aftur á móti hefur áhugi á félagslegri virkni neikvæða tenginu við áhuga beggja kynja á tölvunarfræði. Þetta getur haft áhrif á kynjamun í faginu þar sem konur leggja oft áherslu á svið þar sem þær geta hjálpað öðrum. Sama var uppi á teningnum þegar skoðaðar voru væntingar til þess að stofna fjölskyldu. Þeir sem höfðu meiri áhuga á því höfðu minni áhuga á tölvunarfræði.

Til að taka á þessum vanda er mælt með að beina athyglinni að því hvernig nám í tölvutengdum greinum geti leitt til starfa sem eru skapandi og hafa áhrif í samfélaginu. Konur með áhuga á list- og félagsgreinum hafa samkvæmt greininni ekki áttað sig á tengingu tölvunarfræðinnar við þessar greinar.

Þess vegna leggja höfundar greinarinnar áherslu á að stjórnendur og þeir sem móta menntastefnu þurfi að gera konum betur ljós þau skapandi tækifæri sem felast í tölvunarfræðinámi frekar en að reyna að fá konur til að fá áhuga á að nota þekkinguna á þann hefðbundna veg, sem margir karlar gera innan greinarinnar í dag. Einnig er lagt til að þeir sem sjá um að semja kennsluskrá og kynna námið ættu að leggja meiri áherslu á hvernig tölvunarfræðin tengist samfélaginu og reyna að endurspegla það í heiti námskeiða og námsleiða.

Góðar fyrirmyndir

 Ef leitað er að dæmum sem styðja við niðurstöður rannsókna þá hafa háskólar Carnegie Mellon, Washington og Harvey Mudd brugðist við stöðunni. Þetta eru háskólar þar sem stjórnendur hafa tekið meðvitaða ákvörðunn um hvernig eigi að snúa þróuninni við og hafa mótað stefnu og aðgerðir til þess. Margt af því sem höfundar greinarinnar mæla með er einmitt í anda stefnu þeirra.

Carnegie Mellon háskólinn og háskólinn í Washington hafa verið í samstarfi við atvinnulífið og fyrirtæki eins og Google við að bjóða upp á kennslu fyrir framhaldsskólakennara ásamt því að sjá um vísindabúðir og handleiðslu fyrir nemendur. Þá hefur Harvey Mudd háskólinn endurskoðað notkun mynda í auglýsingum og kynningarefni og notar þar í meira mæli myndir af konum auk þess sem hann hefur fengið konur til að kynna námið hjá sér.

Hjá Harvey Mudd voru lýsingar á námskeiðum og náminu skoðaðar og er þá reynt að tala um verk- og tölvunarfræði sem fög þar sem er unnið með skapandi verkefnalausnir, en ekki harðkjarna forritun. Háskólinn er með þeim fremsta í heimi hvað varðareflingu tölvunarfræði og aukningu á fjölbreytni í námi, en hann hefur, í sameiningu við Anita Borg Institute, sett af stað stórt verkefni, BRAID, um samstarf tölvunarfræðideilda við 15 háskóladeildir í Bandaríkjunum. Markmiðið er að kortleggja þær aðferðir sem virka til að laða konur og minnahlutahópa að námi í tölvunarfæði og hafa gefið jákvæða raun. Verkefnið nýtur fjárhagslegs stuðnings Facebook, Google, Intel og Microsoft til þriggja ára og er eitt metnaðarfyllsta verkefnið á þessu sviði í dag.

Þróunin á Íslandi

Líkt og ofangreindir háskólar hafa bæði Háskóli Íslands (HÍ) og Háskólinn í Reykjavík (HR) upplifað meiri aðsókn í nám í tölvunarfræði á allra síðustu árum um leið og hlutfall kvenna hefur aukist. Í dag er það t.d. 22% í HR, sem er góð þróun frá því sem var árið 2003, þegar það fór niður í 12% eftir að hafa verið 25% árið 1999. Hvort það er afleiðing ákveðinna aðgerða hér á landi er erfitt að staðfesta án rannsóknar, en það er er upplifun okkar sem hafa fylgst með og unnið að þessum málum að átak eins og UT-messan skilar sér ásamt þeim aðgerðum sem HR hefur farið í, nú síðast „Girls in ICT Day“ eða Stelpur og tækni. Af eldri átökum má nefna að UT-konur, þar sem  sendur var upplýsingabæklingur um tölvunarfræði á allar 15 ára stúlkur árið 2007, gerð kynningarmyndbands árið 2009 og fræðslupakki sem sendur var á alla grunn-og framhaldsskóla landsins.

En við megum ekki stoppa hér ef við viljum tryggja að atvinnumarkaðurinn njóta góðs af hugviti og reynslu beggja kynja. Því þarf til lengra tíma að lyfta þessum verkefnum upp á landsvísu og tryggja til þess fjármögnun. Við viljum að allar stelpur í grunnskólum landsins fái að taka þátt í degi eins og Stelpur og tækni og við viljum hafa fjármagn til að fylgjast með hvað virkar til að geta haldið áfram og náð árangri.

Ef við náum að treysta fjármögnun og koma á stefnu í þessum málum gæti Ísland orðið með besta námsumhverfið til tölvunarfræðináms. Gerum það - verum fyrirmynd!

Umfjöllun um greinina má sjá hér: https://www.insidehighered.com/news/2015/04/21/study-measures-causes-gender-gap-computer-science#.VTartB49UJ4.twitter

Höfundar:
Dr. Ásrún Matthíasdóttir er lektor við Háskólinn í Reykjavík ásamt því að vera fulltrúi ECWT (European Centre for Women in Science and Technology) á Íslandi.
Kristine H. Falgren er forstjóri fjarfestingarsjóðs IT Háskólinns í Kaupmannahafn og ráðgjafi við Háskólinn í Reykjavík.
Höfundar eru einnig fulltrúar Íslands í COST verkefninu genderSTE á vegum Evrópusambandsins.

Skoðað: 3145 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála