Skip to main content
21. maí 2015

Tækni og listsköpun

Svanur Bjarki ÚlfarssonMeð forritinu GarageBand í iPad er hægt að vinna mörg skemmtilegt verkefni sem tengjast tónmennt í grunnskóla. Nemendur geta t.d. skapað sitt eigið tónverk, skipulagt, samið, útsett og tekið upp.

Hæfnisviðmið aðalnámskrár grunnskóla við lok 7. bekkjar eru að nemandi geti:
•    greint og valið hljóðfæri og hljóðblæ við hæfi í tónsköpun og hlustun,
•    notað einföld tæki og forrit til að taka upp, skrásetja og setja saman eigið hljóð- eða tónverk,
•    tekið þátt í samspili eða samsöng með öðrum og flutt og túlkað eigin verk og annarra með viðeigandi hætti fyrir áheyrendur og skrásett það,
•    greint og að einhverju marki metið og endurskoðað eigin sköpunarverk og skólasystkina sinna í tónlist af sanngirni

Mynd 1

Áhugasamir nemendur

Tónsköpun í Garageband forritinu uppfyllir alla þessa þætti. Nemendur kynnast ferlinu við að skapa sitt eigið tónverk. Gott er að nýta svokölluð „smart“ hljóðfæri. GarageBand annast hljóðfæraleikinn og nemendur ákveða sjálfir hvernig hann á að vera. Þetta er sérstaklega gott þar sem hljóðfærakunnátta nemenda er misjöfn og fá þeir sem aldrei hafa lært á hljóðfæri tækifæri  til að upplifa hvernig það er að spila og skapa. Einnig býður forritið upp á hljóðupptöku í umhverfinu, s.s. söng, tal eða hljóðfæraleik.

Verkefnahugmyndir (sem unnar voru í Kelduskóla - Korpa með 6. og 7.bekk)
Forritið var kynnt fyrir nemendum á skjávarpa, sérstök áhersla var lögð á:  
•    „smart“ hljóðfærin til að búa til undirleik,
•    „sampler“ - stutt hljóð tekið upp,
•    „record“ - upptaka á umhverfishljóðum.

Í þessu kynningarferli var til smá sýnishorn af lagi sem var síðar notað til að sýna þeim helstu stillingar í forritinu.

Nemendum var skipt í hópa, hver hópur fékk iPad og þeir fengu að „fikta“ í forritinu til að fá hugmyndir sem nýttar voru í tónverkið. Hóparnir fengu svo sérstakt útsetningarblað til að skrá nafn lags, hvaða hljóðfæri voru notuð og hvar, hvernig hljómasetning lagsins var, hvaða umhverfishljóð á að nota og hvar. Blaðið á að sýna nokkurn veginn endaútkomu tónsmíðanna. Mögulegt er að ákveða hvað lagið á að vera margir taktar, t.d. 8 eða 16 taktar, A og B kafli.

Mynd 2

 Vel unnið útsetningarblað

Þegar nemendur höfðu kynnst forritinu og útsett lagið var hægt að hefjast handa við upptökur. Smátt og smátt byrjar tónverkið að byggjast upp. Hóparnir ákveða þemað sem þeir reyna að túlka með laginu, t.d. tröllaþema, himingeimurinn, spennuþrungið lag, sorglegt, gleðilegt eða rómantískt.

Þegar öll tónverkin eru tilbúin er sniðugt að halda tónleika þar sem hóparnir flytja tónverk sín hver fyrir aðra. Hver hópur gæti haldið stutta kynningu þar sem nafn lagsins er útskýrt og hvaða þema var notast við.
Við námsmat er gott er að styðjast við jafningja- og sjálfsmat, þar sem tekið er til greina virkni, hugmyndaflæði, jákvæðni og ánægja. Mat kennara byggist á samræmi útsetningarblaðs og tónverksins í heild. Verkefnið stuðlar að samvinnu, sköpun og frumkvæði. Afurðin er skemmtileg tónlist sem hægt er að vinna áfram með t.d. í stuttmyndagerð.

Allir geta samið tónlist með „smart“ hljóðfærunum, þ.e.a.s. hæfileikar í hljóðfæraleik eru ekki skilyrði. Önnur hugmynd er að láta nemendur vinna undirleik fyrir lög sem verið er að syngja t.d. „Krummi svaf í klettagjá“. Nemendur fengu blað með textanum og hljómasetningu lagsins sem þeir eiga að búa til undirleik við. Hópurinn getur svo allur reynt að syngja lagið með. Nemendur geta verið frumlegir í hljóðfæraskipan og útsetningu undirleiksins. Hægt er að taka upp sönginn við undirleikinn og jafnvel gefa út geisladisk.

Spjaldtölvur henta mjög vel til samþættingar námsgreina, t.d. samþættingu við íslensku; nemendur velja sér ljóð sem þeir lesa upp við tónverkin sín.

Mynd 3

 Nemandi að lesa inn ljóð

Hér má finna tvö dæmi:
•    Latasti hundir í heimi  https://soundcloud.com/korpatonskopun/latasti-hundur-i-heimi-glodis
•    Ingó https://soundcloud.com/korpatonskopun/ingo-broddi

Öll lögin sem nemendur gerðu voru sett á Soundcloud en þar er hægt að geyma hljóðskrár og búa til rás eins og Kelduskóli hefur gert.

Auðvelt er að tengja þessi verkefni við aðalnámskrá grunnskóla, þar sem mikil áhersla er lögð á samþættingu námsgreina, s.s. stærðfræði (form, taktar og talning), íslensku (nafn lags og ljóð), lífsleikni (samvinna) o.s.frv.
Þegar börn fá að skapa fylgir því ánægja og þegar þau sjá og heyra afrakstur sköpun sinnar verður ánægjan enn meiri. Þetta verkefni gefur kennaranum einnig tækifæri á að gefa nemendum sínum leiðbeinandi hrós og það gerir ekkert annað en að bæta birtu við bjarta daga.

Hér má sjá myndband af verkefni sem unnið var í Kelduskóla síðasta vor. http://vimeo.com/97388581

Til gamans má geta að Keldukóli hefur sett upp margar flottar leiksýningar sem hafa vakið mikla athygli og hugmyndin er að nota spjaldtölvur meira við skapandi verkefni í skólanum.

Höfundur: Svanur Bjarki Úlfarsson – tónmenntakennari

Skoðað: 2811 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála