Neytendavæðing
Flestir sem hafa verið á vinnumarkaði í einhvern tíma sjá fyrir sér vinnustað sem skrifstofu þar sem fólk sinnir tilteknum störfum í tiltekin tíma á dag með þeim tækjum sem þeim er séð fyrir af vinnuveitenda.
Aftur á móti eru miklar líkur á að þeir sem eru 30 ára og eldri séu síðustu kynslóðirnar sem líta þeim augum á starf sitt og hvernig því skuli háttað. Þetta á fyrst og fremst við þá sem eru svokallaðir þekkingarstarfsmenn (e. knowledge workers). Þær kynslóðir sem nú eru í framhaldsskólum og munu skila sér inn á vinnumarkaðinn á næstu árum eru alin upp við aðgang að þeim hugbúnaði og gögnum sem þau þurfa, þegar þau þurfa. Á sama tíma er framboð á tækjum sem nota má til samskipta sífellt að aukast og lækka í verði. Það ásamt betri nettengingum sem leiðir til þess að sá tækjabúnaður og tengihraði sem fólk hefur aðgang að er í mörgum tilfellum betri heldur en fyrirtækin geta eða vilja útvega.
Nýleg rannsókn sem gerð var af IDC sýnir að 40% af tækjum (e. Devices) sem notuð voru til aðgengis að hugbúnaði og gögnum fyrirtækja voru í einkaeigu, sem er aukning um 10% frá seinasta ári. Um er að ræða tæki eins og snjallsíma, fartölvur og spjaldtölvur. Ekki nóg með það heldur höfðu starfsmenn í mörgum tilfellum greitt fyrir þau sjálfir. Þessi þróun hefur verið kölluð neytendavæðing (e. Consumerization) og kemur til með að hafa mikil áhrif á rekstur og skipulag fyrirtækja í framtíðinni.
Hámörkun útstöðva (Desktop Optimization, DO)
Væntingar um sveigjanleika er ein af sterkustu áhrifum neytendendavæðingarinnar. Kröfur um aðgang hvar og hvenær sem er, ásamt kröfu um meira valfrelsi á tækjum er eitt af brýnni vandamálum sem stjórnendur tölvukerfa þurfa að leysa. Flestir starfsmenn í dag hafa þó fartölvur en það er dýrara og flóknara að stýra fartölvum en borðtölvum þegar kemur að öryggi gagna og hugbúnaðar. Þegar snjallsímum og spjaldtölvum er bætt við þá eykst flækjustigið.
En hvaða úrræði hafa stjórnendur tölvumála hjá fyrirtækjum til að mæta þessum straum, þörf um meira öryggi, sveigjanleika, síaðgengi að vinnuumhverfi og sífellt meiri samruna einkalífs og starfs. Allt þetta með blöndu af tækjum sem eru ekki endilega öll í eigu eða undir stjórn fyrirtækisins? Þeim spurningum þarf að svara útfrá mörgum sjónarhólum, en hér verður látið nægja að ræða tæknilegar hliðar málsins.
Síðustu ár hafa margar tæknilegar nýjungar litið dagsins ljós sem gera tengingar við fyrirtækjaumhverfi einfaldari, þægilegri og ódýrari en ættu samt í flestum tilfellum að veita nægt öryggi. Má þar nefna TCP/IPv6 netsamskiptastaðalinn, ný stýrikerfi með auknu innbyggðu öryggi, sýndarvæðing og mikla framþróun hugbúnaðar til stýringar á útstöðvum (e. Management software).
Hámörkun útstöðva (e. Desktop Optimization, hér eftir DO) er samansafn af ýmsum vörum og tæknilausnum sem hefur verið í þróun síðustu ár og áratugi (eftir því hvaða framleiðenda eða tæknistaðals verið er að horfa til) sem hafa það að markmiði að aðskilja hin mismunandi lög útstöðva svo hægt sé að stýra þeim aðskilið frá hvoru öðru. Myndin hér að neðan sýnir hin fjögur lög sem er uppistaðan í hverri útstöð og gildir þá einu hvort um er að ræða borðtölvu/fartölvu, spjaldtölvu eða annað tæki. Á ensku er þetta kallað „Technology Stack“.
Lengi vel voru þessi lög svo þétt bundin saman að erfitt eða ómögulegt reyndist að stýra þeim aðskildum frá hverju öðru. Þetta þýddi að umhverfi notenda var bundið við þá tölvu (vélbúnað) sem stýrikerfi, hugbúnaður, stillingar og gögn voru sett upp á. Breyting á einu lagi þýddi þá breytingu á öllum hinum. Einnig var færsla notendagagna eða stillinga á vinnuumhverfi oft erfið.
Eitt af lykilatriðum við aðskilnað þessara fjögurra laga (e. Layers) er sýndarvæðing (e. Virtualization) á öllum stigum. Seinustu ár hafa orðið stórstígar framfarir í sýndarvæðingu þannig að nú er mögulegt að keyra sýndarvæddar útstöðvar sem notandi getur ræst af netþjónum, sýndarvæddan hugbúnað sem færist á milli véla eftir því hvar notandinn er, ásamt færslu á gögnum og stillingum milli véla eftir því hvar notandinn er skráður inn. Notandinn verður því lítið eða ekkert var við breytingar á vinnuumhverfi þótt skipt hafi verið um vél og skiptir þá ekki máli hvort um sé að ræða sýndarvél eða ekki. Hverju lagi er hægt að stýra óháð hinum.
Sem dæmi um hvernig þetta nýtist má nefna verktaka sem vinna inni í tölvuumhverfi fyrirtækis eða stofnunar. Verktakinn þarf aðgang að vissum kerfum t.d. til kerfisstjórnunar eða til hugbúnaðarþróunar en verktaki þarf einnig að nota sína eigin tölvu. Á sama tíma þarf verkkaupi að koma í veg fyrir að forritunarkódi eða gögn séu geymd á tölvu verktakans. Í slíku tilfelli er upplagt að nota svokallaðan Virtual Desktop sem inniheldur stýrikerfi, hugbúnað og stillingar notenda á sýndarútstöð sem keyrð er á netþjóni og varpað er í glugga á vél verktakans. Verkkaupi getur því hindrað að gögn flytjist til eða frá sýndarútstöð (e. Virtual Desktop Session) og vélar verktakans. Reyndar mætti taka þetta skrefi lengra og streyma hugbúnaði á sýndarútstöðina og vista notendastillingar verktakans á netþjónum í stað sýndarútstöðvarinnar sjáflrar og væri þá búið að aðskilja hin fjögur útstöðvarlög fullkomlega. Nánari tæknilegar útlistanir á því hvernig hægt er að útfæra þetta á hugbúnaði frá hinum ýmsu framleiðendum er síðan efni í aðrar greinar.
Niðurlag
Það mun verða erfitt fyrir fyrirtæki framtíðarinnar að líta framhjá neytendavæðingu og á sama tíma að halda samkeppnishæfni sinni. Þeir árgangar sem fæðast upp úr 1980 eru mun smærri en þeir sem á undan komu og því verður mun harðari samkeppni um hæft starfsfólk. Þótt nú sé samdráttur í efnahagslífinu víða um heim þá er ekki víst að slík verði rauninn eftir fáein ár. Hæfasta fólkið mun því leita til þeirra vinnuveitenda sem bjóða starfsskilyrði og aðstöðu sem mætir kröfum þessa hóps. Val um notkun, stað, tíma og tæki er hluti af þeim atriðum sem eru metin í því samhengi. Sem dæmi má nefna að sumir evrópskir bankar eru þegar farnir að leita leiða til að bjóða starfsfólki að nota sínar eigin fartölvur í vinnunni án þess að auka líkurnar á vírussmiti svo eitt nærtækt dæmi sé nefnt.
Af þessu dæmi sést að neytendavæðing er að byrja að hafa áhrif og besta leiðin til að mæta þessum fyrirsjánalegu breytingum er að mæta þeim af ákveðni og setja niður stefnu sem miðar að því að hagnýta sér breytingar sem munu verða. Til dæmis geta stjórnendur leitað leiða til að búa sér til samkeppnisforskot með því að vefa saman samfélags vefi og viðskiptahugbúnað t.d. til samskipta við viðskiptavini.
Umfjöllunarefni þessarar greinar hefur snert á mörgum þáttum sem margir hverjir gætu verið efni í greinar eða greinarflokka fyrir sig. Eitt hugtak sem má nefna sem beint framhald neytendavæðingar gengur undir nafninu „New World of Work“ sem enn hefur ekki verið smíðað íslenskt nýyrði fyrir.
Það eru þrjú meginatriði bak hugtakinu:
Fólk: Í nútímasamfélagi er viðhorf til tækni að breytast í takti við að ný tól eru orðin aðgengileg flestum ef ekki öllum sem gefa möguleika til samskipta og samstarfs eftir margvíslegum leiðum og getur þá verið um að ræða, texti, hljóð, mynd og hvort sem er samstillt (samtal) eða ósamstillit asynchronous (t.d. tölvupóstur)
Staðsetning: Meira af vinnu fólks fer fram meðan það er á ferð. Sem dæmi má taka flug, dagleg ferð til og frá vinnu, á mismunandi starfsstöðum vinnuveitenda eða hjá viðskiptavinum.
Tækniþróun: Framþróun í tækni hefur leitt til þess að hugmynd sem við höfum gert okkur af skrifstofu sem fastmótaðs vinnustaðar er óðum að víkja fyrir hugmyndinni um að geta unnið hvar og hvenær sem er.
Þetta á ekki við að allar tegundir starfa þar sem sum störf eru óhjákvæmilega bundin við tíma og stað og má þar nefna framleiðslu- og þjónustustörf sem krefjast þess að starfskraftur sé líkamlega til staðar. En þegar kemur að þekkingarstarfsmönnum þá er þróunin sú að krafan um að geta starfað hvar og hvenær sem er verður æ meira áberandi. Það verður því spennandi að fylgjast með þróuninni á þessu sviði á næstu árum.
Höfundur: Jón Harry Óskarsson
Microsoft Services
IT Arkitekt, Kerfisfræðingur, MBA
MCIPT, MCTS, MCSE
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.