JUGICE - Java Notendahópurinn á Íslandi
JUG eða Java User Group, er velþekkt fyrirbæri erlendis, þar sem hundruðir JUG-hópar starfa. Þessir hópar eru mjög misjafnir, bæði að stærð og gerð, en í grunninn samanstanda þeir af fólki sem hefur áhuga á Java forritunarmálinu og öðrum tengdum málum.
Hér á Íslandi, nánar tiltekið í Reykjavík er einn slíkur hópur starfandi. Hann hefur formlega verið starfandi síðan 2007, en þá tók forsprakki hans sig til og skráði hann hjá fyrirtækinu SUN sem opin Java notendahóp. Í skráningarferlinu var eitt af grunnskilyrðunum það, að stofna þyrfti vefsvæði hjá java.net um hópinn, en þar var hægt að halda utan um félagatal, og skrifa fréttir og tilkynningar.
Stuttu eftir að vefsvæðið var opnað, voru 35 aðilar búnir að skrá sig í hópinn. Þá fóru líka að koma í ljós verulegir annmarkar á kerfinu hjá java.net því ekki var hægt að senda út tölvupósta til félaga, né taka út lista yfir netföng þeirra,og þá flutti hópurinn yfir á LinkedIn.com vefsvæðið, þar sem hann hefur verið virkur síðan. Nú hafa um 90 verið skráðir í hópinn á LinkedIn.com en við höfum að auki nýlega tekið í gagnið Facebook-hóp fyrir hópinn.
Til að byrja með var starfsemi hópsins ekki mjög ákveðin, en eftir að LinkedIn.com vefsvæðið var tekið í notkun, hafa verið skrifaðar fréttir og tilkynningar til meðlima hópsins, og einstaka sinnum hafa átt sér stað ágætar umræður þar, um hin ýmsu mál þar. Hópurinn getur einnig verið góður vettvangur til að fá aðstoð við að leysa tæknileg vandamál, því í svona hóp býr mikil reynsla og sérþekking.
Síðasta vetur var svo tekið af skarið, og hópurinn fór að halda fundi. Nú eru haldnir fundir annan hvern mánuð, en þeir eru auglýstir á fyrrgreindum vefmiðlum. Allir sem áhuga hafa eru velkomnir.
Hópurinn starfar frjáls og óbundinn, en á sér góða bakhjarla, eins og Hugsmiðjuna ehf., sem hefur leyft okkur að nota húsakynni sín til fundanna, og svo móðurskipið Oracle, en Oracle hefur einsett sér að styðja vel við bakið á öllum Java notendahópum, t.d. með því að senda þeim boli, bækur eða annað sem er svo gefið til meðlima á fundum, og jafnvel erlenda fyrirlesara ef því er að skipta.
Fundir JUGICE hafa verið mjög skemmtilegir og gagnlegir, þar sem rætt hefur verið um hin ýmsu málefni sem tengjast Java, eða jafnvel önnur forritunarmál, t.d. þau sem nota JVM (scala, groovy, o.fl.), en einnig hafa verið á mælendaskrá aðilar sem vilja kynna tæknilausnir sem talið er að geti gagnast mörgum sem vinna í tilteknum umhverfum. Síðasti fundur var tileinkaður Java7 sem kom út nú í Júlí, og var farið yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á forritunarmálinu frá síðustu útgáfum.
Notendahópurinn sem slíkur hefur góðan aðgang að Oracle, og er einnig aðili að alþjóðlegu neti notendahópa. Þetta gefur hópnum möguleika á að koma tillögum um breytingar eða nýjungar að hjá meðlimum JCP nefndanna, sem sjá um skilgreiningar á næstu útgáfum Java (j2se, j2ee og j2me).
Eins og fyrr segir, þá er öllum sem áhuga hafa á starfsemi hópsins velkomið að vera með. Finnið okkur á LinkedIn.com eða Facebook.com til að fá örugglega tilkynningu um næsta fund.
Höfundur: Reynir Þ. Huebner, JUG-leader of JUGICE
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.