Skip to main content
25. september 2014

Sýn deildarforseta tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík (HR

ybYngvi Björnsson er ný tekinn við sem forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík (HR) en hann lauk doktorsprófi í tölvunarfræði árið 2002 frá Háskólanum í of Alberta, þar sem hann starfaði í framhaldinu þangað til hann kom til stafa við HR árið 2004. Tölvunarfræðideild HR er stærsta tölvunarfræðideild landsins og gegnir því lykilhlutverki í menntun tölvunarfræðing á Íslandi. Mér þótti því áhugavert að heyra um framtíðarsýn hans á nám í tölvunar- og upplýsingafræði hér á landin og lagði fyrir hann nokkrar spurningar.

Hvar sérðu sóknafæri?  

Það er mikil meðvitund í þjóðfélaginu þessa dagana um mikilvægi tölvunarfræði og upplýsingatækni og endurspeglast það meðal annars í stóraukinni aðsókn í tölvunarfræðinám og mikilli eftirspurn eftir starfsfólki með slíka menntun.  Þetta er mjög jákvætt enda er ljóst að upplýsingatæknin snertir alla þræði samfélagsins og að  til lengri tíma litið er lykillinn að hagsæld okkar Íslendinga að okkur takist að byggja upp öflugan þekkingariðnað hérlendis.  Við þurfum að nýta þennan meðvind til fulls, m.a. með því að bjóða upp á fjölbreyttari námsbrautir en við gerum núna. 

Í dag er staðan þannig að nemendur sem koma úr framhaldsskólunum og hafa áhuga á tölvu- og upplýsingatækni stendur nánast einungis tvær námslínur til boða: annarsvegar BSc í tölvunarfræði og hinsvegar BSc í hugbúnaðarverkfræðin.  Upplýsingatæknin og þau tækifæri sem þar liggja krefast fjölbreyttari starfskafts en við útskrifum úr þessum línum.  Við erum t.d. þegar farið að bjóða upp á blandaðar námsbrautir eins og BSc í tölvunarfræði með viðskiptafræðivali (og öfugt, þ.e. viðskiptafræðideildin bíður upp á viðskiptafræðinám með tölvunarfræðivali), en iðnaðurinn var einmitt að kalla eftir slíkri þekkingu.  Við fórum einnig af stað með slíka þverfaglega námsgráðu á meistarastigi nú í haust, svokölluð MIM gráða (Master of Information Management). Íslendingar eru einnig miklir frumkvöðlar í eðli sínu og okkur hefur þegar orðið nokkuð ágengt að vikja þann kraft til nýsköpunar í upplýsingatækninni enn viljum ganga enn lenga í þá átt.

Hvar sérðu hamlanir?  

Það er sárara en tárum taki að hugsa til þess hversu illa fjármagnað háskólaumhverfið er á Íslandi borið saman við nágrannalöndin. Það er orðið mjög aðkallandi að háskólarnir fái aukið fjármagn --- oft er þörf en nú er nauðsyn.  Einnig þurfum við að breyta viðhorfi nemenda til framhaldsmenntunar, en það er áberandi hversu fáir íslenskir nemendur halda áfram í framhaldsnám að loknu grunnnámi, sér í lagi í tæknigreinum.  Þessi tvö atriði þurfa að breytast til betri vegar ef Ísland hefur hug á að keppa jafnfætis öðrum þjóðum á vettvangi þekkingar- og hátækniiðnaðs.

Hvar sérðu deildina eftir 10 ár?

Að deildin verði áfram í fararbroddi menntunar í upplýsingatækni á Íslandi, að hún standi enn sterkar að vígi í alþjóðlegum samanburði hvað varðar bæði rannsóknir og kennslu, og síðast en ekki síst að hún gegni lykilhlutverki í nýsköpun og uppbyggingu blómlegs þekkingariðnaðar á Íslandi.

Ásrún Matthíasdóttir tók saman

 

Skoðað: 2834 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála