Skip to main content
30. maí 2009

Opinber gögn - vannýtt auðlind

Ríkisstofnanir og aðrir opinberir aðilar safna gríðarlegu magni af gögnum. Söfnun gagna er beinlínis meginhlutverk sumra stofnana, svo sem Hagstofunnar. Aðrar stofnanir hafa þetta meðal fleiri markmiða sinna og hjá nær öllum stofnunum safnast upp gögn af einhverju tagi, svo að segja sem aukaafurð af annarri starfsemi. Í gögnum felast verðmæti.Í þessari grein er einkum átt við formföst gögn (e. structured data), þ.e. tölfræði, gagnagrunna, spjaldskrár og þess háttar. Í stuttu máli allt sem eðlilegt gæti talist að birta í töflu. Þetta innifelur margvísleg gögn, allt frá fjárlögum og mannfjöldatölum til orðabókarupplýsinga, veðurathugana og hnattstöðu eftir heimilisföngum - svo einhver dæmi séu tekin.

Í þessum gögnum eru fólgin mikil verðmæti. Gögn sem safnað hefur verið í áraraðir, jafnvel aldir (eins og í tilfelli mannfjöldatalna) eru fjársjóður efnahags- og samfélagslegra upplýsinga. Það fyrirkomulag sem ríkir um þessi gögn, gerir það samt að verkum að þessi miklu verðmæti eru aðeins nýtt að litlu leyti.


Skortur á aðgengi er hindrun

Meginástæðan þess að einungis er hægt að nýta gögn að hluta er sú að aðgangi að þessum gögnum er stórlega ábótavant. Í fyrsta lagi getur verið erfitt að finna gögnin, eða yfir höfuð komast að því hvaða gögn eru til. Engin miðlæg skrá er til yfir gagnasöfn á vegum opinberra aðila og margar stofnanir birta ekki einu sinni upplýsingar um gagnasöfn sín, hvorki á vefnum né annarsstaðar.

Alvarlegra vandamál er að ýmsar hindranir standa í vegi fyrir aðgangi að þessum gögnum. Sumar þessara hindrana eru óviljaverk, aðrar stafa af skorti á fjármagni og enn öðrum er jafnvel komið á viljandi. Meðal þeirra síðastnefndu eru leyfisgjöld, lokuð eða óhentug skráarsnið og margskonar óþarfar lagaflækjur.

Einkum er sú sértekjukrafa sem sett er á margar stofnanir hér skaðleg. Stofnanirnar reyna að ná þessum sértekjum af gagnasöfnum sínum með gjaldtöku. Helstu áhrif hennar verða þau að ríkisstofnanir borga hver annarri fyrir notkunina, en aðrir hverfa frá vegna kostnaðar. Engar nýjar tekjur verða til hjá ríkinu og engin verðmætasköpun verður í einkageiranum eða háskólunum.
Opin gögn

Á vefsíðunni opingogn.net má finna ítarlega skilgreiningu á opnum gögnum. Í fáum orðum er hægt að skilgreina að opin gögn eru gögn sem eru laus við allar laga-, tækni- og viðskiptalegar hindranir á notkun eða dreifingu. Almenna reglan ætti að vera sú að gögn í eigu opinberra aðila séu opin nema aðrir hagsmunir, einkum persónuverndarsjónarmið, gefi ástæðu til annars. Styðja má við þessa reglu með ýmsum rökum.

Í fyrsta lagi var þessum gögnum safnað fyrir almannafé. Við, skattgreiðendur, höfum með öðrum orðum þegar keypt vöruna og eigum rétt á að fá hana afhenta. Ef söfnun viðkomandi gagna er ábatasöm starfsemi í sjálfu sér ættu það að vera einkafyrirtæki, ekki hið opinbera, sem stendur fyrir söfnun þeirra.

Í öðru lagi veita gögnin okkur innsýn í starfsemi þessara stofnana. Stofnununum er þar með veitt aðhald, svipað því sem upplýsingalögin veita varðandi opinber skjöl.

Mikilvægustu rökin eru samt þau að opið aðgengi borgar sig. Opnun gagna og þar með óheftur aðgangur fyrirtækja, vísindamanna, námsmanna, frumkvöðla og hugmyndríkra einstaklinga stuðlar að nýsköpun og leysir úr læðingi verðmæti langt umfram það sem nokkur ríkisstofnun er fær um að gera eða ætti að verja sínum takmörkuðu fjármunum í að reyna.

Tækifæri til nýsköpunar

Sum þessara verðmæta geta verið einfaldir tölvuleikir á vefnum. Dæmi um slíkt væri t.d. krossgátuspil á íslensku, sem e.t.v. hefði takmarkað efnahagslegt gildi en þeim mun meira skemmtanagildi. Opnara aðgengi að gögnum er líka líklegt til að leiða til nýrra vísindauppgötvana, þegar gögn úr ólíkum áttum eru tengd saman og áður óþekkt samhengi blasir allt í einu við. Enn önnur verðmæti gætu svo orðið til við það að einhver taki sig til og útbúi myndræna framsetningu á gögnum sem veitir nýja innsýn í grunnvirkni samfélagsins og sýni þar með hvar hættur eru fyrir hendi eða tækifæri eru til úrbóta.

Nýleg rannsókn á notkun opinberra gagna í Bretlandi komst að þeirri niðurstöðu að hindranir í aðgengi kostuðu breskt samfélag um 1 milljarð punda árlega í glötuðum tækifærum og skorti á samkeppni á ýmsum sviðum. Engin sambærileg úttekt hefur verið gerð hér á landi, en reiknað yfir í íslenskar krónur og miðað við höfðatölu væru þetta vel á annan milljarð árlega hér á Íslandi. Með þeim rökum að opið aðgengi og ríkari áhersla á miðlun gagna hefði e.t.v. getað forðað, þó ekki væri nema litlum hluta, af því efnahagshruni sem hér varð má leika sér að því að margfalda þessa tölu.

Í öllu falli er hér um að ræða stórt tækifæri sem þarfnast aðeins lítilsháttar viðhorfsbreytingar og stefnumörkunar frá stjórnvöldum, en mun skila sér í auknum verðmætum og skilvirkara starfi hins opinbera.

Höfundur: Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri DataMarket

Skoðað: 6642 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála