Skip to main content
27. mars 2014

Hin fullkomna blanda

HrafnHrafn Loftsson starfaði um árabil við hugbúnaðargerð en færði sig um set inn í heim akademíunnar og hefur verið kennari við tölvunarfræðideild HR síðustu fjórtán ár auk þess að sinna rannsóknum á sviði máltækni. Síðasta haust fannst honum kominn tími til að hella sér út í hringiðuna á nýjan leik. Ásamt því að sinna kennslu við HR starfar hann nú hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Spretti. „Það greip mig einfaldlega þörf fyrir að breyta til, mér fannst ég vera farinn að segja ansi gamlar sögur í kennslunni,“ segir Hrafn.

Í tölvunarfræði er þróunin ör og því fannst honum mikilvægt að hafa nýjar sögur að segja nemendum. Hann segir kennslu ásamt störfum úti í atvinnulífinu vera góða blöndu, það sé mikilvægt í grunnfögum í tölvunarfræði að miðla því sem er að gerast í atvinnulífinu. Nemendur þurfi að vita um helstu aðferðir við hugbúnaðargerð áður en þeir komi út á vinnumarkaðinn. Hrafn hefur á árum sínum í HR kennt námskeið á öllum stigum náms; Forritun og Gagnaskipan fyrir fyrsta árs nema, Forritunarmál fyrir annars árs nema og Þýðendur fyrir nemendur á þriðja ári. Í meistaranámi hefur hann kennt námskeið á sviði Máltækni, sem er á hans sérfræðisviði, og Vefnám (e. web mining).

„Í starfinu hjá Spretti fæst ég við þróun hugbúnaðar. Fyrirtækið vinnur með viðskiptavinum sínum að vöruþróun þar sem áhersla er lögð á fallegri og skemmtilegri hugbúnaðarupplifun. Við vinnum í teymum þar sem starfsmenn Spretts vinna oft með starfsmönnum fyrirtækja sem verið er að þróa vöruna fyrir.“ Hann segist nú þegar hafa lært mikið. „Á vinnustaðnum kynnist ég margvíslegum nýjum þróunartólum og þar að auki aðferðafræði við hugbúnaðargerð sem ég lærði aldrei í mínu eigin námi, t.d. Agile-aðferðafræðinni. Ég hef hingað til mest notað þróunarumhverfið VisualStudio og forritunarmálið C# sem er einmitt kennt í HR í námskeiðinu Vefforritun. Þekkingin sem Hrafn öðlast í sínu starfi nýtist því nemendum hans vel.

Eru rannsóknir, kennsla og starf hjá hugbúnaðarfyrirtæki ekki þá hin fullkomna blanda fyrir kennara í tölvunarfræði? „Jú, þetta kemur ansi nálægt því nema hvað að rannsóknirnar hafa minnkað verulega en það var eitthvað sem var búist við fyrirfram. Ég þyrfti aðeins fleiri klukkustundir í sólarhringinn ef ég ætti að sinna rannsóknum eins vel og ég gerði áður!“

Texti: Guðbjörg Guðmundsdóttir

Skoðað: 3029 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála