Skip to main content
22. janúar 2015

Breytir texta í mynd

HerdisÞað er alltaf áhugavert að heyra af verkefnum ungra frumkvöðla í upplýsingatækni. Fyrirtækið Gracipe hlaut í fyrra fyrstu verðlaun í frumkvöðlakeppninni Gullegginu með veflausn þar sem uppskriftir eru settar fram á nýjan hátt með því að sameina hráefni, aðgerðir og skref í myndrænni framsetningu.

„Gracipe er í raun stytting á graphical recipe,“ segir Herdís Helga Arnalds þegar hún er spurð um tilurð nafnsins og lokaverkefnið sem hún vinnur að meðfram námi sínu í tölvunarfræði við HR. „Með Gracipe viljum við bjóða notendum tól sem auðveldar þeim að elda mat. Hugmyndin varð til hjá félögum mínum þegar þeir voru í námi í Hollandi og svo kom ég inn í það með þeim.“ Herdís segir Gracipe byggja á myndrænni framsetningu gagna sem er sífellt að verða vinsælli. „Magn upplýsinga í umferð er sífellt að aukast og er mikilvægt að nýta alla möguleika til þess að einfalda framsetningu þeirra svo auka megi skilning fólks og spara þeim tíma.”

Herdís vinnur ásamt öðrum nema í tölvunarfræði við Gracipe og fá þau það metið til eininga. „Þessa dagana erum við í opnum beta-prófunum og erum með 400 manna hóp sem prófar vefinn fyrir okkur. Við komum til að með nýta vel þá endurgjöf sem við fáum frá þeim.“

Gracipe er textagreinir (text-analysis based) sem afritar uppskrift og breytir framsetningu hennar með því að gera hana myndræna. Vefurinn á að þekkja allan orðaforða tengdan matargerð. „Við viljum að kerfið verði alveg sjálfvirkt að þessu leyti og hafi til að bera gervigreind að vissu marki þannig að tölvan læri að breyta mataruppskriftum á textaformi yfir á myndrænt form óstudd. Stefnan er sett á að bjóða mataráhugafólki upp á setja uppskriftir sínar fram á myndrænan hátt með lítilli fyrirhöfn.”  Gracipe leggur mikla áherslu á það að fylgjast vel með framþróun veflausna og segir Herdís að vefarkitektinn, Kai, sé stöðugt að skoða og prófa nýjustu þróunarumhverfi til þess að bæta enn frekar vefsíðuna. Eins og staðan er í dag er bakendi síðunnar þróaður í Python sem þjónar API hlutverki fyrir framendann sem þróaður er í ember.js. Á þennan hátt er vefsíðan ákaflega dýnamísk og getur hún brugðist við skipunum notenda án þess að endurhlaða í sífellu.

Að sögn Herdísar er stefnt að því að prófa Gracipe á íslenskum notendum í náinni framtíð en fyrirtækið hefur jafnframt sett sér markmið um að reyna fyrir sér á stærri markaði í framhaldinu, eins og í Bandaríkjunum.

Viðtal unnið af Guðbjörg Guðmundsdóttir, textagerðar maður við HR

Skoðað: 2261 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála