Skip to main content
13. mars 2014

Næsta innrás Google

marino brynjar

Í þessari grein verður fyrirbærinu Google Apps for Education gerð skil en fyrir ekki allt svo löngu hóf Google innreið sína inn í skólakerfið. Nú er Google þekkt fyrir að búa til áhugaverðar lausnir og það lítur út fyrir að þeirra nýjasta lausn sé ein af þeim. Google Apps for Education, sem hér eftir verður vísað til undir skammstöfuninni GAE, sameinar mikið af þekktum lausnum Google inn í pakka sem er sérsniðin að þörfum kennara og nemenda og auðvitað kostar pakkinn ekki krónu. Með GAE er Google ekki aðeins að nútímavæða hugbúnaðarlausnir fyrir skólakerfið heldur einnig að stuðla að breyttum kennsluaðferðum þar sem hnattvæðing er í fyrirrúmi.

Í grunninn samanstendur GAE pakkinn af eftirfarandi tækjum og tólum frá Google og þess ber að geta að ekki er um endanlegan lista að ræða (1).

  • Gmail
  • Calendar
  • Drive
  • Docs  
  • Sheets
  • Slides
  • Sites
  • Vault   
  • Google+
  • Chrome
  • Maps
  • Voice

Eins og listinn ber með sér þá er um að ræða heildstæðan pakka sem ætti að innihalda flest það sem nemendur og kennarar þurfa í sínu daglega skólastarfi. Gmail sér um tölvupóstinn, Calendar heldur utan um viðburði og stundartöflur, Drive er gagnageymslan, Docs er ritvinnslutólið og svona mætti áfram þylja upp. Með því að innleiða GAE er öll kerfisumsjón sett í hendur sérfræðinga hjá Google og þannig þurfa skólar ekki að standa sjálfir í kerfisrekstri og kerfisumsjón. Skólar þurfa eingöngu að sjá til þess að búnaður, þ.e. tölvur og spjaldtölvur, sé í lagi og að netsamband sé stöðugt og hraðvirkt - Google sér svo um rest. Þetta fyrirkomulag gerir skólum kleift að spara umtalsverðar fjárhæðir sem annars færu í ýmis konar upplýsingatæknikostnað því eins og áður kom fram þá kostar GAE ekki krónu. Staðan í dag er oftar en ekki sú að skólar eru að kaupa alls kyns vél- og hugbúnað dýrum dómum og oft þarf að ráða inn sérmenntað starfsfólk í rekstur og viðhald. GAE getur hugsanlega leyst af hólmi stóran hlut þess hugbúnaðar sem skólar hafa verið að kaupa.

Fyrir utan það að vera einföld og ódýr lausn þá fylgir GAE mikið af öðrum kostum (2):

  • Gagnöryggi og gagnaleynd. Gögnin þín tilheyra þér og aðeins þú getur stjórnað aðgengi annarra að þeim.
  • Gagnaaðgengi. Gögnin þín eru aðgengileg hvar og hvenær sem er, í gegnum hvaða tæki sem er.
  • Gagnavarsla. Gögnin þín eru vistuð sjálfkrafa í skýinu og því eru hverfandi líkur á gagnatapi.
  • Betri og hraðvirkari samvinna. Þú og samstarfsfélagi þinn getið t.d. báðir verið að vinna í sama skjalinu á sama tíma þar sem allar breytingar er uppfærðar á rauntíma.
  • Betri og auðveldari samskipti. Þú getur t.d. fengið aðgang að stundartöflum kennara og nemenda og þannig geturðu auðveldað hópvinnu- og fundarskipulag.

Til þess að styðja betur við notkun á GAE þá býður Google upp á spjaldtölvur  og hafa skólar verið að kaupa þær handa bæði nemendum og kennurum til að nota við kennslu. Nokkrar spjaldtölvur eru í boði og eru myndir af þeim hér fyrir neðan. Það er þó mikilvægt að gera grein fyrir því að spjaldtölvurnar eru ekki nauðsynlegar til þess að hægt sé að nota GAE en þeim fylgir þó ákveðið krúnudjásn - Google Play for Education.

 mynd1203
Mynd 1: Spjaldtölvur í boði fyrir Google Play for Education (3).

Google Play for Education, eða GPE, er  áhugaverður hluti af GAE pakkanum. Með GPE geta kennarar fundið allskonar öpp, bækur og myndbönd sem hjálpa þeim við að koma betur til móts við þarfir hvers og eins nemenda. Með GPE kemur ný leið til að nálgast námsefni og þar geta notendur deilt efni með öðrum (4).  Inn á GPE geta kennarar valið öpp og í kjölfarið sent þau á spjaldtölvur þeirra nemenda sem þeir vilja að fái þau. Sum öpp eru ókeypis en önnur ekki og þarf þá viðkomandi kennari að hafa leyfi skólans til að versla fyrir hans hönd.

Reynsla í skólakerfinu

Víðsvegar um heiminn hafa skólar innleitt GAE og  listinn af skólum sem innleitt hafa GAE spannar allan skalann eða allt frá litlum grunnskólum og upp í stóra og virta háskóla. Á listanum eru m.a. Georgetown University, Brown University, University of Westminster, Monash University, University of Benin, Khon Kaen University og margir fleiri skólar (5). Google hefur svo gefið út þrjár tilviksrannsóknir þar sem rannsakað var innleiðingarferli á GAE og GPE í þremur skólum eða skólakerfum. Fjallað verður um þessar þrjár greinar hér að neðan.

HTPS

Hillsborough Township Public Schools (HTPS) er stórt skólakerfi í New Jersey. Það samanstendur af 9 skólum sem samtals telja u.þ.b. 7350 nemendur og eru þeir á aldrinum fimm til tíu ára. Skólastjórn HTPC setti sér það markmið að geta gert nemendum kleift að nýta sér nýjustu tækni til þess að auðvelda þeim námið. Skólastjórnin ákvað að innleiða GAE og keypti 3.000 stykki af Nexus 7 spjaldtölvum fyrir bæði kennara og nemendur. Innleiðingin fór fram um mitt skólaár en gekk þó vandræðalaust fyrir sig, bæði hjá nemendum og kennurum sem og hjá starfsmönnum upplýsingatæknideildar. Með spjaldtölvunum fylgdi aðgangur að GPE og hafa kennarar verið óhræddir við að prófa sig áfram með notkun á öppum við kennslu. Eftir góðan reynslutíma láu svo niðurstöður innleiðingarinnar fyrir:

  • Nýja kerfið hefur hvetjandi áhrif á nemendur og skapar betra lærdómsumhverfi.
  • Notkun GPE í kennslu gefur kost á námi sem er meira einstaklingsmiðað.
  • Tæknin nýtist sem hjálpartæki við námið, en er ekki viðfangsefni sem slíkt (6).

KIPP

KIPP Bridge Charter School er tiltölulega lítill skóli í Oakland í Kaliforníu og er hann í hópi bestu almenningsskóla í fylkinu. Skólinn telur u.þ.b. 319 nemendur og eru þeir á aldrinum tíu til fjórtán ára. Stjórnendur skólans settu sér það markmið að geta veitt nemendum aðgang að upplýsingaveitum á netinu í þeim tilgangi að styrkja undirstöðu þeirra í námi. Stjórnendur stóðu þó frammi fyrir mörgum mismunandi vandamálum en hann átti t.d. aðeins örfáar tölvur og hafði ekkert bókasafn. Ákveðið var að innleiða GAE og keypti Nexus 7 spjaldtölvur fyrir alla nemendur og kennara. Markmiðunum með innleiðingunni náðust og helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Gæði texta frá nemendum jókst til muna með betra aðgengi að upplýsingaveitum.
  • Notkun appa gerði það að verkum að kennslustundir nýttust betur og með þeim áttu kennarar auðveldara með að gera sér grein fyrir stöðu hvers nemanda.
  • Nemendur öðluðust meira öryggi og þorðu frekar að taka þátt í umræðum og kynningum í kennslustundum (7).

The Baldwin School

Maria L. Baldwin School er grunnskóli í Cambridge í Massachusetts. Stjórnendur skólans höfðu áhuga á því að gefa nemendum sínum betra tækifæri til þess að nýta upplýsingaveitur á netinu en stóð frammi fyrir því vandamáli að búa aðeins yfir einni tölvustofu. Þá var áhugi á að stuðla að sjálfstæðari námsvenjum hjá nemendum með því að láta þá hafa spjaldtölvu. Skoðaðar voru nokkrar tegundir af spjaldtölvum en margar þeirra kröfðust þess að upplýsingatæknideild skólans hefði milligöngu um að setja inn og taka út öpp af spjaldtölvunum. Að lokum keypti skólinn inn 36 stykki af Nexus 7 spjaldtölvum fyrir tvo fjórðu bekki og innleiddi bæði GAE og GPE. Með því að fara þessa leið losnaði skólinn við heilmikla vinnu af hálfu upplýsingatæknideildar skólans. Sú deild þurfti aðeins að koma að fyrstu uppsetningu á spjaldtölvunum og svo tóku kennarar skólans við og geta þeir stjórnað miðlægt hvaða öpp væru inni hjá hvaða nemendum á hverjum tíma. Helstu niðurstöður liggja nú fyrir og eru eftirfarandi:

  • Hæfni nemenda til þess að vinna sjálfstætt jókst.
  • Gæði verkefna frá nemendum jókst með því að nota ólík öpp (8).

Niðurstöður

Google Apps og Google Play eru meðal stærstu tæknilausna frá Google og í Education útgáfunum er búið að slípa þær til fyrir skólakerfið. Margar af virtustu stofnunum heims eru farnar að nota þessi kerfi með góðum árangri r. Kostir þess að taka upp þessi kerfi í skólum eru fjölmargir, og má þarf t.d. nefna:

  • Lausnirnar eru ókeypis.
  • Nemendur hafa aðgang að öllu bæði heima hjá sér og í skóla.
  • Tólin sem fylgja GAE eru öll aðgengileg í gegnum vafra og því skiptir ekki máli á hvernig tölvu nemendur og kennarar eru með.
  • Nexus 7 spjaldtölvan er mjög ódýr valkostur og í Bandaríkjunum er Google að selja hana á kostnaðarverði.
  • Auðvelt er að halda miðlægt utan um spjaldtölvur sem tengdar eru í gegnum GAE
  • Spjaldtölvurnar gagnast vel sem hjálpartæki í öllum fögum.

Það er okkar álit að íslensk stjórnvöld ættu að leitast eftir því að innleiða bæði GAE og GPE inn í skólakerfi okkar. Til þess þyrfti þó að liðka um ýmsar reglur, t.d. þær sem segja til um að hugbúnaður í grunnskólum skuli hafa íslenskt viðmót og að kennsluefni í grunnskólum skuli vera á íslensku. Skólakerfi okkar er verulega fjársvelt og hægt væri að spara miklar fjárhæðir með innleiðingu á GAE og GPE - rétt eins og kollegar okkar víðarsvegar um heiminn hafa gert. Að lokum er svo mikilvægt að gera grein fyrir því að GAE og GPE eru engar töfralausnir heldur er einfaldlega um að ræða tæknilega umgjörð sem stuðlar að nútíma skólakerfi.

Höfundar: Brynjar Smári Bragason og Marinó Fannar Pálsson, nemendur í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík.


Heimildir:
( 1 ) http://google.com/enterprise/apps/education/products.html
( 2 ) http://google.com/enterprise/apps/education/benefits.html
( 3 ) http://google.com/edu/tablets/#tablets-family
( 4 ) http://google.com/edu/tablets/#play-intro
( 5 ) http://google.com/enterprise/apps/education/customers.html
( 6 ) http://google.com/en//edu/tablets/pdfs/Google-Play-for-Education-Hillsborough.pdf
( 7 ) http://google.com/en//edu/tablets/pdfs/KIPP_Case_Study.pdf
( 8 ) http://google.com/en//edu/tablets/pdfs/Baldwin-Case-Study.pdf

Skoðað: 3737 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála